Ásta Laufey Sigurðardóttir fæddist á Selfossi 30. nóvember 1962. Hún lést í faðmi fjölskyldu sinnar
1. maí 2024.

Foreldrar hennar eru Helga Baldursdóttir, f. 3. október 1935, og Sigurður Sigurþórsson, f. 8. ágúst 1937. Þau eignuðust sex börn og var Ásta Laufey önnur í röðinni. Systkini hennar eru Sigurlín, f. 1958, Baldur Þór, f. 1964, Guðbjörg,
f. 1967, Erla Berglind, f. 1975, og Aðalheiður, f. 1977.

Ásta Laufey giftist 29. desember 1984 Ólafi Elí Magnússyni, f. 29. janúar 1961. Þau eignuðust þrjú börn, þau eru: 1) Fanney Björk, f. 1991, gift Hlyni Magnússyni. Börn Fanneyjar og Hlyns eru Rakel Ösp, f. 2012, og Magnús Elí, f. 2014. 2) Heiðrún Helga, f. 1992, gift Pétri Loga Péturssyni. Synir Heiðrúnar og Péturs eru Pétur Óli, f. 2020, og Helgi Rafn, f. 2024. 3) Sigurður Borgar, f. 1995, giftur Kristínu Rut Arnardóttur, dóttir þeirra er Ásta Laufey, f. 2020.

Ásta Laufey ólst upp á Þórunúpi í Hvolhreppi og gekk í skóla á Hvolsvelli. Hún kynnist eiginmanni sínum árið 1979 og flytja þau saman til Reykjavíkur árið 1980 og stundaði hún nám þar við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Hún fór síðan á samning hjá veitingahúsinu Lauga-ás og lærði kokkinn, þar undi hún hag sínum vel enda komin í nám sem hún blómstraði í. Árið 1988 flytur hún ásamt eiginmanni sínum til Eskifjarðar og bjuggu þau þar fjóra vetur, þar starfaði hún í Landsbankanum. Árið 1995 flytja þau hjónin á Hvolsvöll og bjuggu þar saman fram að hennar dánardegi. Ásta Laufey starfaði við Landsbankann á Hvolsvelli frá árinu 2000 og lauk þar störfum árið 2018 í kjölfari þess að greinast með brjóstakrabbamein.

Samhliða störfum sínum í bankanum var hún virkur þátttakandi í uppbyggingu og stofnun íþróttafélagsins Dímonar, var þar bæði gjaldkeri og á tímabili formaður félagsins, og tók virkan þátt í starfsemi þess frá því að hún flutti á Hvolsvöll. Hún var virkur þátttakandi í borðtennis, blaki og ringo. Ásta hafði mikla unun af eldamennsku og bakstri og voru veislur hennar umtalaðar. Hún hafði einnig mikinn áhuga á saumaskap þar sem hún saumaði meðal annars mikið af fötum á börnin sín og barnabörn og saumaði mikið út af fallegum myndum.

Útför hennar fer fram frá Breiðabólsstaðarkirkju í dag, 10. maí 2024, klukkan 14.

Elsku Ásta Laufey Sigurðardóttir, það er erfitt að setjast niður og skrifa nokkur orð um lífshlaup þitt eftir 45 ára samvistir við þig. Það hefur svo margt á daga okkar drifið og er af svo mörgu að taka.

Við kynntumst haustið 1979 eftir að hafa tekið þátt í slögtun í Djúpadal. Ég man vel eftir ballinu sem við dönsuðum saman á og felldum hugi saman. Ég man hve fjörug og lífsglöð þú varst. Við hófum búskap saman er við vorum við nám í Fjölbrautaskólanum Breiðholti haustið 1980 og áður en ég vissi af voru liðin 10 ár, tíminn líður svo sannarlega hratt þegar það er gaman. Á þessum árum menntaðir þú þig sem matreiðslumaður hjá veitingastaðnum Lauga-ás og átti starfið einstaklega vel við þig. Þú elskaðir að vera í hvers kyns ati og naust þín best með nóg af verkefnum til að sinna. Það var stórkostlegt að fylgjast með þér slá upp veislum og voru þær gerðar með mikilli prýði.

Á okkar lífsleið eignuðumst við börnin okkar þrjú og ólum þau upp saman á Hvolsvelli, en þar bjuggum við fjölskyldan í tæp 30 ár. Allt okkar líf og ævistarf fór þar fram og áttir þú stóran þátt í uppbyggingu íþróttafélagsins Dímonar. Okkur þótti gaman að ferðast saman um landið okkar og eigum saman ótal skemmtilegar ferðaminningar þar sem við fórum vítt og breitt um Ísland.

Þú varst með stórt hjarta, glaðvær og réttir alltaf fram hjálparhönd ef þörf var á. Þú fannst það hjá þér að hjálpa þeim sem minna máttu sín í samfélaginu og var þér mjög umhugað um velferð annarra og vildir láta gott af þér leiða. Þú elskaðir börnin þín af öllu hjarta og lést þau ávallt ganga fyrir. Þér var einnig mjög umhugað um barnabörnin okkar og varst alltaf reiðubúin að gefa þeim tíma við leiki sem og þrautir. Takk fyrir allar þær ómetanlegu stundir sem við höfum átt saman. Þín verður sárt saknað, elsku Ásta Laufey Sigurðardóttir.

Með ást og virðingu,

Ólafur Elí Magnússon.

Elsku mamma.

Orð fá því ekki lýst hversu mikið ég sakna þín.

Þú varst kletturinn minn, þú tókst alltaf á móti mér með opnum örmum og sýndir mér endalausa ást og umhyggju.

Ég er þakklátur fyrir þolinmæðina sem þú sýndir mér og kærleikinn sem þú kenndir mér.

Það syrgir mig óendanlega mikið að geta ekki faðmað þig, séð þig brosa og hlustað á hláturinn þinn.

Stundirnar sem við áttum saman eru ómetanlegar, þú varst og munt alltaf vera besti vinur minn.

Ég er svo stoltur af því að geta kallað þig mömmu.

Minningu þinni gleymi ég aldrei og munu hún lifa í hjarta mínu þar til ég kem til þín.

Þinn

Sigurður Borgar (Siggi).

Elsku mamma.

Eftir sex ára baráttu við krabbameinið kom að því að stríðinu lauk. Þú vildir svo mikið vera með okkur áfram og barðist eins og hetja þar til þú hreinlega gast ekki meira. Fjölskyldan skipti þig miklu máli og þú sýndir það sannarlega í verki og elskaðir að vera með okkur og barnabörnunum þínum. Það er erfitt að samþykkja það að geta ekki lengur hitt þig og það er skrítið að fara heim á Hvolsvöll og heyra ekki lengur kallað „halló“ úr stofunni. En ég veit þú hefur fundið þinn frið í sumarlandinu og bíður eftir okkur.

Þú varst mín fyrirmynd í þessu lífi og sýndir mér hvað jákvæðni og samviskusemi gerir mikið. Þú varst manneskjan sem ég leitaði til þegar ég þurfti stuðning og ráð og ég mun aldrei gleyma því hversu gott var að hringja í þig með heimsins vandamál og ræða saman um lausnir. Án þín er heimurinn ekki eins bjartur. Ég er þakklát fyrir öll samtölin, knúsin, hjálpina og vináttuna sem við áttum.

Elsku mamma, ég mun sakna þín svo mikið. Þegar ég horfi á myndir af þér þá sé ég bara hlýjuna í augunum á þér og vildi óska þess að ég gæti fengið að hitta þig aftur. Takk fyrir að vera alltaf til staðar fyrir mig.

Ég veit þú munt vaka yfir okkur. Minning þín mun lifa í hjörtum okkar. Ég elska þig.

Þín dóttir,

Fanney.

Elsku mamma.

Ég sit hér að skrifa um þig nokkur orð og finn hvernig tárin renna niður vangana. Hugur minn leitar mikið til þín þessa dagana og hlýjar og fallegar minningar um þig hafa einkennt síðustu viku. Þú varst mín besta og traustasta vinkona og því þykir mér alveg einstaklega sárt að fá ekki að heyra röddina þína aftur, að hlæja með þér eða faðma þig. Við hringdumst á oft á dag og ræddum um allt og ekkert. Mestmegnis ræddum við drengina mína og hafðir þú mikið dálæti á þeim. En nú ert þú búin að fá hvíldina þína eftir þunga og erfiða baráttu við krabbamein. Í hvern á ég nú að hringja með ómerkilegu fréttirnar, til að segja frá því að Helgi sé farinn að snúa sér eða að Pétur Óli sé duglegur í sundtímunum sínum? Til að spyrja um sósuuppskriftina þína eða fá hvers kyns ráð? Án þín vantar hluta af mér sem verður ekki bættur.

Við áttum saman óteljandi stundir í alls konar ati. Ég man eftir gönguferðunum okkar áður en þú veiktist og öllum stundunum í garðinum að vesenast. Við fífluðumst mikið og hlógum einhver ósköp saman. Þú varst mér svo góð.

Mér er svo minnisstætt þegar við vorum að breyta til í stofunni og ég felldi óvart niður spariskápinn þinn og braut allt sparistellið þitt og skraut. Þú hlóst bara að brussuskapnum í mér og spurðir hvort það væri ekki örugglega í lagi með mig, sagðir að þetta væru bara hlutir og enginn þeirra raunverulega skipti máli svo lengi sem ég væri óhult. Svona varstu, alltaf umhugað um aðra. Alltaf svo jákvæð, hjálpsöm og góð.

Þú lifir áfram í hjarta mínu um ókomna tíð og sé ég þig í sjálfri mér þegar ég el upp drengina mína. Umhyggja og gleði fá þar ríkjum að ráða, alveg eins og þú ólst okkur krakkana upp. Með miklum trega kveð ég þig nú og hugsa með þakklæti til þess tíma sem við áttum saman. Takk fyrir allt, ég er viss um að við sjáumst aftur seinna.

Heiðrún Helga
Ólafsdóttir.

Elsku Laufey.

Takk!

Takk fyrir að vera til staðar fyrir okkur. Takk fyrir að hjálpa mér að ala upp börnin mín. Takk fyrir að kenna mér að gera marsípantertu, aspassúpu og úrbeina læri. Takk fyrir að segja óviðeigandi brandara. Takk fyrir púslstundirnar bank bank. Takk fyrir svo ótalmargt en sérstaklega samveruna, var að vonast til að hún yrði samt lengri.

Sakna þín.

Þín systir,

Aðalheiður (Heiða).