Guðfinna Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 14. nóvember 1929. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík 15. apríl 2024.

Móðir hennar var Þórunn Guðjónsdóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 10. febrúar 1897 á Hamri í Gaulverjabæjarhreppi, Árnessýslu, d. 23. september 1975. Faðir hennar var Guðmundur Elías Bjarnason járnsmiður í Reykjavík, f. 1. maí 1896 í Túni, Hraungerðishreppi, Árnessýslu, d. 4. janúar 1990. Systkin hennar voru Valgerður, f. 3. september 1926, d. 5. júní 1998, gift Bjarna Dagssyni, f. 5. september 1915, d. 9. maí 2003, börn þeirra Guðmundur og Þórlaug, Guðjón, f. 7. júní 1931, d. 28. febrúar 2023, kvæntur Guðrúnu Ellertsdóttur, f. 15. nóvember 1930, synir þeirra Kristinn Ellert, Gunnar Þór og Guðmundur Örn. Eftirlifandi systir er Unnur Margrét, f. 26. desember 1932, gift Erni Friðrikssyni, f. 24. júlí 1938, d. 21. júní 2021, börn þeirra Þórunn, Elín, Friðrik og Guðrún.

Þann 11. ágúst 1973 giftist hún Þorkeli Pálssyni bifreiðasmiði, f. 29. september 1921, d. 7. nóvember 1978. Þorkell átti fyrir dótturina Margréti, f. 21. mars 1957, með fyrri eiginkonu, Unni Jónsdóttur. Guðfinna og Þorkell eignuðust ekki börn en systkinabörnin níu og fjölskyldur þeirra nutu kærleika hennar, umhyggju og hlýju.

Guðfinna hóf skólagöngu sína í Miðbæjarskólanum og lauk landsprófi 20. maí 1946 frá Gagnfræðaskóla Reykjavíkur, sem oftast var nefndur Ingimarsskóli og varð síðar Gagnfræðaskóli Austurbæjar.

Guðfinna hóf nám við MR haustið 1946 og lauk stúdentsprófi af stærðfræðideild með fyrstu einkunn þann 16. júní 1950. Hún hóf nám við Lyfjafræðingaskóla Íslands árið 1950 og lauk exam.pharm.-gráðu í október 1953. Stundaði hún verknám í Reykjavíkur Apóteki 1950-1953.

Guðfinna starfaði sem aðstoðarlyfjafræðingur í Reykjavíkur Apóteki í Austurstræti í 46 ár, frá haustinu 1953 til 31. mars 1999 þegar apótekið var lagt niður.

Guðfinna var virkur félagi í KFUK og sumarstarfinu í Vindáshlíð. Hún sat í stjórn sumarstarfs KFUK í Vindáshlíð sem gjaldkeri 1972-1984. Vann hún ötult starf í sjálfboðavinnu við fjármögnun og byggingu leikskálans í Vindáshlíð 1975-1978 og var valin heiðursfélagi Vindáshlíðar árið 2010.

Guðfinna var einnig virk í Kristniboðsflokki kvenna um árabil.

Guðfinna tók þátt í starfi Lyfjafræðingafélags Íslands. Eftir starfslok hjá Reykjavíkur Apóteki árið 1999 tók Guðfinna þátt í starfi Lyfjafræðisafnsins á Seltjarnarnesi meðal annars við að flokka og skrá safngripi. Hún sat í stjórn Lyfjafræðisafnsins árin 2003-2015, eða í þrjú kjörtímabil, og eftir það var hún Hollvinur safnsins til dauðadags. Árið 2007 hlaut Guðfinna gullmerki Lyfjafræðingafélags Íslands fyrir ötult og fórnfúst starf í þágu íslenskrar lyfjafræði.

Guðfinna og Þorkell fluttu í Bólstaðarhlíð 68 í Reykjavík í október 1973. Þar bjó hún nær til æviloka en síðustu vikurnar dvaldi hún á hjúkrunarheimilinu Skjóli.

Útför Guðfinnu fer fram í Fossvogskirkju í dag, 10. maí 2024, klukkan 13.

Þá hefur elsku Ninna mín kvatt okkur eftir langa ævi. Þegar ég man fyrst eftir mér þá bjó Ninna hjá ömmu og afa á Hraunteig, svo falleg og góð frænka sem ég elskaði og leit upp til. Hún giftist Þorkeli, ástinni í lífi sínu, og fluttu þau í Bólstaðarhlíð þar sem hún bjó alla tíð síðan. Ninna fékk ekki mörg ár með Tolla sínum en ég veit að það voru hamingjurík ár.

Þó að Ninna hafi ekki eignast börn sjálf þá átti hún stóran hlut í okkur systkinabörnunum og þótti okkur öllum afskaplega vænt um hana. Hún bar mikla umhyggju fyrir okkur og fylgdist með lífi okkar af einlægum áhuga. Gladdist með okkur þegar vel gekk og tók nærri sér ef eitthvað bjátaði á. Það má með sanni segja að hún hafi haldið stórfjölskyldunni þétt saman. Hér áður fyrr hittumst við öll hjá henni í Bólstaðarhlíð nokkrum sinnum á ári sem efldi tengsl okkar og fram til ársins 2019 hittumst við alltaf í kaffi hjá henni 1. maí, á afmælisdegi afa.

Þegar mamma dó árið 1998 þá kom Ninna sterk inn sem aukaamma fyrir börnin mín, þau Bjarna Dag og Völu. Samband þeirra við Ninnu var alla tíð mjög einlægt og fallegt og mikill kærleikur á milli þeirra þriggja. Ninna tók mikinn þátt í lífi okkar fjölskyldunnar, engin veisla var án Ninnu og hún kom svo að segja alltaf í mat til okkar á sunnudagskvöldum og þá var spjallað um atburði líðandi viku.

Alla sína starfsævi vann Ninna í Reykjavíkur Apóteki í Austurstræti. Lyfjafræðistarfið hentaði henni vel, eins samviskusöm og nákvæm og hún var. Hún upplifði miklar breytingar á starfi lyfjafræðinga á sinni löngu starfsævi og var mjög fróð og fylgdist vel með á sínu sviði. Sem lítilli stelpu fannst mér mjög spennandi þegar við mamma komum við í þessu fallega og virðulega apóteki í Reykjavíkurferðum okkar og heilsuðum upp á Ninnu, sem mér fannst svo flott í hvíta sloppnum. Það var mikil breyting hjá Ninnu þegar hún hætti að vinna enda hafði vinnan skipað stóran sess í hennar lífi og veitt henni mikla ánægju.

Fram á tíræðisaldur var Ninna heilsuhraust og mjög dugleg að bjarga sér sjálf, hún var ánægðust ef hún gat gert hlutina sjálf án þess að þurfa að biðja um aðstoð. Ninna fylgdist ætíð vel með málefnum líðandi stundar, hlustaði á útvarpið og las mikið.

Ninna keyrði sjálf þar til fyrir rúmu einu og hálfu ári, þá lenti hún í vandræðum með sjónina og ákvað sjálf að tími væri kominn á að hætta að keyra. Þetta var mikil breyting fyrir hana og henni fannst erfitt að vera allt í einu háð öðrum með að komast á milli staða, eins sjálfstæð og hún hafði alltaf verið. Það var svo upp úr þessu sem heilsan fór að gefa sig og Ninna þurfti á meiri aðstoð að halda. Hún fór í hvíldarinnlögn í lok síðasta árs, en í stað þess að fara heim eftir þann tíma tók við dvöl á öldrunardeildum Landspítalans þar til hún fór á hjúkrunarheimilið Skjól í mars og lést þar mánuði seinna.

Með söknuði kveðjum við fjölskyldan Ninnu okkar og þökkum fyrir alla hennar elsku og umhyggju í okkar garð.

Þórlaug Bjarnadóttir.

Boðberar kærleikans

eru jarðneskir englar

sem leiddir eru í veg fyrir fólk

til að veita umhyggju,

miðla ást,

fylla nútíðina innihaldi

og tilgangi,

veita framtíðarsýn

vegna tilveru sinnar

og kærleiksríkrar nærveru.

Þeir eru jákvæðir,

styðja,

uppörva og hvetja.

Þeir sýna hluttekningu,

umvefja og faðma,

sýna nærgætni

og raunverulega umhyggju,

í hvaða kringumstæðum sem er

án þess að spyrja um endurgjald.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Þannig var einmitt hún Ninna, sem jarðneskur engill, send til að miðla kærleika og umhyggju í hvaða kringumstæðum sem er/var án þess að spyrja um endurgjald.

Hún Ninna kom inn í líf móðurfjölskyldu minnar þegar ég var átta eða níu ára gamall 1972-73, þegar móðurbróðir minn, Tolli eða Þorkell Pálsson, kynnti þá glæsilegu konu og lyfjafræðing til leiks sem unnustu sína og verðandi eiginkonu. Gengu þau í hjónaband sumarið 1973 og áttu í hamingjusömu hjónabandi til ársins 1978, eða aðeins í rúm fimm ár er Tolli frændi varð bráðkvaddur á heimili þeirra. Var það að sjálfsögðu mikill harmur fyrir Ninnu og fjölskylduna alla.

Ninna hélt þó áfram að rækta kærleikssamband sitt við fjölskylduna hans Tolla og eftirminnilegar eru veislurnar á nýársdag allt frá árinu 1974 og allt til ársins 2014 eða 15 eða í um 40 ár. Góðar minningar sem skilja eftir sig væntumþykju og virðingu, þakklæti og hlýju. Þá var hún Ninna dugleg við að rækta sambandið við okkur öll og fylgjast með börnum okkar, tengdabörnum og barnabörnum alla tíð fram undir það síðasta.

Hún vann hugsjónum sínum meðal annars farveg í starfi KFUK og KFUM, ekki síst á vegum Vindáshlíðar þar sem hún gegndi stjórnarstörfum í fjölda ára. Auk þess var hún var dyggur vinur og stuðningsmaður Gídeonfélagsins og vafalaust fleiri velviljaðra og nauðsynlegra félagasamtaka.

Hún var margverðlaunuð af Lyfjafræðingafélagi Íslands fyrir störf sín og var hollvinur lyfjafræðingasafnsins.

Hún Ninna var ávallt vel á sig komin og í góðu formi, enda bjó hún á þriðju hæð í lyftulausu húsi og lét sig ekki muna um að ganga upp stigana með töskur og innkaupapoka þegar þannig bar við, þótt komin væri yfir nírætt.

Hún Ninna okkar andaðist á nítugasta og fimmta aldursári og mun nú með fögnuði ganga inn í hamingjuríki frelsara síns, Jesú Krists, sem hún elskaði og lifði fyrir. Enda lifði hún með vorið vistað í sálinni, sólina og hið eilífa sumar í hjarta sínu.

Himneskt

er að vera

með vorið

vistað í sálinni,

sólina

og eilíft sumar

í hjarta.

Því hamingjan

felst í því

að vera með

himininn

í hjartanu.

Lifi lífið!

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Guð blessi minningu Guðfinnu Guðmundsdóttur og þau öll sem hún unni heitast.

Sigurbjörn Þorkelsson.

Að leiðarlokum þakka ég Guði fyrir hana Guðfinnu og góð kynni sem ná yfir tæplega hálfa öld.

Fyrst man ég eftir henni í vinnuflokkum í Vindáshlíð. Ninna var lengi í stjórn sumarstarfs KFUK og sinnti því hlutverki af sömu alúð og samviskusemi og öðru því sem henni var falið. Á vorin þurfti ýmislegt að gera staðnum til góða til að vel færi um stúlkurnar og starfsliðið þegar dvalarflokkar hæfust. Í þeim undirbúningi gekk hún til þeirra verka sem þurfti, var góð fyrirmynd og hafði góð áhrif á okkur hin.

Nánari kynni af Ninnu staðfestu þá mynd sem ég hafði af henni frá þessum vorverkum. Hún var traust, yfirveguð, úrræðagóð og umhyggjusöm. Trú hennar kom ríkulega fram í vitnisburði verkanna.

Síðar lágu leiðir okkar saman er hún sótti Grensáskirkju trúfastlega, var þar um árabil allflesta sunnudagsmorgna með sitt látlausa fas og þægilegu nærveru.

Guði séu þakkir fyrir Guðfinnu Guðmundsdóttur sem nú hefur verið kölluð til fagnaðar herra síns.

Ólafur Jóhannsson.

Stundum hefur lánið leikið við mig. Það var eitt sinn lán mitt að vinna með Guðfinnu Guðmundsdóttur í Reykjavíkur Apóteki. Hún vann alla starfsævi sína þar. Hógværð, vandvirkni og manngæska einkenndi öll störf hennar. Hún kenndi mér og leiðbeindi. Betri kennara og traustari leiðsögn var ekki hægt að hugsa sér varðandi apótekslyfjafræði þess tíma. Ég veit að fjölmargir lyfjafræðingar sem kynntust Guðfinnu í starfi og nutu leiðsagnar hennar deila þessari skoðun minni. Þó unnum við ekki saman í Reykjavíkur Apóteki nema í rúman áratug. Það má segja að hún hafi einnig leiðbeint með góðu fordæmi. Núna þegar ég hef lokið lyfjafræðistörfum og lít til baka til apóteksáranna get ég sagt eins og segir í söngtextanum; „gaf mér allt sem reyndist svo best“.

Ég þakka fyrir vegferðina í gegnum árin. Hún Guðfinna, heiðursmerkishafi í Lyfjafræðingafélagi Íslands, lagði Lyfjafræðisafninu einnig lið hin síðari ár. Það er víst að þar hefur reynsla hennar og þekking notið sín vel. Það var eins og að finna fyrir birtu og hlýju þegar við röbbuðum saman hin síðari ár. Líklega er það einkennandi fyrir viðmót hennar að kveðja þennan heim með birtuna í fangið og allt sumarið fram undan. Hafi Guðfinna þökk fyrir allt og allt.

Ólafur Ólafsson.