Jóhanna Kristín Ingimundardóttir Birnir var fædd á Hellissandi 15. febrúar 1930. Hún lést á Hrafnistu á Laugarási 28. apríl 2024.

Hún var dóttir hjónanna Magnfríðar Friðriku Sigurlínadóttur húsmóður og Ingimundar Sumarliða Guðmundssonar sjómanns. Hún ólst upp á Sandi til sex ára aldurs, en fór þá í fóstur til hjónanna Þórunnar Guðmundsdóttur og Kristjáns Cecils Jónssonar, sem bjuggu á Hringbraut 90 í Reykjavík og ólst síðan upp hjá þeim til fullorðinsára við gott atlæti, sótti Miðbæjarbarnaskólann og síðan Ingimarsskóla. Vann síðan verslunarstörf þar til hún giftist Einari Birnir frá Grafarholti í Mosfellssveit í júní 1952. Þau bjuggu allan sinn búskap í Reykjavík, eignuðust sex börn: Þórunni Kristínu, Björn, Mögnu Fríði, Bryndísi, Ingimund og Jóhönnu Kristínu, en öll bera börnin ættarnafn foreldra sinna, Birnir.

Jóhanna stundaði störf húsmóður og uppalanda barna sinna alla tíð auk þess að sinna margháttaðri listsköpun; við hannyrðir, málun og útskurð, sem allt bar listfengi hennar fagurt vitni.

Útför hennar fer fram frá Seljakirkju í dag, 10. maí 2024, klukkan 15.

Við systkinin minnumst þess iðulega hvað hún mamma var alltaf dugleg að leika við okkur, jafnvel þó að hún sæti við sauma eða væri að laga mat. Hún gat alltaf fundið eitthvað skemmtilegt að gera. Við lærðum af henni að allt getur orðið að leikföngum; búsáhöld, tómar flöskur og jafnvel kaldar kartöflur. Þær má kreista þangað til þær spýtast út á milli fingranna. Og þegar við sátum hjá henni við leik, eða að vinna heimaverkefnin okkar, þá kenndi hún okkur ógrynni af vísum og ljóðum. En hún kenndi okkur líka að vera alltaf að forvitnast um heiminn og finna nýjan leik til að gera hann skemmtilegan.

Mamma okkar var alltaf að búa eitthvað til, hvort sem það voru föt, útsaumur, útskurður eða myndir á postulín. Þessi endalausa sköpun veitti henni lífsfyllingu og smitaði öll börnin hennar. Hún skapaði fallega hluti af ótrúlegri smekkvísi. Og mesta áherslu lagði hún á að móta börnin sín sem hamingjusamar og sjálfstæðar verur.

Ástúðina og hlýjuna sem mamma veitti okkur gaf hún barnabörnunum líka og öll börn máttu koma til hennar og hlotnaðist þá sama ástin og hlýja viðmótið. Ábyrgð, kjarkur, seigla og dugnaður voru henni í blóð borin og þessa eiginleika ræktaði mamma hjá okkur. Hún hafði þurft að takast á við mikla erfiðleika í lífinu en henni var lagið að finna alltaf ljós í myrkrinu, finna ljósa hlið þegar þær sýndust allar vera svartar, hún var bjartsýn og lífsglöð og það var alltaf stutt í hláturinn. Það var lengi hægt að finna eitthvað jákvætt í flestum uppákomum.

Við þökkum móður okkar fyrir ástina sem hún gaf okkur. Hún endist okkur og næstu kynslóðum langa ævi.

Þórunn K. Birnir,
Björn Birnir,
Magna F. Birnir,
Bryndís Birnir,
Ingimundur Birnir, Jóhanna K. Birnir.

Nú hefur Jóhanna Kristín tengdamóðir mín til nær fimmtíu ára kvatt þennan heim og haldið á nýjar slóðir.

Jóhanna var margbrotin og mikilhæf kona og var margt til lista lagt. Hún var afar fróð og minnug, að eðlisfari kát og létt í lund, en um leið hörð í horn að taka, ef svo bar undir.

Það er margs að minnast og frá mörgu að segja um Jóhönnu, en í þessari litlu grein ætla ég aðeins að fjalla um kímnigáfu hennar og skopskyn, en hún bjó yfir hafsjó af spaugilegum sögum um menn og málefni, sem hún færði í stílinn og tjáði á sinn einstaka hátt.

Þegar ég lít til baka, þá held ég að ég hafi sjaldan hlegið jafn oft, jafn lengi og jafn dátt með öðrum og ég gerði með Jóhönnu.

Á einum af okkar síðustu fundum sagði hún mér sögur af prakkarastrikum krakkanna sem bjuggu í verkmannabústöðunum við Hringbraut, en Jóhanna ólst þar upp frá sjö ára aldri.

Verkamannbústaðirnir mynduðu ferhyrning á milli Hringbrautar að sunnan og Ásvallagötu að norðan, með Hofsvallagötu að austan og Bræðraborgarstíg að vestan. Í miðjunni var lokað útivistarsvæði með leikvelli, sem búinn var alls kyns nýstárlegum leiktækjum fyrir barnaskarann sem þar bjó. En eins og vel er vitað, þá endast baldin og orkumikil börn ekki til lengdar inni á lokuðum leiksvæðum og leita annað til fá útrás fyrir orku sína og uppátækjasemi. Eitt af þeim svæðum sem krakkarnir úr verkamannabústöðunum leituðu í var samvinnubústaðahverfið, sem var beint handan við Bræðraborgarstíginn.

Ég þekkti einn þeirra manna, sem krakkarnir í verkó höfðu gaman af að atast í, afar vel, en það var móðurafi minn, Guðbrandur Magnússon, en hann og móðuramma mín, Matthildur Kjartansdóttir, bjuggu í einum af samvinnubústöðunum, Ásvallagötu 52.

Afi, sem lengi var forstjóri Áfengisverslunar ríkisins, lærði aldrei á bíl og fór flestra sinna ferða fótgangandi. Hann var léttur á fæti og léttur í lund og átti það til að valhoppa um bæinn á leiðinni í vinnuna. Hann gekk um með hatt og í frakka og þegar vel viðraði lét hann frakkann flaksa frá, brá höndunum undir frakkalafið og sveiflaði því upp og niður og til beggja hliða.

Þetta þótti krökkunum í verkó afar fyndið og lýsti Jóhanna því hvernig þeir, að henni meðtalinni, gengu í halarófu á eftir afa upp Bræðraborgarstíginn að Túngötunni og hermdu eftir göngulagi hans og tiktúrum. – Afi vissi af þessu fríða fylgdarliði og hafði gaman af. Hann leit af og til um öxl og sveiflaði frakkalafinu enn frekar, fylgdarliðinu til mikillar skemmtunar.

Jóhanna sagði mér að þegar hún gekk í halarófunni á eftir afa hefði það aldrei hvarflað að sér að hún ætti eftir að eignast tengdadóttur sem var barnabarn hans. – En svona getur lífið verið skemmtilegt og skrítið!

Inga Dóra Björnsdóttir.

Falleg, góð, fagurkeri og félagsvera með kímnigáfu.

Þannig myndi ég lýsa ömmu Jóhönnu.

Amma var falleg og góð manneskja að innan sem utan. Hún umvafði allt og alla með hlýjunni sem einkenndi hana. Faðmurinn var alltaf opinn og væntumþykjan óendanleg.

Amma gerði allt fallegt í kringum sig hvort sem það var með blómunum, sem hún sinnti af kostgæfni, eða með listmununum sem hún málaði eða skar út. Fékk fjölskyldan að njóta góðs af sköpunargáfu hennar og eigum við mæðgur til að mynda einstakan myndaramma sem hún skar út og einnig lampa og vasa sem hún málaði.

Amma elskaði að tala við fólk og vera innan um fólk. Þegar hún kom hingað norður með afa Einari í heimsókn þá gat hún setið frammi í eldhúsi eða stofu og spjallað út í eitt við mömmu meðan afi lagði sig. Brosi bara við tilhugsunina.

Amma var með góða kímnigáfu og sló ekki hendinni á móti góðum bröndurum. Ég hringdi stundum í hana með brandara sem ég vissi að hún myndi kunna að meta. Hláturinn hennar var líka svo dillandi að það var ekki annað hægt en að hlæja með henni.

Elsku amma mín. Það verður skrítið að fara suður og ekki hitta þig. Þegar ég hitti þig í seinasta skipti faðmaði ég þig vel og lengi því ég hafði það á tilfinningunni að það væri eitthvað í vændum, sem reyndist rétt. Viku seinna varstu farin.

Þú mátt vera stolt af því sem þú skilur eftir þig en það er þín einstaka góðmennska sem endurspeglast í börnunum þínum og barnabörnum. Góðmennskan sem einkenndi ykkur afa Einar.

Takk fyrir allt sem þú gafst mér og Þórunni Birnu, við munum varðveita allar minningarnar um þig í hjarta okkar.

Þínar

Þórunn Kristín og
Þórunn Birna.

Ég loka augunum og fer 40 ár aftur í tímann, ég sit í fanginu á Jóhönnu ömmu minni og nöfnu. Þétt og mjúkt er fangið, ég er örugg og efast ekki um hversu dýrmæt ég er. Amma geislaði af björtu ljósi. Hún kunni að búa til töfra úr hversdeginum. Það var hennar ofurkraftur. Hún elskaði söng, tísku, skartgripi, blóm og list. Enda lék allt í höndunum á henni, hún var listamaður. Allt sem hún snerti varð fallegra fyrir vikið. Hún kenndi mér að líta á björtu hliðarnar, sjá fegurðina, gefast aldrei upp, standa með sjálfri mér, bera höfuðið hátt, þora að skarta mínu fegursta og það sem er hennar stærsta arfleifð – að setja börnin alltaf í fyrsta sæti.

Í minningu minni urðu páskarnir til heima hjá ömmu og afa. Enda voru þeir töfrum líkastir. Við fengum kakó úr ævintýralega fallegu stelli sem amma hafði sjálf málað. Vöknuðum við veislu og ævintýralega skreytt hús. Ég man þegar hún kallaði á okkur til að kíkja í skartgripaskrínið sitt, sem var meira eins og fjársjóðskista, og dró upp gersemar með sögum um uppruna hlutanna og leyfði okkur að handleika dýrgripina. Hún vildi að við kynnum að meta fallega hluti. Alltaf endaði hún á að segja við okkur: „Einhvern tímann verður þetta þitt.“

Ég á eina minningu af ömmu úr frumbernsku – við systkinin vorum að gista. Amma kyssti okkur og þétti sængina, signdi og bað Guð að passa okkur. Mér leið svo vel og þegar amma hafði klárað athöfnina, þá fyrst gat ég sofnað, því hún var búin að „merkja“ mig. Svo eltumst við og þroskuðumst. Amma var sú sem ég gat rætt trúmál við og hún gaf mér eitt besta ráð sem ég hef fengið. Að „öll trú er góð svo lengi sem hún leiðir gott af sér“. Það er víst ekki flóknara en það. Sem fullorðnar áttum við yndislegt samband. Amma var vinkona mín. Hún sagði svo skemmtilega frá, sögur af henni og afa, sýndi mér gömul ástarbréf. Ég horfði oft á hana og hugsaði: ætli ég verði svona sæt þegar ég verð gömul?

Amma var alltaf með einhverja metnaðarfulla hugmynd sem hún brann fyrir og við sátum oft saman að koma þessum hugmyndum í framkvæmd. Ég rissaði upp þangað til við vorum búnar að ná utan um hennar sýn. Það var svo gefandi að sjá lokaafurðina skorna út í tré, alveg orginal. Amma skilur eftir sig mikið af munum, hvert og eitt okkar á útskorinn ramma. Ég naut þess að fá að dekra við hana í seinni tíð, smá fótanudd eða lakk á neglurnar. Amma og afi áttu sex börn, 12 barnabörn 18 barnabarnabörn og tvö barnabarnabarnabörn. Amma var gífurlega stolt af öllum afkomendum sínum. Öll með tölu vorum við náin henni.

Nú hefur amma kvatt okkur í hinsta sinn en hún sagðist ekki ætla að fara langt og ég trúi því að hún sé einmitt núna að biðja Guð að passa okkur. Það hefur verið fallegt að fylgjast með einstöku hjónabandi, samheldni og ást ömmu og afa sem spannar yfir 70 ár, ekki síst undanfarið að sjá hvílíkur klettur afi var við hlið hennar. Við erum djúpt þakklát fyrir að hafa verið þess aðnjótandi að hafa Jóhönnu sem ættmóður, hún lagði línurnar og munum við gera okkar til að halda arfleifð hennar á lofti.

Þín ömmustelpa,

Jóhanna Helga
Þorkelsdóttir.