Hraðaupphlaup Elliði Snær Viðarsson skorar eitt af sjö mörkum sínum frammi fyrir 2.500 áhorfendum í Laugardalshöllinni í fyrrakvöld.
Hraðaupphlaup Elliði Snær Viðarsson skorar eitt af sjö mörkum sínum frammi fyrir 2.500 áhorfendum í Laugardalshöllinni í fyrrakvöld. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísland verður á meðal þátttökuþjóðanna á heimsmeistaramóti karla í handknattleik í Noregi, Danmörku og Króatíu í janúar 2025. Eftir risasigur á Eistlandi í fyrri leik þjóðanna í Laugardalshöllinni í fyrrakvöld, 50:25, er seinni leikurinn í Tallinn á morgun formsatriði

HM 2025

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Ísland verður á meðal þátttökuþjóðanna á heimsmeistaramóti karla í handknattleik í Noregi, Danmörku og Króatíu í janúar 2025.

Eftir risasigur á Eistlandi í fyrri leik þjóðanna í Laugardalshöllinni í fyrrakvöld, 50:25, er seinni leikurinn í Tallinn á morgun formsatriði. Það er bókstaflega engin hætta á að Eistland vinni upp forskotið og línumaðurinn Elliði Snær Viðarsson, sem lék vel, skoraði sjö mörk og var sterkur í vörninni, sagði við Morgunblaðið í leikslok: „Við getum sagt að við séum komnir með neðri búkinn á HM. Þetta var ótrúlega gaman, full höll og vel gert hjá stuðningsmönnunum að vera með stemningu allan tímann. Það er ótrúlega vel gert,“ sagði Eyjamaðurinn.

Hann var ánægður með að íslenska liðið skyldi halda áfram að bæta í allan leikinn og slakaði lítið á, þrátt fyrir að leikurinn hefði í raun verið unninn í fyrri hálfleik.

„Við ætluðum alltaf að gera þetta af alvöru allan tímann. Við ætluðum ekki að slaka neitt á. Við skulduðum alvöruframmistöðu eftir EM, að okkar mati, og svo hefðum við getað klárað leikina úti í Grikklandi svona. Það datt aðeins niður í nokkrar mínútur. Ég er ótrúlega stoltur af liðinu og öllum að hafa klárað þetta svona vel,“ sagði hann.

Fleiri mínútur með Snorra

Aðalsmerki Snorra Steins Guðjónssonar þegar hann var þjálfari Vals var gríðarlegur hraði og mikið af mörkum. Það er því engin tilviljun að Ísland hafi skorað 50 mörk undir hans stjórn.

„Við erum búnir að fá fleiri mínútur undir beltið með hann sem þjálfara. Við pössum líka boltann betur á leiðinni fram, stundum áttum við það til að fara svolítið fram úr okkur og ætluðum að gera of mikið. Núna erum við að halda þéttri pressu og vitum hvenær við viljum keyra alveg og hvenær við viljum slaka örlítið og stilla upp í alvörusókn,“ útskýrði Elliði.

Þegar leikmenn Íslands sáu að það væri raunhæfur möguleiki að skora 50 mörk, varð það að markmiði þegar skammt var eftir. „Við töluðum um það í leikhléinu að okkur vantaði nýtt markmið og þá voru það 50 mörkin. Við vildum samt halda þeim í aðeins færri mörkum. Það er ótrúlega gott. Ég held að það hafi ekki oft verið skoruð 50 mörk í Laugardalshöllinni.“

Ómar og Gísli með 20 mörk

Þeir Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson spiluðu gríðarlega vel í fyrrakvöld, Ómar skoraði 12 mörk og Gísli 8, og Elliði er sáttur við að hafa tvo af betri leikmönnum heims að dæla á sig boltanum á milli þess sem þeir skora sjálfir.

„Það verður til meira og meira pláss þegar þeir verða hættulegri. Þá verður maður að vera tilbúinn að nýta þessi tækifæri. Þetta eru bestu sóknarmenn í heimi í dag og sóknarlínan okkar stóran hluta leiks er útilínan hjá Magdeburg, sem er besta sóknarlið í heimi. Það eru forréttindi að fá að taka þátt í þessu með þeim,“ sagði Elliði Snær.

Orri Freyr Þorkelsson skoraði sjö mörk í seinni hálfleik en 12 leikmenn Íslands skoruðu í leiknum, þar á meðal báðir markverðirnir.