Hallgrímur Pétursson
Hallgrímur Pétursson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Miðstöð íslenskra bókmennta tilkynnti nýverið styrkveitingar til ritverka úr þremur sjóðum sem nema alls um 38 milljónum íslenskra króna. Í ár var úthlutað tæplega 21 milljón króna í útgáfustyrki til 41 nýs íslensks ritverks

Miðstöð íslenskra bókmennta tilkynnti nýverið styrkveitingar til ritverka úr þremur sjóðum sem nema alls um 38 milljónum íslenskra króna.

Í ár var úthlutað tæplega 21 milljón króna í útgáfustyrki til 41 nýs íslensks ritverks. Alls bárust 66 umsóknir og sótt var um rúmlega 74 milljónir króna í heild. Hallgrímur Pétursson, Rauði krossinn, örnefni, listdans, arkitektúr og hernámsæskan eru meðal umfjöllunarefna í þeim verkum sem hljóta styrki í ár. Kappkostað er að styrkja verk sem hafa menningarlegt og þekkingarfræðilegt gildi.

Í fyrri úthlutun ársins til þýðinga á íslensku voru 27 styrkir veittir að upphæð 8,8 milljónir króna. Alls bárust 37 umsóknir að þessu sinni en seinni úthlutun ársins fer fram í nóvember. Um er að ræða verk héðan og þaðan, bæði samtímaverk og klassískar heimsbókmenntir. Von er á þýðingum á verkum eftir höfundana R.F. Kuang, Atef Abu Saif, Nitu Prose, Annie Ernaux, Franz Kafka og fleiri. Þýtt er úr ensku, frönsku, ungversku, þýsku, spænsku og forngrísku og meðal þýðenda eru Ingunn Snædal, Jón Hallur Stefánsson, Þórhildur Ólafsdóttir, Bjarni Jónsson og Helga Soffía Einarsdóttir.

Átta milljónir voru veittar úr barna- og ungmennabókasjóðnum Auði til 25 verka sem koma út á næstunni. Alls bárust 45 umsóknir og sótt var um 30,6 milljónir króna. Höfundar verkanna sem hljóta styrki eru bæði reyndir barnabókahöfundar sem og höfundar sem eru að stíga sín fyrstu skref í heimi barnabóka, segir í tilkynningu. Þar má nefna Þórarin Eldjárn, Gunnar Helgason, Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur, Önnu Dröfn Ágústsdóttur og Guðna Valberg og Bjarna Fritzson.