<strong>Seattle </strong>Menningar- og viðskiptaráðherra leiðir sendinefndina.
Seattle Menningar- og viðskiptaráðherra leiðir sendinefndina. — Ljósmynd/Stjórnarráðið
„Við finnum að vinnan sem hefur verið unnin er að skila sér. Íslenskan er tilbúin til hagnýtingar í tækninni og um það er talað,“ segir Lilja Dögg Jónsdóttir framkvæmdastjóri Almannaróms í samtali við Morgunblaðið

„Við finnum að vinnan sem hefur verið unnin er að skila sér. Íslenskan er tilbúin til hagnýtingar í tækninni og um það er talað,“ segir Lilja Dögg Jónsdóttir framkvæmdastjóri Almannaróms í samtali við Morgunblaðið.

Lilja Dögg situr í íslenskri sendinefnd sem nafna hennar Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, leiðir. Er nefndin stödd á vesturströnd Bandaríkjanna til að funda með Microsoft, Google, OpenAI og öðrum alþjóðlegum tæknifyrirtækjum næstu daga til að kynna máltækniáætlun íslenskra stjórnvalda.

Þetta er í annað sinn sem menningar- og viðskiptaráðherra leiðir slíka ferð, en hún leiddi sambærilega sendinefnd með forseta Íslands árið 2022 sem opnaði fyrir samstarf Íslands við OpenAI.

Meginmarkmið þessarar ferðar er að koma íslenskunni að hjá alþjóðlegum tæknifyrirtækjum til að tryggja að smærri tungumál séu ekki skilin eftir í tækniframförum.

„Áskorunin fyrir okkur er að við erum lítið land og verkefni okkar er að minna á af hverju það er mikilvægt að hafa okkur með og sýna að við séum búin að vinna undirbúningsvinnuna,“ segir Lilja Dögg Jónsdóttir.

Hún segir ferðina vera gott tækifæri til að styrkja og skapa ný tengsl við stjórnendur og starfsmenn sem vinna að tækninni og að vekja athygli á tækifærum íslenskunnar á erlendri grundu.