Flugrekstur Air Atlanta hefur stækkað flugvélaflotann með kaupum á tveimur Boeing 777-200ER-farþegavélum og þremur B747-400F-fraktvélum. Þetta þýðir að félagið verður komið með 18 flugvélar í rekstur fyrir lok ársins sem allar eru notaðar í pílagríma- og áætlunarflugi í Sádi-Arabíu.
Flugrekstur Air Atlanta hefur stækkað flugvélaflotann með kaupum á tveimur Boeing 777-200ER-farþegavélum og þremur B747-400F-fraktvélum. Þetta þýðir að félagið verður komið með 18 flugvélar í rekstur fyrir lok ársins sem allar eru notaðar í pílagríma- og áætlunarflugi í Sádi-Arabíu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Samanlagður hagnaður Air Atlanta Europe og Air Atlanta Icelandic nam 33 milljónum bandaríkjadala, jafnvirði 4,5 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári. Samanlagðar tekjur systurfélaganna námu 370 milljónum dala eða tæplega 53 milljörðum króna sem er 42% aukning frá árinu á undan. Árið í fyrra var fyrsta heila rekstrarár Air Atlanta Europe en starfsemi þess hófst árið 2022.

„Ég horfi á Air Atlanta í dag sem stórt alþjóðlegt flugfélag með tvö flugrekstrarleyfi, á Íslandi og á Möltu,“ segir Baldvin Már Hermannsson forstjóri í samtali við Morgunblaðið.

Lítil starfsemi á Íslandi

Starfsemi Air Atlanta, sem er með höfuðstöðvar í Hlíðasmára í Kópavogi, teygir sig um allan heim. Minnsti hluti starfseminnar er þó á Íslandi. Samanlagður starfsmannafjöldi er nú um 1.300.

„Rekstur beggja félaga hefur gengið vel. Við höfum aukið umfangið hratt og örugglega á undanförnum árum,“ bætir Baldvin við.

„Íslenska flugfélagið stendur undir tveimur þriðju hlutum hagnaðar en Air Atlanta Europe stækkar hratt og örugglega á móti. Félögin styðja hvort við annað. Flugmenn geta flogið á hvoru flugrekstrarleyfi fyrir sig, annan daginn á því íslenska en hinn á því maltneska ef svo ber undir.“

18 vélar í flotanum

Eins og sagt var frá á mbl.is á dögunum hefur Air Atlanta stækkað flugvélaflotann með kaupum á tveimur Boeing 777-200ER-farþegavélum og þremur B747-400F-fraktvélum. Þetta þýðir að félagið verður komið með 18 flugvélar í rekstur fyrir lok ársins, 14 fraktvélar og fjórar farþegavélar sem allar eru notaðar í pílagríma- og áætlunarflugi í Sádi-Arabíu.

Flugdrægni vélanna og burðargeta upp á allt að 120 tonn mun styrkja til muna fraktflota Air Atlanta ásamt því að auka rekstrarhagkvæmni félagsins á alþjóðlegum fraktmarkaði enda eru vélarnar sparneytnar og hagkvæmar að sögn Baldvins.

„Ef við horfum til baka höfum við keypt níu vélar á síðustu 12 mánuðum. Það er umtalsverð fjárfesting, eða 16-17 milljarðar króna á ári,“ útskýrir Baldvin og bætir við að öðru eins verði varið í flugvélakaup á þessu ári.

„Við höfum trú á rekstrarmódelinu og þeirri sérstöðu sem við höfum skapað okkur. Við erum að fjárfesta til framtíðar og vélarnar nýju verða hryggjarstykkið í okkar rekstri á komandi árum.“

Aukin krafa um hraða

Eins og áður hefur verið fjallað um í Morgunblaðinu varð félagið fyrir miklu áfalli í faraldrinum þegar farþegaflug í Sádi-Arabíu lagðist af tímabundið. Sú starfsemi skilaði á þeim tíma 70% tekna félagsins. Í kjölfarið var farið í stórsókn á fraktmarkaði, enda jókst eftirspurn eftir flutningum stórlega í faraldrinum.

Aðspurður segir Baldvin að í dag sé eftirspurn eftir fraktflugi almennt ekki alveg sú sama og í faraldrinum og verð hafi lækkað. Eftir standi að mikilvægi flugfraktarinnar í aðfangakeðju heimsins hafi aldrei verið meira.

„Krafan um hraða er alltaf að aukast, enda er netverslun áfram í miklum vexti. Þörfin fyrir stórar fraktvélar eins og við bjóðum er alltaf að vaxa. Það er ástæðan fyrir því að við erum að taka þessar þrjár nýju fraktvélar í notkun í haust. Staðreyndin er líka sú að engar nýjar fraktvélar í sama stærðarflokki og Boeing 747-breiðþoturnar okkar koma á markaðinn í nægu magni næstu 4-6 ár vegna mikilla seinkana í framleiðslu hjá flugvélaframleiðendunum Boeing og Airbus. Við teljum okkur því vera í góðri stöðu með eftirsóttar vélar og góða þjónustu á heimsvísu,“ segir Baldvin þegar hann fer nánar yfir þetta.

Á Boeing 747-fraktvélum Air Atlanta er hægt að opna nefið, sem er mikill kostur, þær hafa mikla drægni og geta borið 120 tonn eins og áður sagði.

„Þetta eru afskaplega góðar vélar. Við bættum við þremur í fyrra og eins og áður sagði bætast við þrjár í haust. Við hlökkum mikið til.“

Félagið hefur um árabil notað Boeing 747-vélar sem hafa verið mest áberandi í flota Air Atlanta.

Baldvin kveðst afar stoltur af starfsfólki sínu og því sem það hefur áorkað á síðustu árum.

„Við erum að sjá afrakstur uppbyggingarinnar og þeirrar fjárfestingar sem við höfum ráðist í undanfarin misseri. Við horfum til langs tíma. Allar vélarnar eru á langtímasamningum og við erum markvisst að útvíkka viðskiptavinahópinn og stækka markaðssvæðið. Við sjáum til dæmis mikil tækifæri í samstarfi við nýja viðskiptavini í Kína. Það eru spennandi tímar fram undan,“ segir Baldvin að lokum.

Air Atlanta

Er með flugrekstrarleyfi á Íslandi og á Möltu.

Tekjur jukust um 42% á milli ára í fyrra.

Félagið er með 14 fraktvélar í notkun og fjórar farþegavélar.

Starfsmenn eru um 1.300.

Eftirspurn eftir fraktflugi hefur minnkað töluvert.

Sjá fram á skort á góðum fraktvélum á næstu árum.