9. maí Hátíðarhöldin eru orðin mikilvægasti almenni frídagurinn í landinu undir stjórn Pútíns, sem nú hefur haldið um valdataumana í aldarfjórðung.
9. maí Hátíðarhöldin eru orðin mikilvægasti almenni frídagurinn í landinu undir stjórn Pútíns, sem nú hefur haldið um valdataumana í aldarfjórðung. — AFP/Mikhail Klimentyev
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Skúli Halldórsson sh@mbl.is

Fréttaskýring

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Vladimír Pútín Rússlandsforseti varaði í gær við því að kjarnavopnasveitir hans væru ávallt viðbúnar og að í Moskvu væri engin þolinmæði fyrir hótunum Vesturlanda. Þetta sagði þjóðarleiðtoginn er hann ávarpaði árlega skrúðgöngu á sigurdeginum 9. maí, þar sem minnst er sigurs Rússlands á Þýskalandi nasismans í heimsstyrjöldinni síðari.

Pútín lofaði herliðið sem enn berst við heimamenn handan landamæranna í Úkraínu, frammi fyrir þúsundum skrúðklæddra hermanna sem saman voru komnar á Rauða torginu, og sakaði „vestræna elítu“ um að kynda undir ófriðarbáli um allan heim.

Með völdin í aldarfjórðung

„Rússland mun gera allt til að koma í veg fyrir heimsátök, en á sama tíma munum við ekki líða neinum að hóta okkur. Strategískar hersveitir okkar eru alltaf á varðbergi,“ tjáði forsetinn viðstöddum og vísaði þar til þess hluta hersins sem hefur umsjón með kjarnavopnabúrinu.

Hann hélt áfram: „Kæru vinir. Rússland gengur nú í gegnum erfitt, mikilvægt tímabil. Örlög móðurlandsins, framtíð þess, velta á hverjum og einum okkar.“

Hátíðarhöldin 9. maí eru nú orðin mikilvægasti almenni frídagur Rússa, á sama tíma og landið allt hefur færst í meiri stríðsbúning undir stjórn Pútíns, sem haldið hefur um valdataumana frá því fyrir aldamót.

Forsetinn hafði fyrr í vikunni, á þriðjudag, svarið embættiseið að nýju við upphaf nýs sex ára kjörtímabils. Ljúki hann því kjörtímabili verður hann þaulsætnasti leiðtogi Rússlands frá því Katrín mikla keisaraynja réð ríkjum á 18. öld.

Herskárri síðustu misseri

Allt frá því Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar 2022 hefur forsetinn ítrekað vísað til kjarnavopna í orðræðu sinni. Frá því á síðasta ári hefur hann þó gerst herskárri í þessum efnum, dregið ríkið út úr samningi um bann við kjarnavopnatilraunum og einnig úr mikilvægum afvopnunarsamningi við Bandaríkin.

Í þessari viku skipaði hann kjarnavopnasveitum sínum að halda æfingar með sjóhernum og herliði með bækistöðvar nærri Úkraínu. Jók hann þar með enn á ótta manna um að hann kunni að beita þessum gjöreyðingarvopnum á vígvellinum.

Í upptöku sem gerð var á þriðjudag, en gefin var út af Kreml í gær að lokinni skrúðgöngunni, lofar Pútín því að nútímavæða vígbúnað hers síns og segir að til þess muni Rússland nota alla þá íhluti sem það kemst yfir utan landsteinanna.

„Nútímahertækni tekur mjög örum breytingum. Ef við viljum ná árangri, þá verðum við alltaf að vera einu skrefi á undan,“ segir Pútín á upptökunni þar sem hann á fund með hershöfðingjum sínum.

Aukinn viðbúnaður í Moskvu

Pútín hefur einnig ítrekað reynt að varpa því yfirskini á innrásina að um sé að ræða hreina tilvistarbaráttu gegn nasisma. Hann lét það heldur ekki ógert í gær.

„Við lútum höfði fyrir minningu þeirra borgara sem drepnir hafa verið í villimannslegum sprengjuárásum og hryðjuverkum nýnasista,“ sagði forsetinn.

„Þeir sem standa í fremstu víglínu eru hetjurnar okkar. Við hneigjum okkur fyrir staðfestu ykkar, fórnfýsi og ósérhlífni. Allt Rússland stendur með ykkur,“ bætti hann við.

Héruð Rússlands við landamæri Úkraínu hafa oftsinnis orðið fyrir barðinu á mannsklæðum árásum Úkraínumanna frá því innrásin var gerð fyrir rúmum tveimur árum. Sprengjuárás úr lofti særði átta í Belgórod-héraði í gær.

Öryggisgæsla var því hert í aðdraganda skrúðgöngunnar í ár og ekki síður eftir að árás liðsmanna Ríkis íslams varð tugum manns að bana nærri höfuðborginni í mars.

Í öðrum landshlutum, þar á meðal í héruðunum Kúrsk og Pskov, var ákveðið að aflýsa skrúðgöngum af þessum sömu ástæðum.

Í skrúðgöngunni voru venju samkvæmt til sýnis ýmis vígtæki og herbúnaður Rússa. Þó var eftir því tekið að hún var töluvert minni að umfangi en síðustu ár, eflaust vegna þess að meiri þörf er fyrir vopnin úti á sjálfum vígvellinum.

Herinn stóð af sér gagnárás Úkraínumanna á síðasta ári og hefur síðan náð nokkurri framgöngu á vígstöðvunum, á sama tíma og stjórnvöld í Kænugarði hafa átt erfitt með að afla hvorutveggja skotfæra og hermanna.