Sigurbjörg Karlsdóttir fæddist á fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 8. desember 1956. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á líknardeildinni í Kópavogi 2. maí 2024.

Sigurbjörg, eða Sibba eins og hún var oftast kölluð, ólst upp í Kambsmýri 12 á Akureyri. Foreldrar hennar voru Karl Hjaltason, f. 1921, d. 2000, og Guðlaug Pétursdóttir, f. 1930, d. 2023.

Sigurbjörg giftist árið 1978 eftirlifandi eiginmanni sínum Ómari Sigurðssyni, f. 10. apríl 1953. Börn þeirra eru: 1) Orri, f. 1981, dóttir hans er Birta Sól. 2) Arna, f. 1985, gift Jóhannesi H. Guðjónssyni. Börn þeirra eru Karítas Lea, Egill, Kári og Sindri. 3) Goði, f. 1991, kvæntur Söru Andreu Ólafsdóttur. Börn þeirra eru Nökkvi Freyr og Bjarmi Steinn.

Sigurbjörg átti fimm systkini. Eftirlifandi eru Sverrir, f. 1948, Elísabet, f. 1959, gift Hermanni Beck, og Thora, f. 1962. Látin eru Haraldur, f. 1945, d. 2016, kvæntur Aldísi Jónsdóttur, og Anna, f. 1949, d. 2024, gift Antoni Valgarðssyni.

Sigurbjörg útskrifaðist frá verslunardeild Gagnfræðaskóla Akureyrar vorið 1973 og hélt þaðan í Húsmæðraskóla Akureyrar. Hún fór snemma að vinna og þótti dugleg og öflugur starfskraftur sem gekk í öll störf. Sibba var alla tíð kjarkmikil og sjálfstæð, árið 1975 fór hún sem au-pair til Larchmont í New York og var þar í rúm tvö ár. Eftir heimkomu giftist hún og árið 1979 fluttu hjónin saman til Oklahoma í Bandaríkjunum. Þegar þau sneru heim árið 1982 fór hún að starfa hjá Póstinum auk þess að sækja tungumálanámskeið. Sigurbjörg var barngóð og gerðist dagmamma samhliða barneignum ásamt því að starfa í hlutastarfi við leikskólann Álftaborg. Árið 1988 starfaði hún hjá Borgarfógeta í nokkur ár en sneri aftur til starfa á Álftaborg 1995 og var þar við störf fram yfir aldamót. Samhliða störfum sínum á leikskólanum sótti hún ýmis námskeið um umönnun barna.

Um aldamótin bætti Sibba við sig frekari menntun. Hún lauk námi í Ferðamálaskólanum árið 2002 og í kjölfarið fór hún í Leiðsöguskóla Íslands og lauk þaðan leiðsögumannanámi. Hún starfaði stuttlega hjá Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Hafnarfirði. Sibba hafði einstaka frásagnarhæfileika og stofnaði sitt eigið fyrirtæki árið 2001, Horft í Hamarinn (Hidden world walks), þar sem hún gekk um gamla bæinn í Hafnarfirði og sagði sögur um álfa og huldufólk. Gönguferðunum sinnti hún eins lengi og heilsan leyfði, en samhliða því starfaði hún hjá Hagstofu Íslands. Í seinni tíð varð sagnalistin hennar aðaláhugamál og stofnaði hún Félag sagnaþula ásamt vinkonum sínum. Þær kynntu sér sagnalist á Norðurlöndum og víðar, héldu hér norrænt sagnaþing og sagnakvöld á Fjörukránni nokkra vetur ásamt því að koma fram og segja sögur víða um Evrópu.

Útför Sigurbjargar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 10. maí 2024.

Elskuleg eiginkona mín til nær 46 ára hefur nú látið undan eftir 11 ára baráttu við krabbamein. Við kynntumst er ég var að sækja um framhaldsnám í Bandaríkjunum. Eftir frekar stutt kynni ákváðum við að binda trúss okkar saman, giftumst og fórum til Oklahoma. Þar fór ég í nám, en hún var fyrst heima við, en fór svo að taka að sér barnapössun. Einnig fór hún á nokkur tungumálanámskeið, en hún átti auðvelt með að læra tungumál. Hún elskaði börn og börn hændust að henni. Í gegnum það eignuðumst við góða vini þarna. Á miðju námstímabilinu fór hún heim til að fæða frumburð okkar, en það var fyrsta árið sem þriggja mánaða fæðingarorlof var greitt. Hún kom svo út ásamt móður sinni með drenginn okkar um sex vikna gamlan. Er námi lauk fluttum við aftur til Íslands og hún fór að vinna við póstburð. Nokkru eftir að annað barnið okkar fæddist fluttum við í stærra húsnæði og hún fékk vinnu hjá leikskólanum Álftaborg. Hún starfaði þar með hléum, en var dagmamma þess á milli með yngri börnin. Á Álftaborgarárunum eignuðumst við góða vini.

Hún hafði áhuga á að læra til fóstrustarfa, en komst ekki inn í skólann er hún sótti um það. Í staðinn fór hún í Ferðamálaskólann og útskrifaðist þaðan. Hún fór til starfa í upplýsingamiðstöð ferðamanna í Hafnarfirði. Þar hitti hún ferðamenn sem spurðu út í álfa og huldufólk. Eftir nokkra umhugsun stofnaði hún sitt fyrirtæki utan um álfagöngur í Hafnarfirði og sinnti því í mörg ár eða þar til hún varð að láta af því vegna veikinda. Margir Hafnfirðingar muna eftir henni þar sem hún gekk um bæinn með rauðu álfakollhúfuna umkringd ferðamönnum. Í tengslum við þetta kom hún fram í mörgum erlendum blaðaviðtölum og sjónvarpsþáttum. Samhliða álfagöngunum starfaði hún hjá Hagstofunni.

Hún átti mjög auðvelt með að tengjast fólki og að koma fram í viðtölum og öðru sem var henni eðlislægt. Samhliða álfagöngunum fór hún að viða að sér sögum, fyrst um álfa og huldufólk, en síðan einnig sögum með siðferðilegan boðskap. Í framhaldinu mynduðu þær vinkonur Félag sagnaþula og sóttu sagnaviðburði, fyrst á Norðurlöndum og svo víðar. Þeim var svo boðið á þannig viðburði víða um Evrópu til að segja sögur. Þær héldu norrænt sagnanámskeið hér á landi og í nokkra vetur sagnakvöld í Fjörukránni. Að segja sögur var henni brennandi áhugamál gegnum tíðina og sinnti hún því eins lengi og hún gat, síðast sem leiðbeinandi á námskeiði um sögur af formæðrum nú í vetur.

Henni var í blóð borið að hafa gaman af að ferðast. Sem barn ferðaðist hún með foreldrum sínum víða um landið. Á ungdómsárum sínum fór hún til Evrópu með vinkonu sinni og gerðist síðar au-pair í Bandaríkjunum. Meðan börnin voru yngri var mest ferðast innanlands bæði um láglendi og hálendi. Í tengslum við störf okkar beggja fengum við tækifæri til að fara víða um jörðina og kynnast menningu og mannlífi annarra þjóða. Naut hún þessara ferðalaga því hún hafði einstakt lag á að kynnast og ræða við fólk.

Ég kveð þig, ástin mín, með sorg í hjarta, en sálir okkar munu hittast síðar.

Ómar.

Elsku mamma, sterka, blíða, hjálpsama og jákvæða mamma.

Lífið hefur svo sannarlega kennt okkur að það er ekki sanngjarnt og það er engin leið að skilja hvers vegna áföll og aðrar raunir eru með þeim hætti sem við þekkjum. Baráttuvilji þinn og þrek hefur kennt okkur að gefast aldrei upp og hætta aldrei að lifa. Þú varst ekki krabbameinið, það var þinn vágestur. Þú varst ekki áföllin, þau voru þinn styrkur til að halda áfram. Í stað þess að verða sjúkdómur, þá lagðir þú áherslu á að hugsa um framtíðina, skipuleggja næstu ferðalög og verja tíma með fólkinu þínu. Og það var fullt sem við áttum eftir að gera!

Í gegnum tíðina hefur þú verið bakland margra, rétt hjálparhönd og verið fólkinu þínu stoð og stytta. Ömmubörnin voru ljósið í lífinu sem þú unnir svo heitt og varst svo góð við. Þú varst fyrirmynd, hvattir okkur til náms og kenndir mér að vera sjálfstæð og gera það sem maður getur fyrir aðra.

Í seinni tíð hef ég reynt að horfa meira á lífið með þínum jákvæðu gleraugum og sjá það góða og vera þakklát. Á sama tíma og ég syrgi er ég þakklát fyrir allt það góða sem þú gafst mér, kenndir mér og þær raunir sem við upplifðum og komumst í gegnum sterkari. Ég er sorgmædd yfir ferðunum sem við áttum eftir að fara í, en þakklát fyrir síðustu utanlandsferðirnar sem við fórum í með ömmustelpurnar þínar. Ég er reið yfir brunanum en þakklát fyrir þann mikla tíma sem við vörðum saman í kjölfarið. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég umfram allt þakklát fyrir þig. Við ræddum oft lífið, dauðann, tilganginn og hvað maður skilur eftir sig. Ég veit að þú ert farin á vit nýrra ævintýra.

Vertu ekki grátinn við gröfina mína

góði, ég sef ekki þar.

Ég er í leikandi ljúfum vindum,

ég leiftra sem snjórinn á tindum.

Ég er haustsins regn sem fellur
á fold

og fræið í hlýrri mold.

Í morgunsins kyrrð er vakna þú vilt,

ég er vængjatak fuglanna hljótt
og stillt.

Ég er árblik dags um óttubil

og alstirndur himinn að nóttu til.

Gráttu ekki við gröfina hér –

gáðu – ég dó ei – ég lifi í þér.

(Þýð. Ásgerður Ingimarsdóttir)

Það kemur enginn í staðinn fyrir þig, elsku mamma, stórt skarð er höggvið í okkar fjölskyldu með fráfalli þínu.

Ástarkveðjur, elsku mamma – þangað til næst!

Þín dóttir,

Arna Ómarsdóttir.

Elsku besta mamma mín, nú ertu farin frá okkur, komin í hvíldina og hætt að finna til. Elsku mamma, þú kenndir mér svo margt. Þá er mér efst í huga kærleikurinn, þakklæti og væntumþykja.

Þegar ég var polli brölluðum við svo margt saman, margir hjólatúrar, sundferðir, ferðalög um landið og heiminn og góðar stundir í eldhúsinu að undirbúa saman mat eða baka.

Núna í síðasta bakslagi í veikindunum átti ég alveg jafn mikla von um að þú næðir þér aftur eins og svo oft áður. Þú barðist svo hetjulega, lést aldrei á þér sjá eða kvartaðir heldur hélst áfram á jákvæðni, þrjósku og þolinmæði.

Þegar Sara var ófrísk að Nökkva Frey fékkstu bakslag í veikindunum og leit það ekki vel út á tímabili. En löngunin til að fá annað ömmubarn var öllum veikindum yfirsterkari og þú náðir að eiga stórkostlegar stundir með Nökkva Frey. Síðan þegar við eignuðumst Bjarma Stein var það eins og ný vítamínsprauta. Þó að veikindin væru farin að taka sinn toll og þú orðin langþreytt elskaðirðu samt að fá gaurana okkar í heimsókn, heyra skarkalann og fylgjast með þeim. Strákarnir okkar sakna Sibbu ömmu sinnar.

Ég sakna þín líka, elsku mamma mín, og takk fyrir allt.

Þinn

Goði.

Elskulega tengdamamma mín.

Mikið var ég heppin að eiga þig sem tengdamömmu, svo hlýleg og yndisleg. Ég man svo vel eftir hvað þú tókst vel á móti mér þegar við Goði byrjuðum saman. Það var alltaf svo gaman að spjalla við þig og það var ávallt hægt að leita til þín. Þú varst svo dugleg að hrósa og láta okkur vita hvað þér þætti vænt um okkur og þá sérstaklega gormana okkar tvo sem þú varst svo ánægð að fá að njóta með okkur þótt það hafi verið alltof stutt.

Mér þykir svo vænt um að þú last upp fallegan texta í brúðkaupinu okkar Goða, þú gerðir það svo frábærlega vel. Ég á eftir að passa upp á að strákarnir okkar, Nökkvi Freyr og Bjarmi Steinn, muni alltaf eftir Sibbu ömmu, hvað hún var hlý og góð, alltaf til í að leika, baka vöfflur saman, gefa knús og auðvitað segja skemmtilegustu sögurnar. Minningin þín lifir í hjörtum okkar og yljum við okkur við óteljandi dásamlegar stundir. En vá elsku Sibba, hvað við eigum eftir að sakna þín mikið. Það verður svo erfitt að venjast tilverunni án þín.

Ég tek til mín setninguna sem þú sagðir svo oft við okkur og ætla að lifa eftir henni: „Lífið er núna krakkar, þetta er ekki æfing!“

Hvíl í friði, elsku Sibba mín.

Þín tengdadóttir,

Sara Andrea.

Sigurbjörg systir mín var næstelst okkar systkinanna, fædd 8. desember 1956. Við ólumst upp á Akureyri og í æsku var margt brallað saman. Þar áttum við góða æsku. Sigurbjörg var ákaflega glaðlynd og hjálpsöm og reyndist mér ráðagóð og ég gat oft leitað til hennar með ýmisleg málefni sem hún lagði mér liðsinni við. Hún var góð sagnamanneskja og fór ég oft til að hlusta á hana í Hamrinum í Hafnarfirði og hafði gaman af. Hún var í Félagi sagnamanna á Íslandi þar sem hún var mjög virk, einnig ferðaðist hún oft til útlanda á hátíðir sagnamanna. Hún kom við hjá mér hér í Grundarfirði eftir eitt síðasta sagnakvöldið sem hún tók þátt í úti á Rifi á Snæfellsnesi þann 20. ágúst á síðasta ári. Hún barðist við krabbamein í tíu ár og lést í faðmi fjölskyldu sinnar 2. maí sl. eftir hetjulega baráttu.

Ég vil að lokum flytja eiginmanni og börnum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Þinn bróðir,

Sverrir Karlsson.

Nú er elsku Sibba, mágkona og ein besta vinkona, farin til Sumarlandsins. Sibba elskaði að ferðast. Ferðast til nýrra staða eða skreppa og hitta vini í Bandaríkjunum. Og elskaði að hafa Ómar sinn með í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Sibba var fjölhæf kona. Hún var sagnakona. Var í forystu í Félagi sagnaþula frá upphafi. Sagði sögur heima og erlendis. Hún hélt líka námskeið, ásamt vinkonu, „Til fundar við formæður“, þar sem kennt var að afla gagna um formæður og segja sögur þeirra. Sibba var líka stofnandi og leiðsögumaður álfagöngunnar í Hafnarfirði. Hún var heiðruð fyrir hvort tveggja. Heiðruð fyrir framlag sitt til ferðaþjónustunnar í Hafnarfirði og fyrir starf sitt í Félagi sagnaþula. Hún var frumkvöðull í eðli sínu.

Sibbu kynntist ég þegar Ómar kynnti hana fyrst til leiks. Hún tók manni opnum örmum frá fyrstu stundu og mikill vinskapur myndaðist milli okkar og hún var mér mjög kær. Sibba var jákvæð kona og lifði lífinu lifandi. Naut þess að hitta vini og ættingja og gera hluti með þeim. Hún var vinmörg og var vinur vina sinna. Lífsviljinn var sterkur. Eins og hún sagði oftlega: „Það dugar ekkert annað en að halda áfram.“ Hún er og var duglegasta, þrautseigasta og sterkasta kona sem ég hef fyrirhitt. Og kom það mjög vel fram í baráttu hennar við krabbameinsdjöfulinn. Alltaf reis Sibba mín upp, hversu oft sem hún var slegin niður, en að lokum var ekki hægt að berjast lengur, því kallið var komið.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Ég kveð þig með söknuð í hjarta og þakka þér allt sem þú varst mér á lífsleiðinni. Ég mun sakna þín sárt, heimsóknanna, hringinga okkar í milli, ráðlegginga, hafa þig ekki lengur í saumaklúbbnum og svona mætti lengja telja. Börnin mín munu líka sakna þín því þú áttir stóran hluta af hjarta okkar. Elsku Sibba, hvíldu í friði og megi minningin um yndislega konu varðveitast í hjörtum okkar allra.

Elsku Ómar, missir þinn er mikill og barna þinna. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar elsku Ómar, Arna, Orri og Goði og fjölskyldur og megi góður Guð vaka yfir ykkur öllum.

Bára.

Elsku Sibba.

Ég trúi því ekki ennþá að þú sért farin frá okkur. Ég skrifa þessa grein með tár í augum og sorg í hjarta. Mér finnst ennþá að ég muni sjá þig í næsta saumaklúbbi, að þetta sé ekki raunverulegt. Ég tel mig svo lánsama að hafa þekkt þig allt mitt líf og þú varst stór partur af því. Það er eitthvað sem ég mun varðveita að eilífu. Sibba var dagmamman mín, frænka og vinkona. Það var alltaf hægt að leita til hennar með hvað sem var og hún gaf mér góð ráð, hlustaði vel og gaf mér oft spark í rassinn þegar ég talaði niður til sjálfrar mín eða fannst eitthvað vonlaust. Sagði: Lífið heldur áfram, áfram gakk. Þú varst alltaf jákvæð og horfðir fram á veginn yfirveguð með allt sem kom upp á í lífi þínu, mínu eða annarra, áfram gakk. Tilmæli sem ég mun nota áfram til að minna mig á að halda áfram. Betra viðhorfi hef ég ekki kynnst og þú varst fyrirmynd mín í að koma mér upp þessu viðhorfi gagnvart lífinu. Ég er ánægð með að ég náði að segja þér þetta áður en þú fórst, svo þú vissir hversu mikilvæg þú værir mér.

Sibba var mjög minnug um allt. Hún minnti mig oft á minningar sem ég var búin að gleyma. Ein minningin var að eitt sinn hefði ég verið með þeim í bíl á ferðinni við 15-16 ára aldur og sagst ætla að fara til Bandaríkjanna í nám og spila tennis á skólastyrk og ætlaði síðan eftir það að verða læknir. Sibba tjáði mér að henni fyndist magnað að ég hefði verið búin að ákveða þennan draum á þessum aldri og hefði staðið við hann, hefði gert nákvæmlega allt sem ég sagðist ætla að gera og fylgt því eftir af dugnaði og metnaði. Ég mun aldrei gleyma þessu hrósi og mun ávallt reyna að fylgja draumum mínum eftir.

Sibba var svo fjölhæf og góð í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Svo sagði hún svo skemmtilegar sögur, fullar af lífi og söguþráðurinn vaknaði til lífsins. Hún var sérstaklega hrifin af álfasögum og gerði hún það að starfi sínu, og fór með íslenska og erlenda ferðamenn um Hafnarfjörð í Álfagöngur. Nokkrar sögur munu lifa áfram á Youtube og mun ég hlusta með framtíðarbörnum mínum á þessar sögur og segja þeim sögur af þér. Mér þykir svo leiðinlegt að þau muni ekki fá að kynnast þér og þú þeim.

Saumaklúbburinn okkar verður aldrei sá sami án þín. Sibba var mikil hannyrðakona og hvort sem það var prjónað, heklað eða saumað þá varð það að fallegum hlut. Þú varst svo góð í höndunum. Þau voru ekki ófá skiptin sem ég þurfti á hjálp þinni að halda við að lagfæra í prjónaskapnum hjá mér. Skemmtilegar og nauðsynlegar samræður áttu sér stað í saumaklúbbi okkar og þar þróuðust hugmyndir að stærri hugmyndum, ný verkefni og ómetanlegur vinskapur.

Sibba var falleg að innan sem utan, hugrökk, kraftmikil og skemmtileg kona sem var margt til lista lagt. Hún var mér mjög mikilvæg og ég mun ávallt elska hana. Mikill missir fyrir alla í kring, þín verður sárt saknað og ég votta Ómari, Orra, Örnu og Goða og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð. Hvíl í friði og þangað til við hittumst næst, elsku Sibba.

Sandra Dís.

hinsta kveðja

Sibba amma, mér fannst svo gaman að gróðursetja kartöflur með þér. Þú varst svo flott og skemmtileg. Mig langar að róla og klifra í trjánum með þér. Mér fannst gaman þegar þú varst að passa mig. Bjarmi er alltaf að rúlla sér og toga í bolinn minn.

„Love you!“

Þinn

Nökkvi Freyr.