Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir (FSRE) hefur auglýst eftir aðilum sem eru tilbúnir að standa að rannsókn á mögulegri efnistöku í landi ríkisjarðarinnar Eskeyjar. Hún er vestan við Höfn og innan marka sveitarfélagsins Hornafjarðar

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir (FSRE) hefur auglýst eftir aðilum sem eru tilbúnir að standa að rannsókn á mögulegri efnistöku í landi ríkisjarðarinnar Eskeyjar. Hún er vestan við Höfn og innan marka sveitarfélagsins Hornafjarðar. Gerðar eru ríkar kröfur til bjóðenda.

Malarnámið er við árósa Hólmsár, sem er jökulá. Samkvæmt upplýsingum FSRE er um að ræða perlumöl, sem þykir m.a. henta vel í skrúðgarða, sundlaugar o.fl. Rannsóknarleyfið mun svo sýna fram á samsetningu á mölinni og hvort um vinnanlegt efni er að ræða. Ef gæðin eru mikil eru miklir möguleikar á útflutningi.

Til að byrja með þarf samstarfsaðili FSRE í verkefninu að leggja í talsverðan kostnað við innviðaframkvæmdir ef af rannsókninni getur orðið. Leggja þarf veg að reitnum þar sem námið fer fram og mögulega setja upp bryggju fyrir útskipun. Þá felst talsverður kostnaður í vélum til að ná í og vinna efnið. Sala á efninu sem tekið verður á að standa undir þessum kostnaði.

Fram kemur í tilkynningu á heimasíðu FSRE að rannsóknarsvæðið sé um 2,5 hektarar að stærð. Um er að ræða tímabundið rannsóknarleyfi um efnistöku upp að ákveðnu magni innan svæðis í eigu ríkisins.

Óskað er eftir tilboðum í endurgjald fyrir nýtingu á allt að 3.500-4.000 tonnum malarefnis. Gerð er krafa um að afrit af rannsóknarniðurstöðum á malarefninu verði afhent FSRE til eignar og hagnýtingar.

FSRE segir að markmiðið með markaðskönnun þessari sé að tryggja að samkeppni geti orðið um mögulega úthlutun á auðlindanýtingu landsins. Og með því að auglýsa sé einnig verið að gæta þess að unnið verði að faglegri áætlanagerð við nýtingu lands.

Séu með flekklausan feril

Fram kemur í gögnum að hið opinbera geri ríkar kröfur til aðila sem það á í viðskiptasambandi við.

Til dæmis verður ekki gengið til samninga við aðila/þátttakanda sem hefur verið sakfelldur með endanlegum dómi fyrir eftirtalin afbrot:

Þátttöku í skipulögðum glæpasamtökum, spillingu, sviksemi, hryðjuverk eða brot sem tengjast hryðjuverkastarfsemi, peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka eða barnaþrælkun eða annars konar mansal.

Áhugasömum um aðild að verkefninu ber að skila gögnum til FSRE eigi síðar en kl. 13.00 hinn 30. maí nk.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson