Stórfjölskyldan Helga ásamt fjölskyldu sinni, móður, tengdamóður, systkinum og fjölskyldum þeirra.
Stórfjölskyldan Helga ásamt fjölskyldu sinni, móður, tengdamóður, systkinum og fjölskyldum þeirra.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helga Atladóttir er fædd 10. maí 1974 á Akranesi og ólst þar upp. Hún gekk í Brekkubæjarskóla og Fjölbrautaskóla Vesturlands. Hún var skiptinemi í Heusenstamm í Hessen í Þýskalandi veturinn 1991-1992 og kynntist þar eiginmanni sínum, Alexander Eck

Helga Atladóttir er fædd 10. maí 1974 á Akranesi og ólst þar upp.

Hún gekk í Brekkubæjarskóla og Fjölbrautaskóla Vesturlands. Hún var skiptinemi í Heusenstamm í Hessen í Þýskalandi veturinn 1991-1992 og kynntist þar eiginmanni sínum, Alexander Eck. Hún tók virkan þátt í félagslífi á skólagöngunni, var í leiklist, tók þátt í ræðukeppnum, nemendafélagi og fleira. Helga tók þátt í skátastarfi í skátafélagi Akraness í mörg ár.

Helga byrjaði snemma að vinna með skóla og steig sín fyrstu atvinnuskref sem afgreiðslukona í úra- og skartgripaverslun afa síns og ömmu, Helga Júlíussonar og Huldu Jónsdóttur á Akranesi. Hún vann í nokkur ár í Skaganesti sem Haukur Ármannsson rak, passaði börn og fleira. „Ég hef gaman af því að vinna og er alltaf heppin með samstarfsfólk.“

Helga og Alexander byrjuðu að búa á Akranesi árið 1994, fluttu til Reykjavíkur árið 1996 og til Þýskalands árið 2001. Þau bjuggu fyrst í Detmold í Nordrhein-Westfalen og síðar í Coesfeld í sama héraði. Árið 1996 fór Helga í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan sem hjúkrunarfræðingur árið 2000. Í Þýskalandi kláraði hún nám í náttúrumeðferðum og lauk starfsréttindum sem náttúruþerapisti í Þýskalandi. Helga fór í meistaranám í hjúkrunarfræði sem hún lauk árið 2011. „Ég hef haft brennandi áhuga á hjúkrunarfræði og öldrunamálum, en upplifði mikið álag og flókin verkefni á covid-tímanum.“

Árið 2007 fluttu þau hjónin til Akraness og byggðu sér hús á Skógarflöt. Leiðin lá síðan til Reykjavíkur árið 2022 og á sama tíma keyptu þau sér bústað í Húsafelli. Síðan þá hafa þau farið flestar helgar í Húsafell.

Helga starfaði á Landspítala árin 2000 og 2001 þangað til þau hjónin fluttu til Þýskalands. Í Þýskalandi starfaði hún í endurhæfingu krabbameinssjúkra og við heimahjúkrun. Eftir að fjölskyldan flutti til Akraness hóf Helga störf á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Höfða, fyrst sem almennur hjúkrunarfræðingur og frá árinu 2008 sem hjúkrunarforstjóri. Helga hefur starfað frá árinu 2016 sem deildarstjóri á Landspítalanum.

„Ég er núna deildarstjóri á göngudeild á Landakoti, þar er fjölbreytt móttaka sjúklinga, minnismóttaka, byltumóttaka, almenn móttaka, hjúkrunarmóttaka og fleira. Ég hef unnið hér í tvö ár, þar á undan var ég á endurhæfingardeild fyrir aldraða á Landakoti. Starfið er skemmtilegt og mjög margir sem koma að vinnunni, mikil fjölskylduvinna sem er gefandi og getur verið umfangsmikil. Það kemur mér á óvart hve mikið er af fjölbreyttum úrræðum fyrir eldri borgara í samfélaginu. Á Landakoti er mikil starfsemi og skemmtilegt að vinna við hjúkrun.

Áhugamál mín tengjast samveru við fjölskyldu og vini og er hvert tækifæri nýtt til samverustunda. Fjölskyldan hefur farið nær árlega til Þýskalands til að hitta fjölskylduna þar. Ég er þakklát fyrir fjölskyldu mína og lífið.“

Helga stundar einnig mikið útivist og hefur í mörg ár verið í fjallgöngu- og hlaupahópum. Hún hefur tekið þátt í langhlaupum, bæði utanvega- og götuhlaupum, meðal annars farið í nokkur maraþon og últramaraþon. „Nýjustu áhugamálin eru gönguskíði og svigskíði. Við hjónin fórum með vinahópi í eftirminnilega skíðaferð í febrúar síðastliðnum til Austurríkis. Þemað hjá mér er að setja alltaf einhver markmið, eins og að ganga á Hvannadalshnúk og Hrútfjallstinda eða hlaupa maraþon.“

Fjölskylda

Eiginmaður Helgu er Alexander Eck, f. 23.7. 1971 í Offenbach am Main í Þýskalandi og ólst upp í Heusenstamm. Hann er yfirmaður þjónustusviðs hjá Nanitor. Þau búa í Vogahverfi í Reykjavík. Helga og Alexander giftust í Neskirkju 8. júlí árið 2000. Foreldrar Alexanders eru Manfred Eck, f. 24.8. 1935, og Eveline Ilcken, f. 19.10. 1938. Þau eru búsett í Heusenstamm.

Börn Helgu og Alexanders eru 1) Nína Eck, f. 16.4. 1995, útskrifast í júní sem félagsráðgjafi M.A. frá HÍ. Sonur hennar er Brímir Alexander Davíðsson, f. 13.5. 2015; 2) Balthasar Alexandersson Eck, f. 13.7. 2006, nemi í rafvirkjun við Tækniskóla Reykjavíkur.

Systkini Helgu eru Óli Örn Atlason, f. 20.4. 1978, Þóra Atladóttir, f. 30.5. 1980, og Atli Þór Agnarsson, f. 7.1. 1984, öll búsett í Reykjavík.

Foreldrar Helgu: Sigríður Kristín Óladóttir, f. 21.3. 1951, heimilisfræðikennari, búsett á Akranesi, gift Þórði Sveinssyni múrara, f. 29.9. 1957, og Atli Þór Helgason, f. 19.1. 1950, d. 7.8. 1980, úrsmíðameistari á Akranesi. Stjúpfaðir Helgu var Agnar Guðmundsson, f. 18.4. 1954, húsgagnasmíðameistari, búsettur í Reykjavík.