Froskur Fjölhæfi froskurinn Kermit leikur á banjó.
Froskur Fjölhæfi froskurinn Kermit leikur á banjó.
Skopskyn er furðulegt fyrirbæri sem seint verður skilið til fulls. Sumir halda því fram að til sé lélegt og gott skopskyn en það liggur í augum uppi að skopskyn er og verður alltaf afstætt. Það sem minni kynslóð þykir fyndið þykir ungu kynslóðinni í dag varla eða alls ekki fyndið

Helgi Snær Sigurðsson

Skopskyn er furðulegt fyrirbæri sem seint verður skilið til fulls. Sumir halda því fram að til sé lélegt og gott skopskyn en það liggur í augum uppi að skopskyn er og verður alltaf afstætt. Það sem minni kynslóð þykir fyndið þykir ungu kynslóðinni í dag varla eða alls ekki fyndið. Og kynslóð foreldra minna, oft nefnd hippakynslóðin, er væntanlega með töluvert öðruvísi skopskyn en mín.

Auðvitað eru skilin oftar en ekki óljós, ólíkar kynslóðir geta að sjálfsögðu hlegið að því sama, svona oftast nær, en öðru alls ekki. Þetta upplifi ég nær daglega. Synir mínir þrír, þar af einn fullorðinn og fluttur að heiman, botna stundum ekkert í því sem okkur „gamla“ fólkinu þykir fyndið og öfugt. „Sjáðu þetta, pabbi,“ segja þeir og sýna mér nokkurra sekúndna vídeó í símanum sem þeim þykir sprenghlægilegt. Ég horfi en skil ekkert. „Hvað er svona fyndið við þetta?!” spyr gamlinginn, ungu mönnunum til vonbrigða.

En þannig er nú skopskynið, skrítið og síbreytilegt og sem betur fer þykir sumt alls ekki fyndið í dag sem þótti fyndið hér áður fyrr. Maður botnar jafnvel ekkert í því af hverju grínið þótti fyndið til að byrja með. Enda gömul sannindi og ný að húmor er eins og froskur. Ef maður kryfur hann þá deyr hann.