Inga Sæland
Inga Sæland
Flokkur fólksins hefur sex sinnum mælt fyrir frumvarpi á Alþingi sem kveður á um að hækka frítekjumark lífeyristekna úr 25.000 kr. í 100.000 kr. á mánuði. Í hvert sinn sem málið er tekið fyrir vonumst við til að ríkisstjórnin taki utan um það og…

Flokkur fólksins hefur sex sinnum mælt fyrir frumvarpi á Alþingi sem kveður á um að hækka frítekjumark lífeyristekna úr 25.000 kr. í 100.000 kr. á mánuði. Í hvert sinn sem málið er tekið fyrir vonumst við til að ríkisstjórnin taki utan um það og fylgi því eftir, eða að minnsta kosti hleypi því í lýðræðislega þinglega meðferð sem að lokum leiði til atkvæðagreiðslu. Því miður er verklag ríkisstjórnarinnar allt annað. Það er ólýðræðislegt og vont og byggist helst á því að svæfa öll okkar mál í nefnd og koma þannig í veg fyrir lýðræðisviljann. Þrátt fyrir sífelld tilmæli um endurskoðun frítekjumarka í ljósi verðbólgu og vaxtahækkana hafa skerðingamörk lífeyrissjóðssparnaðar eldra fólks staðið í 25 þúsund krónum í hartnær 15 ár. Skilaboð stjórnvalda eru skýr: Eldra fólk má sæta eignaupptöku og éta það sem úti frýs.

Alla okkar starfsævi erum við lögþvinguð til að greiða í lífeyrissjóð. Þegar lífeyrissjóðskerfið var byggt upp á sínum tíma var vinnandi fólki talin trú um að það væri að spara til efri áranna. Við töldum okkur trú um að peningarnir okkar heyrðu undir eignarrétt stjórnarskrár. Staðreyndin er þó sú að lífeyrissjóðir sem státa af eignum upp á hátt í 7.000 milljarða króna fara með peningana okkar eins og þeim sýnist. Tugir milljarða fara í umsýslu og yfirstjórnun á kerfi þar sem sjálftaka og bruðl með sparnaðinn okkar ræður ríkjum.

Ríkisstjórnin heggur á báða bóga og skerðir okkur þannig að flestir þeir sem hafa unnið alla sína ævi bera lítið meira úr býtum en þeir sem aldrei hafa greitt í lífeyrissjóð. Stjórnvöldum er nákvæmlega sama þótt almennt frítekjumark fyrir aldraða sé sögulega lágt miðað við verðlag. Í stað þess að leiðrétta óréttlætið er því viðhaldið grímulaust af þeim sem láta sig velferð eldri fólks engu varða.

Flokkur fólksins einn flokka á Alþingi ver eignarréttinn á lífeyrissparnaði okkar allra með kjafti og klóm. Baráttan fyrir réttlætinu verður eilífðarbarátta ef Flokkur fólksins fær ekki nógu öflugt umboð ykkar til að leiðrétta ranglætið og eignaupptökuna sem hefur verið við lýði hjá stjórnvöldum undangenginna ára.

Flokkur fólksins hefur haft það eitt af sínum forgangsmálum að hækka frítekjumark lífeyristekna í 100.000 kr. Ég bið ykkur aðeins um það að kynna ykkur verkin sem við erum að vinna, því þau eru öll fyrir ykkur. Fólkið fyrst, svo allt hitt er kjörorðið okkar og við munum aldrei hvika frá því.

Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins.