Benedikt Friðbjörnsson fæddist á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd 4. júní 1934. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Hlíð 29. apríl 2024.

Foreldrar hans voru Jakobína Ólöf Kristjánsdóttir, f. 29. apríl 1911, d. 19. nóv. 2013, og Friðbjörn Olgeirsson, f. 13. sept. 1898, d. 31. des. 1982.

Systkini Benedikts: Kristín, f. 1. júlí 1930, d. 29. júní 2022, Jóhannes Olgeir, f. 24. des. 1940, Kristján Friðrik, f. 14. des. 1943, d. 17. des. 1998, Sæmundur Gauti, f. 19. des. 1946.

Benedikt kvæntist 2. sept. 1956 Hallfríði Svavarsdóttur, f. 25. apríl 1938, d. 30. ágúst 2012. Foreldrar hennar voru Sigríður Sigurðardóttir, f. 3. júlí 1909, d. 29. sept. 1987, og Jón Svavar Ellertsson, f. 11. jan. 1911, d. 18. júlí 1992.

Börn Benedikts og Hallfríðar eru: 1) Hörður, f. 21. sept. 1955, giftur Freyju Rögnvaldsdóttur, f. 1954, börn þeirra eru: a) Rögnvaldur, f. 1979, b) Berglind, f. 1990. 2) Kristján Ellert, f. 20. sept. 1956, giftur Ólöfu Línberg Gústafsdóttur, f. 1956, börn þeirra eru: a) Edda Línberg, f. 1982, b) Gústaf Línberg, f. 1987, c) Ólöf Línberg, f. 1990, d) Benedikt Línberg, f. 1996. 3) Steinunn, f. 25. jan. 1959, gift Árna Jónssyni, f. 1959, börn þeirra eru: Hallfríður, f. 1978, b) Anna Guðrún, f. 1982, c) Jón Svavar, f. 1989. 4) Ólöf, f. 23. maí 1963, gift Magnúsi Magnússyni, f. 1976, börn hennar eru: a) Jóhann Orri, f. 1989, b) Benedikt, f. 1990. 5) Sigríður, f. 26. júlí 1965, börn hennar eru: a) Finnbogi, f. 1989, b) Kristín Helga, f. 1995. 6) Friðbjörn, f. 21. okt. 1968, giftur Thelmu Baldursdóttur, f. 1973, börn þeirra eru: a) Baldur Smári, f. 1995, b) Benedikt, f. 2004. 7) Benedikt, f. 30. okt. 1974, giftur Guðrúnu Rut Guðmundsdóttur, f. 1970, börn þeirra eru: a) Hallfríður Anna, f. 2005, b) Ingólfur Árni, f. 2007, c) Berglind Gyða, f. 2012.

Benedikt bjó á Gautsstöðum til tvítugs, þá stofnuðu þau Haddý sitt eigið heimili. Fyrsta heimili þeirra var í lítilli kytru uppi á háalofti á Svalbarði, fluttu þau síðan í Nóatún. Síðar keyptu þau Sæborg þar sem þau ólu upp sín sjö börn. Benedikt vann ýmis störf hjá KSÞ. Hann eignaðist sinn eigin vörubíl og starfaði lengst af sem bifreiðastjóri, síðar sem vélgæslumaður og endaði sinn starfsferil sem hægri hönd konu sinnar í Haddýjarbakaríi, sem þau ráku saman um langt árabil.

Benedikt verður jarðsunginn frá Svalbarðskirkju í dag, 9. maí 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Í dag kveð ég elsku pabba, með tár á hvarmi þakka ég þér fyrir allt og kveð þig með þessu ljóði eftir Þórunni Sigurðardóttur sem segir allt sem segja þarf:

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta,

Þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku pabbi, hafðu þökk fyrir allt.

Þín dóttir,

Ólöf.

Ég þakka allt frá okkar fyrstu kynnum

það yrði margt, ef telja skyldi það.

Í lífsins bók það lifir samt í minnum

er letrað skýrt á eitthvert hennar blað.

Ég fann í þínu heita stóra hjarta,

þá helstu tryggð og vináttunnar ljós.

Er gerir jafnvel dimma vetur bjarta

úr dufti lætur spretta lífsins rós.

(Margrét Jónsdóttir)

Í dag kveð ég tengdaföður minn hann Benna. Hann var ekki maður margra orða, en hann kunni að hlusta. Ég man þegar ég kom fyrst í Sæborg, þá sat hann í stofunni og prjónaði sokka og Haddý í eldhúsinu að stússa í mat. Það var alltaf nóg að gera á stóru heimili og voru þau samstillt í því að láta allt ganga. Þegar ég var um tvítugt þá kom ég í Sæborg og átti að sjá um heimilið þegar Haddý fór til mömmu minnar og ætlaði að vera þar þar til yngsta barnið kæmi í heiminn. Ég var nú ekki mikil búkona en ákvað að þetta ætti ég að geta. Ég viðurkenni að ég hálfkveið fyrir að fara að sjá um mat á heimili þar sem allt gekk smurt í eldamennsku. Ég eldaði á kvöldin og aldrei kvartaði Benni yfir eldamennskunni, en eflaust hafa Haddý og mamma kímt yfir búkonunni. Eftir kvöldmatinn sátum við með kaffibolla og hann sagði mér skemmtilegar sögur frá því að hann var í vegagerð hér og þar um landið og það var mikið hlegið og þá í raun og veru kynntist ég Benna. Hann var laghentur maður og ófáar stundir var hann búinn að hjálpa til við húsbyggingar og fyrir það er ég þakklát, hann var úrræðagóður og traustur. Ég þakka honum samfylgdina í rúm 50 ár og kveð hann með virðingu og þakklæti.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Elsku Hörður, Eddi, Steina, Ólöf, Sigga, Bjössi og Benni og fjölskyldur, ég votta ykkur mína dýpstu samúð og megi Guð gefa okkur öllum styrk í sorginni.

Freyja Rögnvaldsdóttir.

Elsku Benni afi.

Nú þegar við kveðjum þig gerum við það með miklum söknuði. Við minnumst þess þegar við heimsóttum þig og ömmu í Sæborg og þið gáfuð okkur soðið brauð, reykta tungu og margt annað gott. Einnig minnumst við þess eftir að þú varst fluttur í bæinn með Birtu að þið komuð reglulega í lambalæri sem Birtu þótti svo gott. Við munum einnig minnast allra annarra góðra samverustunda sem við áttum með þér elsku Benni afi. Minningarnar um þig verða alltaf geymdar á sérstökum stað í hjarta okkar þar sem aðeins bestu minningarnar eru geymdar.

Þú bauðst mér allt það besta

sem bjóstu til hvert sinn

ég þáði það með þökkum

það gladdi huga minn.

Þú gafst með gleði í hjarta

það gull er best ég finn

það var brosið bjarta

og blíði faðmur þinn.

Hallfríður Anna,
Ingólfur Árni og
Berglind Gyða.