Ökukennslan Misjafnt hvað nemendur eru fljótir að tileinka sér færnina sem þarf, segir Þuríður B. Ægisdóttir, sem hefur verið lengi í faginu.
Ökukennslan Misjafnt hvað nemendur eru fljótir að tileinka sér færnina sem þarf, segir Þuríður B. Ægisdóttir, sem hefur verið lengi í faginu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Breytingar á hinu bóklega ökuprófi eru vonandi til bóta, segir Þuríður B. Ægisdóttir, formaður Ökukennarafélags Íslands. Prófið hefur verið gagnrýnt, meðal annars fyrir hve þungt það sé og orðalag sé oft tyrfið

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Breytingar á hinu bóklega ökuprófi eru vonandi til bóta, segir Þuríður B. Ægisdóttir, formaður Ökukennarafélags Íslands. Prófið hefur verið gagnrýnt, meðal annars fyrir hve þungt það sé og orðalag sé oft tyrfið. Til að mynda hefur verið refsað fyrir röng svör í krossaspurningum og þannig verða til villustig sem hafa áhrif á heildarútkomu. Nú hefur komið fram að Samgöngustofa mun breyta prófinu og það er væntanlegt í nýrri útgáfu innan tíðar.

„Þetta þarfnast endurskoðunar; við höfum heyrt á okkar nemendum að þeim þykir prófið snúið. Inntak svona prófs hlýtur að vera að kanna þekkingu þeirra sem taka það á umferðarreglum og hvernig samgöngur virka. Lesskilning á að prófa annars staðar,“ segir Þuríður í samtali við Morgunblaðið.

Prófið sé sanngjarnt og áreiðanlegt

Fall á bóklegu ökuprófi hefur á síðustu árum þótt nokkuð hátt, eða um 50%. Nýtt bóklegt próf ætti að liggja fyrir á næstu vikum, að því er fram hefur komið í fréttum. Í því prófi verða alls 50 spurningar og þarf einkunn nemenda að vera 9,2 svo þeir nái; fjögur svör af 50 mega vera röng.

„Þetta eru nokkuð miklar kröfur virðist mér vera. Mikilvægast er að prófið sé sanngjarnt, áreiðanlegt og prófi nákvæmlega það sem til er ætlast,“ segir Þuríður. Hún bætir við að ekki hafi verið haft neitt samráð af hálfu Samgöngustofu við ökukennara um breytt fyrirkomulag prófsins. Slíkt hefði þó verið æskilegt. Heppilegra hefði líka kannski líka verið að bíða ögn með nýtt próf, samanber að ný reglugerð um umferðarmerki tók gildi í febrúar síðastliðnum. Inntak reglugerðarinnar eigi þó ekki að setja inn í bóklega námið fyrr en í haust. Þarna hefði þurft betri tengingu.

Sextán ára er hægt að hefja ökunám, sem er 25 kennslustundir í bóklegu námi. Verklegt nám hjá ökukennara er 17-25 kennslustundir. Einnig fer fram kennsla á sérstöku æfingasvæði eða ökugerði. Margir ökunemar nýta sér einnig æfingaakstur; að mega eftir minnst 10 tíma hjá kennara keyra undir handleiðslu til dæmis foreldra. Fá þannig þjálfun og reynslu sem kemur sér auðvitað vel þegar að sjálfu ökuprófinu kemur að námi loknu. Skírteinið fæst við 17 ára aldur og margir minnast ef til vill þess spennings sem fylgir því að fá skírteinið. Sums staðar, til dæmis úti á landi, gilti að krakkar máttu mæta á lögreglustöðina á miðnætti afmælisdagsins. Sækja skírteinið þar og þá. Aka svo inn í framtíðina. – Yfirleitt gengur nemendum vel á verklega prófinu og um um 90% ná því í fyrstu atrennu.

Fyrst kvenna formaður

„Ökukennslan er skemmtilegt verkefni en fólk er misjafnlega fljótt að tileinka sér færni í akstri. Sumir eru fljótir að ná góðri tilfinningu fyrir bílnum og reglunum en aðrir þurfa lengri tíma. Mikilvægast er annars að fólk öðlist færni í akstri og verði öruggt úti á vegunum, öðlist umferðarlæsi. Þetta er sérstaklega mikilvægt að fólk tileinki sér nú þegar umferð þyngist stöðugt og verður meira krefjandi,“ segir Þuríður B. Ægisdóttir sem hefur starfað við ökukennslu nú í rúm 20 ár. Hún er nú á sínu þriðja starfsári sem formaður Ökukennarafélags Íslands og er fyrst kvenna í því embætti. Um þrjú hundruð manns eru í félaginu. Þar af eru virkir kennarar um tvö hundruð og fimmtíu og hefur þeim fjölgað mjög ört á síðustu árum.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson