Áfanganum fagnað Yfir tuttugu stuðningsmenn komu saman á dögunum á Mathúsi Garðabæjar og horfðu á Ipswich Town ná langþráðum áfanga. Myndin er tekin þegar áfanganum var náð en þá voru einhverjir farnir heim á leið.
Áfanganum fagnað Yfir tuttugu stuðningsmenn komu saman á dögunum á Mathúsi Garðabæjar og horfðu á Ipswich Town ná langþráðum áfanga. Myndin er tekin þegar áfanganum var náð en þá voru einhverjir farnir heim á leið.
„Mér finnst stundum eins og ég hafi fæðst í Ipswich-búningnum,“ segir Gunnar Salvarsson, fyrrverandi frétta- og dagskrárgerðarmaður, sem í áratugi hefur verið harður stuðningsmaður enska knattspyrnuliðsins

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

„Mér finnst stundum eins og ég hafi fæðst í Ipswich-búningnum,“ segir Gunnar Salvarsson, fyrrverandi frétta- og dagskrárgerðarmaður, sem í áratugi hefur verið harður stuðningsmaður enska knattspyrnuliðsins. Um síðustu helgi náði liðið þeim athyglisverða árangri að komast á tveimur árum upp um tvær deildir og spilar í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Rúm tuttugu ár eru liðin frá því Ipswich Town var síðast í deild þeirra bestu á Bretlandi en þá lék Hermann Hreiðarsson með liðinu og var þá raunar dýrasti leikmaður í sögu félagsins.

„Ég vildi gjarnan geta sagt að ég hefði byrjað að halda með Ipswich þegar liðið varð Englandsmeistari vorið 1962 þegar ég var níu ára. En það væri haugalygi því sá merkisatburður fór alveg fram hjá mér og það var ekki fyrr en um tíu árum síðar að ég tók ástfóstri við dráttarvéladrengina, eins og þeir eru kallaðir heima fyrir. Ég hef enga skýringu á því að Ipswich varð fyrir valinu aðra en þá að liðið spilaði flottan fótbolta á þeim tíma og vann svokallaðan Texaco-bikar vorið 1973, sem var keppni milli liða á Englandi, Skotlandi og Írlandi. Þá hafði Bobby Robson tekið við liðinu og næstu árin voru gullaldartímabil í sögu þess.“

Fóru saman á Portman Road

Gunnar stofnaði í október 2021 fésbókarsíðuna „Aðdáendur Ipswich Town“ og meðlimir eru núna 115 talsins. „Ipswich var þá í dimmum dal, djúpt sokkið í C-deildinni og hafði ekki verið á verri stað í heila öld. Þá fannst mér tímabært að kalla saman Ipswich-aðdáendur á Íslandi og reiknaði með að í hópinn kæmu kannski tuttugu manns eða svo. En fljótlega kom í ljós að aðdáendur leyndust víða og þótt þeir séu flestir í eldri kantinum verður örugglega fjölgun, ekki síst meðal unga fólksins, nú þegar liðið er komið í úrvalsdeildina. Reyndar hefur margt ungt fólk víðs vegar um heiminn verið í aðdáendahópnum vegna tónlistarmannsins Eds Sheerans, sem er fæddur í Ipswich. Hann hefur verið helsti styrktaraðili félagsins síðustu árin og tákn tónleikaferðar hans er á búningi félagsins.“

Tímamót urðu hjá Ipswich í desember 2021 þegar ungur þjálfari frá Norður-Írlandi, Kieran McKenna, var ráðinn til liðsins. Hann hafði verið í þjálfarateymi Manchester United, bæði með José Mourinho og Ole Gunnar Solskjær. Hálfu ári áður hafði bandarískt fjárfestingarfélag, Gamechanger 20 Ltd., eignast meirihluta í liðinu og sett sér það markmið að koma því aftur í fremstu röð. Annað bandarískt fjárfestingarfélag keypti 40% í félaginu í vor, Bright Path Sports Partner.

„Það segir sig sjálft að það hefur verið óstjórnlega ánægjulegt að vera Ipswich-aðdáandi á síðustu misserum. Í gegnum aðdáendasíðuna á Facebook fórum við sextán saman á Portman Road fyrir rúmu ári og sáum okkar menn vinna Charlton 6:0. Ég fór reyndar aftur síðastliðið haust og sá liðið tapa eina heimaleiknum á leiktíðinni. Það var súrt en samt ógleymanleg stund, innan um 30 þúsund aðra aðdáendur.“

Næst á dagskránni mun vera stofnun aðdáendaklúbbs hér á landi og að koma á formlegu sambandi við félagið að sögn Gunnars. Ferðum á leiki félagsins muni augljóslega fjölga á næstunni.

Höf.: Kristján Jónsson