Vin Höggmyndagarðurinn við Listasafn Einars Jónssonar var formlega opnaður 8. júní árið 1984.
Vin Höggmyndagarðurinn við Listasafn Einars Jónssonar var formlega opnaður 8. júní árið 1984.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Listasafn Einars Jónssonar blæs til hátíðahalda á morgun í tilefni þess að 150 ár verða þá liðin frá fæðingu Einars Jónssonar myndhöggvara en hann var fyrsti myndhöggvari Íslands sem bjó og starfaði á Íslandi

Helena Björk Bjarkadóttir

helena@mbl.is

Listasafn Einars Jónssonar blæs til hátíðahalda á morgun í tilefni þess að 150 ár verða þá liðin frá fæðingu Einars Jónssonar myndhöggvara en hann var fyrsti myndhöggvari Íslands sem bjó og starfaði á Íslandi.

Fjölbreytt dagskrá verður í boði fyrir gesti og gangandi sem miðar að því að varpa ljósi á sögu safnbyggingarinnar og höggmyndagarðsins og þær breytingar sem fram undan eru.

Dagskráin hefst kl. 14 með fyrirlestri þar sem Pétur H. Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun Íslands, fjallar um sögu safnhússins. Í framhaldinu fjallar Ragnhildur Skarphéðinsdóttir, landslagsarkitekt hjá Hornsteinum arkitektum, um hönnun höggmyndagarðsins á bak við safnbygginguna, sem var formlega opnaður 8. júní 1984. Ragnhildur, ásamt Reyni Vilhjálmssyni landslagsarkitekt, sá um skipulag garðsins. Því næst segja Margrét Harðardóttir og Steve Christer, arkitektar hjá Stúdíó Granda, frá væntanlegri þjónustubyggingu sem mun rísa austan við safnhúsið. Brynja Baldursdóttir, myndlistarmaður og hönnuður, segir gestum frá sýningu sinni Komandi sem staðsett er innan um og í samtali við höggmyndir Einars Jónssonar.

Klukkan 16 tekur Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra síðan fyrstu skóflustungu að nýrri þjónustubyggingu við safnið og „lýkur upp nýjum framtíðarkafla í starfsemi safnsins,“ eins og segir í tilkynningu.

Stór dagur í dag

AlmaDís Kristinsdóttir safnstjóri segir nýja þjónustubyggingu skipta gríðarlega miklu máli fyrir safnið. „Við erum náttúrlega í hundrað ára gamalli byggingu sem er alfriðuð. Þjónusta við safngesti er dálítið snúin í svona gömlu rými.“ Með nýju rými verður hægt að auka starfsemi safnsins að sögn ÖlmuDísar og í kjölfarið verður öll þjónusta við gesti mun betri. Mikil ánægja er meðal aðstandenda safnsins með fyrirhugaðar framkvæmdir enda hefur hugmyndin verið í vinnslu frá 2006 „Þetta er því stór dagur hjá okkur, að þetta sé loks að verða að veruleika.“

Menningarsögulegt gildi

Dagurinn er ekki bara merkur vegna þess að framkvæmdir við bygginguna hefjast þá heldur eru 150 dagar liðnir frá fæðingu Einars Jónssonar myndhöggvara.

AlmaDís segir þetta merk tímamót enda hafi Einar verið frumkvöðull í myndlist hér á landi. Safnið sjálft var opnað fyrir rúmum hundrað árum og er fyrsta listasafn landsins í eigin húsnæði. Það hefur því mikið menningarsögulegt gildi.

Í samtali við samfélagið

AlmaDís segir skipta máli fyrir söfn að vera í stöðugu samtali við samfélagið sem þau starfa í. Þess vegna sé mikilvægt að vera í stöðugri þróun. Nú verði auðveldara að setja upp sýningar á safninu sem búa til einhvers konar samtal í samtímanum við myndlist Einars bætir hún við.

Auk þess er um að ræða jákvæða breytingu hvað viðkemur grunnþjónustu við gesti eins og að geta lagt frá sér hluti, verið með skápa og snyrtingar sem eru boðlegar, bætir AlmaDís við.

„Við erum náttúrlega bara með þetta gamla hús sem stenst ekki kröfur. Ég tala nú ekki um aðgengismálin. Við erum að bæta aðgengi gesta heilmikið með þessu. Húsið er mjög krefjandi varðandi aðgengi þannig að það er verið að reyna að leysa að minnsta kosti hluta af því máli með þessari byggingu,“ segir AlmaDís að lokum.

Höf.: Helena Björk Bjarkadóttir