9. maí Myndin var tekin af gígnum í gær. Engin virkni sést í gígnum þótt það rjúki úr honum vegna hita hraunsins.
9. maí Myndin var tekin af gígnum í gær. Engin virkni sést í gígnum þótt það rjúki úr honum vegna hita hraunsins. — Morgunblaðið/Hörður Kristleifsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veðurstofa Íslands lýsti í gær yfir lokum eldgossins sem hófst við Sundhnúkagígaröðina 16. mars. Þorvaldi Þórðarsyni, prófessor í eldfjallafræði, þykir merkilegt hve lengi gosið náði að halda dampi miðað við hve lítil framleiðnin var síðustu dagana

Urður Egilsdóttir

Hermann Nökkvi Gunnarsson

Veðurstofa Íslands lýsti í gær yfir lokum eldgossins sem hófst við Sundhnúkagígaröðina 16. mars.

Þorvaldi Þórðarsyni, prófessor í eldfjallafræði, þykir merkilegt hve lengi gosið náði að halda dampi miðað við hve lítil framleiðnin var síðustu dagana. Mat Veðurstofan hana undir einum rúmmetra á sekúndu undir það síðasta.

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi. Gera líkanreikningar ráð fyrir því að um 13 milljón rúmmetrar af kviku hafi bæst við í kvikuhólfið frá 16. mars. Aldrei hefur meiri kvika safnast fyrir í kvikuhólfinu frá því að jarðhræringarnar við Sundhnúkagíga hófust á síðasta ári.

„Því verður að teljast líklegt að kvika hlaupi aftur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúkagígaröðina áður en langt um líður,“ kom fram í tilkynningu Veðurstofunnar frá því í gær.

Spurning hvort nægilegur þrýstingur byggist upp

Í samtali við Morgunblaðið nefnir Þorvaldur að landrisið undanfarnar vikur hafi verið hægara en fyrir síðustu eldgos við Sundhnúkagígaröðina. „Það er spurning hvort það nái að byggjast upp nægilegur þrýstingur þarna niðri til þess að þakið rofni og við fáum annað gos eða hvort þetta lognast alveg út af.“

Spurður hvort honum þyki þó ekki líklegt að það gjósi aftur svarar Þorvaldur játandi. Fari kvikan af stað telur hann langlíklegast að eldgos brjótist út á svipuðum slóðum og áður, suðaustan við Stóra-Skógfell.

„Framvindan getur orðið svipuð og hún hefur verið í fyrri gosum,“ segir Þorvaldur og nefnir að það gætu orðið „smá læti í byrjun“. Síðan myndi gosið líklega lognast hratt út af þar sem rúmmál kvikunnar sem safnast hefur fyrir í kvikuhólfinu sé lítið.

„Það tekur enga stund að tæma [kvikuhólfið],“ segir Þorvaldur og nefnir að stór hluti kvikunnar í síðustu gosum hafi komið upp á fyrstu fimm til sex klukkustundum gossins. Gæti svipað gerst þegar kvika brýst næst til yfirborðs.

Gosin öll afllítil

Eldgosið sem hófst 16. mars er það langlífasta frá því að röð eldsumbrota hófst í desember. Spurður út í langlífi eldgossins segir Þorvaldur líklegt að hluti þeirrar kviku sem hefur flætt úr iðrum jarðar og inn í kvikuhólfið undir Svartsengi hafi streymt upp til yfirborðs.

Þó svo að gosið hafi varað lengur en síðustu gos á Sundhnúkagígaröðinni var magn kviku sem komst upp til yfirborðs mun minna borið saman við eldsumbrotin í Geldingadölum árið 2021 en það gos stóð yfir í hálft ár.

En er hægt að segja að þetta gos hafi verið kraftmikið?

„Nei, ekkert af þessum gosum. Þau hafa byrjað með sæmilegum krafti sem hefur varað í einhverjar klukkustundir en síðan dettur þetta niður mjög hratt. Þegar þetta er komið niður fyrir 50 rúmmetra á sekúndu í framleiðni eru þetta orðin mjög afllítil gos,“ segir Þorvaldur og bætir við að því sé magnað að gosið hafi náð að vara svo lengi.

Stutt í næsta gos

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir líklegt að það gjósi á næstu dögum.

„Staðan er sú að við erum komin með jafn mikla kviku – eða jafnvel meira – þarna undir eins og hefur verið í upphafi og fyrir þau gos sem hafa orðið. Þar af leiðandi verðum við að reikna með því að við fáum endurtekningu á þessum atburðum innan skamms tíma. Það er líklegt að það gerist á næstu dögum,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

„Þó það sé ekki alveg hægt að vera viss um allt í þessu þá er þetta bara staðan. Við fáum kannski svipaða byrjun og í fyrri gosunum.“

Hann líkt og Þorvaldur telur líklegast að næsta eldgos brjótist út á svipuðum slóðum.

„Ástæðan fyrir því er að jarðskorpan er aðalveikleikinn. Þar er gangur búinn að brjótast hvað eftir annað inn á nokkurra vikna millibili og þar með er jarðskorpan mjög veik og langminnsta fyrirstaðan gegn því að kvika brjótist upp. Þetta er heitt og veikt þannig að þetta er aðalveikleikinn,“ segir Magnús Tumi.

Ef kvikan byrjaði að brjóta sér leið annars staðar yrði meiri fyrirvari og forboði að því. Það yrði ekki ólíkt því þegar kvikuhlaupið varð 10. nóvember.

„En það er mjög ólíklegt,“ segir Magnús.

Miklar líkur á rýmingu

Víðir Reynisson sviðsstjóri almannavarna hvetur þá sem dvelja í Grindavík til að gera allt sitt dót klárt þar sem miklar líkur eru á rýmingu á næstu dögum. Hann segir að almannavarnir séu með skipulag sem geri ráð fyrir því að það taki klukkutíma að rýma Grindavík og alla starfsemi í Svartsengi.

„Við horfum á það sem svo að við séum búin að fá allar viðvaranir sem við fáum. Næsta viðvörun verður bara þegar kvikuhlaup er að byrja og eins og þetta var síðast þá kom eldgosið nánast bara á sama tíma og við fengum viðvörunina. Okkar kerfi er tilbúið og allir klárir,“ segir Víðir.