Ævar Vilberg Ævarsson fæddist á Landspítalanum í Reykjavík 17. nóvember 1983. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum 29. apríl 2024.

Ævar var sonur hjónanna Ævars Karls Tryggvasonar, f. 9. júlí 1948, og Bjargar Leósdóttur, f. 7. mars 1954. Systkini hans eru Hildur Salína, f. 25. september 1973, og Hrafnhildur Fjóla, f. 23. júní 1978.

Hinn 1. desember 2010 giftist Ævar Drífu Dröfn Einarsdóttur, f. 2. maí 1979. Börn þeirra eru Ævar Karl, f. 14. ágúst 2004, Vilmar Freyr, f. 23. apríl 2006, og Arnar Tinni, f. 4. febrúar 2010. Ævar lauk grunnskólagöngu sinni frá Grunnskólanum á Þórshöfn vorið 1999. Um haustið hóf hann nám í húsasmíði við Verkmenntaskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan í desember 2003.

Eftir að námi lauk vann hann hjá Og sonum ehf. á Egilsstöðum. Árið 2006 stofnaði Ævar sitt eigið verktakafyrirtæki, Ævarandi ehf., og starfaði þar fram að lokum starfsævi sinnar.

Útför Ævars fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 10. maí 2024, klukkan 14. Jarðsett verður í Svalbarðskirkjugarði laugardaginn 11. maí klukkan 16.

Elsku langbesti bróðir minn. Það er svo ótrúlega sárt að sjá á eftir þér í blóma lífsins.

En það er svo sannarlega betra að hafa elskað og misst en að hafa aldrei elskað.

Þegar ég hugsa um þig þá fæ ég fyrst og fremst hlýju og þakklæti í hjartað. Þú varst svo einstakur persónuleiki, alltaf glaður, kátur og með svo mikið jafnaðargeð. Ég man ekki eftir því að hafa séð þig reiðan og pirraðan, þú varst meira að vinna með fíflaganginn og léttleikann. Ég hugsa um hvernig þú svaraðir í símann þegar ég hringdi í þig, það verður ekki skrifað því það fylgdi því sérstakur tónn, og það gat tekið þó nokkurn tíma að koma sér að efninu því þú fíflaðist stanslaust og maður komst ekki að.

Það eru vissulega tíu ár sem skilja á milli okkar svo við eyddum meiri tíma saman á fyrri hluta ævi þinnar þar sem ég passaði þig nú stundum. Ég man svo vel þegar mamma kom með þig heim eftir of langa spítalavist því þú varst svo lasinn fyrst eftir að þú fæddist, guð hvað mér fannst þú fallegur og ég var svo ótrúlega stolt og montin af því að eiga þig. Þú varst fallegastur. Það var þarna sem pabbi gaf þér viðurnefnið gullprjónninn þar sem þú varst eini strákurinn og ég fékk að nota það með ykkur á strákinn minn sem er líka örverpi eins og þú. Það er reyndar svo margt í mínum gullprjóni sem minnir mig svo mikið á þig, og það þykir mér notalegt.

Þar sem áratugur skilur á milli okkar í aldri þá ert þú bara sex ára þegar ég fer í burtu svo að við áttum ekki svo mikinn tíma saman á heimili eftir það, nema í örfá ár eftir að ég kom heim frá Keflavík, en alltaf þessi væntumþykja á milli okkar. Hittumst og heyrðumst auðvitað alltof sjaldan, en ég ætla ekki að dvelja við það, frekar njóta þess sem við áttum. Þú varst ekki svo gamall þegar þú fluttir austur á Egilsstaði með Drífu þinni þar sem þið bjugguð strákunum ykkar gott og notalegt heimili. Þið voruð bæði svo dugleg að bralla ótrúlegustu hluti með strákunum ykkar. En þú varst samt mesti Þórshafnarbúinn, hjartað þitt sló alltaf þar.

Það kom örugglega ekki það vor þar sem þið björguðuð ekki einhverjum fuglsungum og óluð upp í garðinum hjá ykkur, alveg ekta þið. Best man ég þó eftir hrafninum Gústa sem þú bjargaðir einhvers staðar og þegar hann stækkaði þá hjólaðir þú með hann á stýrinu á hjólinu þínu um allan bæ, þá hefurðu sennilega verið svona 12 ára.

Þú varst einstakur að svo mörgu leyti, enda vinmargur og sannur vinur vina þinna. Strákarnir þínir voru heppnir hvað þú nenntir stundum að brasa með þeim og þá stundum misgáfulega hluti að mér fannst, þeir sem þekkja þig vita hvað ég er að meina.

Þú varst einstaklega orkumikill og duglegur, búinn að byggja upp flotta smíðafyrirtækið Ævarandi ehf., nafnið auðvitað engin tilviljun. Kannski strákarnir þínir haldi því á lofti í framtíðinni.

Missir okkar allra er mikill elsku Ævar, en ég efast ekki um að þú atist í okkur af og til. Megi guð og góðir vættir varðveita þig og umvefja elsku karlinn minn, takk fyrir samfylgdina og takk fyrir Gollann minn. Ég elska þig.

Þín systir,

Hildur Salína.

Þegar við kveðjum Ævar Vilberg, látinn fyrir aldur fram, þá er það kveðja frá fjölskyldu föðursystur, Kristínar. Í minningunni þá sjáum við hann okkar augum, okkar minninga. Ævar var sonur Ævars af þriðja hjónabandi Tryggva Hallssonar, sem missti tvær eiginkonur úr berklum frá þremur börnum. Björg, móðir Ævars Vilbergs, var ein tíu systkina. Því minnumst við hans á okkar minningaforsendum.

Ævar Vilberg var hvers manns hugljúfi fjölda skyldmenna, sem sakna hans. Þar er sterkust minninga, að þegar Tryggvi Hallsson gerðist aldraður og gleyminn, þá var farið með hann til Kanaríeyja til þess að börn Kristínar og Ævars kynntust afa sínum. Sú ferð sameinaði börnin til samheldni fram á þennan dag og margþakkarvert. Þá var Ævar Vilberg fjögurra ára og af uppátækjum hans og gerðum snerist flest um hann. Hann fór í kjörbúðina og afgreiddi sig sjálfur og borgaði með einhverjum miðum, sem hann fann, þetta urðu reikningsviðskipti, sem pabbi hans svo borgaði. Æ síðan hefur þessi barnahópur haldið saman og ganga út og inn hvert hjá öðru.

Við syrgjum góðan dreng og vottum Drífu og sonum þeirra okkar dýpstu samúð, sem og foreldrum hans, sem hafa misst elskaðan einkason.

Kristín Tryggvadóttir,
Þorsteinn Hákonarson.

Árið 2010 auglýsti Rekstrarfélag orlofshúsa við Eiðavatn eftir nýjum umsjónaraðila í stað Ásmundar Þórhallssonar á Ormsstöðum sem þá hafði látið af störfum eftir að hafa sinnt húsunum farsællega frá upphafi uppbyggingar á Eiðum 1982-83. Til starfsins réðist Ævar Vilberg Ævarsson sem tók að sér umsjón með svæðinu öllu og húsunum. Þetta átti eftir að reynast félaginu góð ráðning því ekki tók síðri hæfileikamaður við störfum fyrir félagið.

Fyrir utan hefðbundin verkefni við orlofshúsin var meðal fyrstu verkefna Ævars á svæðinu að smíða palla við húsin og síðan bryggjur og geymsluskápa við vatnið. Þetta voru umtalsverðar framkvæmdir og verkefni sem hann leysti vel af hendi. Raunar töluðu Austfirðingar stundum um það í gamansömum tón að bryggjusmíðin við Eiðavatn hefði verið ein stærsta hafnarframkvæmd Austfirðingafjórðungs á þeim tíma. Sannarlega verkefni sem breytti ásýnd svæðisins mikið.

Aldrei var annað að finna en að Ævar bæri mikla umhyggju fyrir öllu svæðinu, húsunum og vatninu. Hann vildi hag þess sem mestan og að orlofshúsagestir fengju sem allra best notið dvalarinnar á þeim rómaða og fagra stað sem Eiðar eru. Þannig maður var Ævar, traustur og áhugasamur fagmaður sem ávallt gerði sitt besta í öllum verkefnum. Fyrir okkur sem rekstraraðila húsa á svæðinu var ómetanlegt að hafa slíkan starfskraft á svæðinu.

Fyrir hönd Rekstrarfélags orlofshúsa við Eiðavatn vil ég að leiðarlokum þakka það mikla og góða starf sem Ævar innti af hendi í þágu aðildarfélaganna og þjónustu hans við orlofshúsagesti. Minning Ævars mun lifa í okkar hópi.

Eiginkonu hans Drífu, sonum þeirra og fjölskyldu sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Rekstrarfélags orlofshúsa við Eiðavatn.