Opið Fréttatíminn á Stöð 2 er ekki lengur læstur.
Opið Fréttatíminn á Stöð 2 er ekki lengur læstur.
Þegar Stöð 2 læsti fréttatímanum klukkan 18.30 á sínum tíma skrifaði ég Ljósvaka sem fjallaði um það að nú gæti maður einfaldað hjá sér hlutina. Látið sér nægja að horfa á einn fréttatíma í stað þess að glápa oftast á tvo í röð, þ.e

Víðir Sigurðsson

Þegar Stöð 2 læsti fréttatímanum klukkan 18.30 á sínum tíma skrifaði ég Ljósvaka sem fjallaði um það að nú gæti maður einfaldað hjá sér hlutina. Látið sér nægja að horfa á einn fréttatíma í stað þess að glápa oftast á tvo í röð, þ.e. á Stöð 2 kl. 18.30 og RÚV kl. 19.

Lét fylgja með að þegar Stöð 2 myndi opna fyrir fréttirnar á ný yrði maður líklega orðinn svo vanur því að láta einn fréttatíma duga að því yrði ekki breytt. Þetta féll ekki alls staðar í góðan jarðveg og ég fékk m.a. orðsendingu frá fréttakonu á Stöð 2 sem tilkynnti mér að hún ætlaði samstundis að segja upp áskrift sinni að Morgunblaðinu.

En ég tók aldrei fram hvor sjónvarpsstöðin yrði fyrir valinu þegar þar að kæmi, enda erfitt um slíkt að spá. Nú er Stöð 2 búin að opna fyrir sínar fréttir á ný. Ég held að mér hafi í millitíðinni tekist að venja mig þokkalega af því að horfa á tvo fréttatíma í röð. Núna er forgangsröðin hins vegar orðin sú að horfa á fréttirnar á Stöð 2 og láta RÚV frekar mæta afgangi, hraðspóla kannski yfir fréttatímann þar eða láta íþróttirnar duga. Annars vegar hafa fréttirnar á Stöð 2 verið ferskari og fjölbreyttari síðan opnað var fyrir þær á ný og hins vegar hentar tímasetningin þar oft betur.