Þýska knattspyrnuliðið Bayer Leverkusen lék í gærkvöld sinn 49. leik á tímabilinu án þess að tapa og tryggði sér sæti í úrslitaleik Evrópudeildarinnar, gegn Atalanta, með jafntefli gegn Roma á heimavelli, 2:2

Þýska knattspyrnuliðið Bayer Leverkusen lék í gærkvöld sinn 49. leik á tímabilinu án þess að tapa og tryggði sér sæti í úrslitaleik Evrópudeildarinnar, gegn Atalanta, með jafntefli gegn Roma á heimavelli, 2:2. Leverkusen vann fyrri leikinn á Ítalíu, 2:0. Roma var yfir, 2:0, þegar langt var liðið á leikinn en Þjóðverjarnir skoruðu tvívegis og varamaðurinn Josip Stanisic jafnaði, 2:2, á sjöundu mínútu uppbótartímans.

Þessi árangur Leverkusen er nýtt met í evrópskum félagsliðafótbolta en Benfica frá Portúgal tapaði ekki í 48 leikjum í röð á árunum 1963-1965.

Knattspyrnukonan Jasmín Erla Ingadóttir leikur væntanlega ekki með Val næstu tvær til fjórar vikurnar. Hún fékk þungt höfuðhögg í leik Vals og Keflavíkur í Bestu deildinni í fyrrakvöld, fékk boltann í höfuðið af stuttu færi, og þurfti að fara af velli. Hún hafði jafnað sig ágætlega í gær en Ásgerður Stefanía Baldursdóttir aðstoðarþjálfari Vals sagði við Morgunblaðið að samkvæmt verklagi myndi hún ekki spila í 2-4 vikur.