Markahæst Sandra María Jessen skoraði sigurmark Þórs/KA, sitt áttunda mark í fjórum leikjum, og sækir hér að marki Víkings í gær.
Markahæst Sandra María Jessen skoraði sigurmark Þórs/KA, sitt áttunda mark í fjórum leikjum, og sækir hér að marki Víkings í gær. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þór/KA virðist vera eina liðið sem er líklegt til að elta Breiðablik og Val í toppbaráttu Bestu deildar kvenna í fótbolta. Akureyrarliðið vann sinn þriðja leik í röð, lagði bikarmeistara Víkings 2:1 í Fossvogi í gær, og er með 9 stig, þremur á eftir …

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Þór/KA virðist vera eina liðið sem er líklegt til að elta Breiðablik og Val í toppbaráttu Bestu deildar kvenna í fótbolta. Akureyrarliðið vann sinn þriðja leik í röð, lagði bikarmeistara Víkings 2:1 í Fossvogi í gær, og er með 9 stig, þremur á eftir Val og Breiðabliki sem unnu Keflavík og Stjörnuna á miðvikudagskvöldið.

Sandra María Jessen skoraði sigurmarkið í fjörugum leik gegn Víkingi og er komin með átta mörk í fyrstu fjórum umferðunum. Hún hefur þó ekki lengur skorað öll mörk Þórs/KA því Ísfold Marý Sigtryggsdóttir sá um fyrra mark liðsins í gær, eftir sendingu frá Söndru.

Tindastóll virðist ætla að hrinda öllum hrakspám og er í fjórða sæti eftir annan sigurinn í röð, nú 3:0 gegn Fylki í „heimaleik“ á KA-vellinum á Akureyri í gær. Þar var spilað vegna þess að Sauðárkróksvöllur er óleikhæfur í bili.

Efnilegar frá Skagaströnd

Laufey Harpa Halldórsdóttir lagði upp annað mark Tindastóls og skoraði það þriðja undir lokin en áður hafði hin 18 ára gamla Elísa Bríet Björnsdóttir frá Skagaströnd skorað fyrsta mark leiksins eftir sendingu frá jafnaldra sínum og sveitunga, Birgittu Rún Finnbogadóttur.

Fylkir tapaði þar með sínum fyrsta leik og svo virðist sem deildin ætli að verða hnífjöfn í ár, ef undanskilin eru topplið Breiðabliks og Vals og mögulega lið Þórs/KA.

Fjórða tap Keflvíkinga

Keflavík hefur tapað öllum fjórum leikjum sínum en veitti Val geysiharða keppni á grasvellinum í Keflavík í fyrrakvöld. Nadía Atladóttir skoraði þar sigurmark Vals, 2:1, eftir að Keflavík hafði verið yfir í hálfleik með marki Elfu Karenar Magnúsdóttur.

Þá skoraði Agla María Albertsdóttir tvö marka Breiðabliks í fyrrakvöld þegar Kópavogsliðið vann stórsigur á Stjörnunni, 5:1. Öll mörk leiksins komu á fyrstu 40 mínútunum og staðan var 2:1 eftir fimm mínútur. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði í fjórða leiknum í röð fyrir Breiðablik og er komin með sex mörk.

Sigurmark á lokasekúndum

Breukelen Woodard skoraði sigurmark FH gegn Þrótti, 1:0, á lokasekúndum uppbótartíma í Kaplakrika og þar með sitja Þróttarkonur eftir með aðeins eitt stig. Þetta er aðeins annað mark FH á tímabilinu en samt hefur Hafnarfjarðarliðið náð að landa tveimur sigrum og er komið með sex stig.

Lið Þróttar og Stjörnunnar hafa byrjað tímabilið illa en þetta voru liðin sem börðust um efstu sætin í fyrra og enduðu í þriðja og fjórða sæti deildarinnar. Þau eru bæði talsvert breytt í ár, hafa misst marga sterka leikmenn, og gætu hæglega sogast niður í fallbaráttu með þessu áframhaldi.