Hildur Björnsdóttir
Hildur Björnsdóttir
Sífellt eru undirritaðar viljayfirlýsingar sem engu skila. Ferð án fyrirheits í húsnæðismálum – glitrandi umbúðir um lítið innihald.

Hildur Björnsdóttir

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 dregur upp dökka mynd af rekstri borgarinnar. Rekstrarhalli samstæðunnar reyndist 13 milljörðum lakari en áætlun gerði ráð fyrir og skuldir jukust um 50 milljarða. Þá nam halli borgarsjóðs tæpum fimm milljörðum. Reksturinn er ósjálfbær og boðaðar hagræðingar hafa engu skilað.

Hvað myndir þú gera við peninginn?

Rekstrarvandi borgarinnar spannar langt skeið. Ef sérstaklega er skoðað tímabilið 2014 til 2023 má rýna hvernig reksturinn hefur þróast í borgarstjóratíð Dags B. Eggertssonar.

Í ljós kemur að frá því að borgarstjóri tók við árið 2014, og þar til tíð hans lauk 2023, hefur skattbyrði á hvern starfandi borgarbúa aukist um 22% á föstu verðlagi, og skuldir á hvern borgarbúa aukist um 91% á föstu verðlagi. Þannig hefur skattbyrði á heimili með meðaltekjur aukist um 627 þúsund krónur yfir tímabilið. Hvað gæti þitt heimili gert fyrir þessa fjármuni?

Glitrandi umbúðir um lítið innihald

Í ársbyrjun 2023 undirrituðu þáverandi borgarstjóri og þáverandi innviðaráðherra samkomulag um uppbyggingu 2.000 íbúða árlega í Reykjavík næstu fimm árin. Tilefnið var ærið enda gríðarleg uppsöfnuð húsnæðisþörf í borginni sem jafnframt er fyrirséð til framtíðar.

Það skaut því skökku við þegar byggingarfulltrúi birti tölur yfir fullbyggðar íbúðir í Reykjavík árið 2023 en þær reyndust aðeins 1.000 og eru áætlaðar aðeins 800 þetta árið. Þá vakti jafnframt athygli í nýbirtum ársreikningi að tekjur af sölu byggingarréttar voru 2,7 milljörðum undir áætlun árið 2023.

Þetta er gömul saga og ný. Sífellt eru undirritaðar viljayfirlýsingar sem engu skila. Ferð án fyrirheits í húsnæðismálum – glitrandi umbúðir um lítið innihald.

Slóðaskapur og fúsk

Á dögunum birtist sláandi umfjöllun í Kastljósi sem varpaði ljósi á umdeilda samninga borgarinnar við olíufélögin, um ríflegar uppbyggingarheimildir án endurgjalds.

Þótt sannarlega sé bæði sjálfsagt og eðlilegt að borgaryfirvöld starfi vel með atvinnulífi í Reykjavík má öllu ofgera. Samningarnir voru borginni verulega óhagfelldir en í umfjöllun Kastljóss kom fram að borgin hefði með samningunum orðið af minnst 10 milljörðum króna.

Það þarf vart að nefna öll verkefnin sem hefði mátt ráðast í fyrir þessa fjármuni; uppbyggingu nýrra leikskóla, endurnýjun skólahúsnæðis, aðstöðumál íþróttafélaga eða niðurgreiðsla skulda, svo eitthvað sé nefnt. Nú þarf að velta við hverjum steini, og fyrirbyggja að annað eins endurtaki sig. Sjálfstæðismenn lögðu því til að samningunum yrði vísað til innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar. Tillagan hefur verið samþykkt.

Ábyrg og heiðarleg viðbrögð óskast

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks kalla eftir ábyrgum og heiðarlegum viðbrögðum við rekstrarvanda borgarinnar. Þess skal gætt að vel sé farið með verðmæti í eigu borgarbúa. Slóðaskapur og fúsk skal hvergi líðast. Ráðast þarf í hagræðingar, minnka yfirbyggingu, ráðast í eignasölu og hefja skipulega niðurgreiðslu skulda. Einungis þannig náum við áþreifanlegum árangri.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.