Erfiðar aðstæður Skipverjar á björgunarskipinu Þór við skipshlið Grettis.
Erfiðar aðstæður Skipverjar á björgunarskipinu Þór við skipshlið Grettis. — Ljósmynd/Landhelgisgæslan
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ekkert varðskip var á Íslandsmiðum síðastliðið föstudagskvöld þegar dráttarbáturinn Grettir sterki fékk á sig sjó suður af landinu og kallaði eftir aðstoð. Fimm menn voru um borð í dráttarbátnum. Varðskipið Þór var við æfingar í námunda við Færeyjar …

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Ekkert varðskip var á Íslandsmiðum síðastliðið föstudagskvöld þegar dráttarbáturinn Grettir sterki fékk á sig sjó suður af landinu og kallaði eftir aðstoð. Fimm menn voru um borð í dráttarbátnum.

Varðskipið Þór var við æfingar í námunda við Færeyjar og Freyja var í höfn í Siglufirði og áhöfnin í fríi og dreifð um landið. Björgunarstörf gengu vel þótt ekkert varðskip væri tiltækt þá stundina.

„Viðbragðsgeta þjóðarinnar á miðunum umhverfis landið byggist á loftförum Landhelgisgæslunnar, varðskipunum Þór og Freyju, björgunarskipaflota Landsbjargar og fiskiskipaflotanum sjálfum, ef svo ber undir,“ segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.

Þegar stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk tilkynningu þess efnis að Grettir sterki væri að taka á sig sjó var þyrlusveit LHG þegar í stað kölluð út til að flytja dælur um borð, segir Ásgeir. Einnig var björgunarskipið Þór í Vestmannaeyjum kallað út í sama tilgangi auk lóðsins frá Vestmannaeyjum. Grettir sterki var þá staddur suðaustur af Vík í Mýrdal.

Þyrlusveitin fyrst á staðinn

Þyrlusveitin var fyrst á vettvang með tvo sigmenn og dælur og skömmu síðar kom áhöfnin á björgunarskipinu Þór með aukinn búnað. „Viðbragð Landhelgisgæslunnar, Landsbjargar og Lóðsins var afar gott og vel gekk að dæla úr skipinu og koma því til hafnar í Vestmannaeyjum,“ segir Ásgeir.

Hann metur það svo að þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og björgunarskip Landsbjargar hefðu í umræddu atviki að öllum líkindum verið fyrstu bjargir á staðinn eftir sem áður þrátt fyrir að varðskip hefði verið innan lögsögunnar. Mestu máli skipti að sjódælum var komið hratt og örugglega um borð í skipið. Vegna skjóts viðbragðs séu þyrlur í mörgum tilfellum fljótlegasti kostur í slíkum útköllum.

„Verklag Landhelgisgæslunnar gekk fullkomlega upp í útkalli helgarinnar, vel gekk að dæla úr skipinu og Grettir sterki komst fljótt og örugglega til hafnar. Fjarvera varðskipsins hafði lítil sem engin áhrif í umræddu útkalli sem gekk vel fyrir sig,“ segir Ásgeir.

Varðskipið Þór var við þátttöku í björgunaræfingu Atlantshafsbandalagsins, Dynamic Mercy, í nágrenni Færeyja. Æfingin er árleg og var skipulögð fyrir mánuðum. Ásgeir segir afar mikilvægt að Ísland taki þátt í slíkum æfingum með samstarfsþjóðum sínum og leggi sitt af mörkum til slíkrar samvinnu.

Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu áður hefur Landhelgisgæsla Íslands margoft bent á nauðsyn þess að hafa tvö varðskip til taks hverju sinni á miðunum umhverfis Ísland. Sama staða hefði verið uppi síðastliðið föstudagskvöld ef Þór hefði verið innan íslensku efnahagslögsögunnar en fyrir norðan, austan eða vestan land við eftirlitsstörf. Af þeim sökum væri afar mikilvægt að hafa bæði skipin á sjó hverju sinni.

Þröngur fjárhagur hefur sniðið Landhelgisgæslunni stakk hvað úthald varðskipanna varðar. Í dag eru tvær áhafnir starfandi hjá Landhelgisgæslunni, ein áhöfn á Þór og önnur á Freyju. Hvort skip er við eftirlitsstörf í um þrjár vikur í senn. Áætlanir gera ráð fyrir að úthaldsdagar varðskipa verði 380 talsins í ár en það er svipaður úthaldsdagafjöldi og verið hefur á undanförnum árum.

Landhelgisgæslan hefur áætlað að kostnaður við nýja áhöfn ásamt þeim rekstrarkostnaði sem auknu úthaldi fylgdi væri um 680 milljónir króna á ári. Að hafa tvær áhafnir á hvoru skipi með tilheyrandi rekstrarkostnaði væri því um 1.360 milljónir króna til viðbótar við það sem nú er. Með slíkri ráðstöfun væri unnt að hafa bæði skip á sjó samtímis, alla daga ársins.

Framlög til Landhelgisgæslunnar nema á þessu ári 6.295 milljónum króna. Heildarfjöldi starfsmanna um áramót var 230, bæði í landhelgis- og varnarmálahluta LHG.

Eins og Landhelgisgæslan hefur greint frá er gjarnan tekin olía í Þórshöfn ef skipin eru í verkefnum nærri Færeyjum. „Vegna þröngrar fjárhagsstöðu á undanförnum árum hafa stjórnendur Landhelgisgæslunnar sýnt ráðdeild í rekstri og tekið olíu í Þórshöfn við slíkar kringumstæður,“ segir Ásgeir.

Að þessu sinni var um 300.000 lítrum af skipagasolíu dælt um borð í Þór í Færeyjum. Þegar Þór var við æfingar við Færeyjar í fyrrahaust voru teknir 700.000 lítrar. Á svipuðum tíma var Freyja við æfingar og tók 750.000 lítra af olíu. Olían er mun ódýrari í Færeyjum og nemur sparnaðurinn tugum milljóna króna og gerir Gæslunni m.a. kleift að fjölga úthaldsdögum varðskipanna.

Dráttarbáturinn Grettir sterki er 210 brúttótonn, smíðaður í Hollandi 1997. Hann kom til landsins 2018. Ice Tugs ehf. í Reykjavík gerir bátinn út.