Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Þrátt fyrir hámarksskattheimtu og miklar tekjur er reksturinn ósjálfbær og skuldirnar hækka stöðugt.

Kjartan Magnússon

Nýbirtur ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir 2023 ber því vitni að meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar hefur engin tök á fjármálum borgarinnar. Helstu lykiltölur sýna að fjárhagsstaðan er slæm og að rekstrinum hefur verið stefnt í mikið óefni.

Borgarsjóður var rekinn með tæplega fimm milljarða króna halla á síðasta ári. Samstæða borgarinnar var rekin með rúmlega þriggja milljarða króna halla, sem er þrettán milljörðum lakari afkoma en ráðgert var samkvæmt áætlun. Þrátt fyrir hámarksskattheimtu og miklar tekjur er reksturinn engan veginn sjálfbær og skuldirnar vaxa stöðugt.

Í endurskoðunarskýrslu með ársreikningnum er bent á að samstæða borgarinnar muni ekki fullnægja fjárhagslegum viðmiðum, sem sett eru í sveitarstjórnarlögum, á komandi árum. Skuldir og skuldbindingar samstæðu Reykjavíkurborgar hafi í árslok 2023 numið 158% af tekjum, sem sé yfir lögbundnu 150% hámarki. Sveitarfélög eru þó undanþegin umræddu hámarksviðmiði til ársins 2025 en samkvæmt fimm ára áætlun borgarinnar er ekki reiknað með að viðmiðinu verði náð á því ári.

Froðuhagnaður Félagsbústaða

Athyglisverður liður í bókhaldi borgarinnar er svonefnd „matsbreyting fjárfestingareigna“. Félagslegar íbúðir borgarinnar eru endurmetnar og aukið verðmæti þeirra fært sem hagnaður í ársreikningi. Slík matsbreyting nam tæpum fimm milljörðum króna á síðasta ári. Þetta er froðuhagnaður, sem skapar borginni í raun engar tekjur og fegrar því stöðu rekstrarreiknings sem því nemur. Raunhalli borgarinnar er því mun meiri en sýnist samkvæmt rekstrarreikningi. Af þessum sökum gefur breyting skulda á efnahagsreikningi jafnvel gleggri mynd af raunverulegri rekstrarstöðu borgarinnar en sjálfur rekstrarreikningurinn.

Geigvænleg aukning skulda

Skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar hækkuðu um fimmtíu milljarða króna á árinu og námu 495 milljörðum í árslok. Borgarstjórn hefur þannig skuldsett hvern íbúa sinn um 3,6 milljónir króna og hverja fjögurra manna fjölskyldu um 14,4 milljónir.

Skuldir borgarsjóðs hækkuðu um 24 milljarða króna á síðasta og námu 198 milljörðum í lok þess.

Útlitið er ekki bjart. Áætlað er að skuldir Reykjavíkurborgar verði komnar í 515 milljarða króna um næstu áramót. Þar af nemi skuldir borgarsjóðs um 208 milljörðum. Fjárhagur borgarinnar fer því ört versnandi og samkvæmt fjárhagsáætlunum verður ekkert lát á skuldasöfnuninni næstu árin.

Feikileg fjármagnsgjöld

Það er dýrt að skulda. Hrikaleg skuldasöfnun borgarinnar hefur leitt til þess að fjármagnsgjöldin eru orðin ein helsta stærðin í bókhaldi hennar. Borgin er því orðin afar berskjölduð fyrir verðbólgu og vaxtahækkunum. Háar skuldir og fjármagnsgjöld lenda að endingu á íbúum borgarinnar.

Fjármagnsgjöld Reykjavíkur námu rúmum 29 milljörðum króna á síðasta ári. Sú upphæð samsvarar rekstrarfé allra almennra grunnskóla borgarinnar, 34 að tölu. Blóðugt er að þurfa að verja svo hárri fjárhæð í vaxtagjöld og verðbætur, en þetta er ein birtingarmynd hárra og illviðráðanlegra skulda.

Brýnasta verkefni borgarstjórnar er nú að ná tökum á fjármálum Reykjavíkurborgar og tryggja fjárhagslega framtíð hennar. Gæluverkefni og skýjaborgir verða að víkja fyrir raunveruleika, sem ekki verður umflúinn. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru sem fyrr reiðubúnir til samvinnu um raunverulegar aðgerðir til að láta af hættulegum hallarekstri og stöðva skuldasöfnun Reykjavíkurborgar.

Höfundur er borgarfulltrúi og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.