Þórunn Guðbjörnsdóttir fæddist í Hafnarfirði 28. apríl 1944. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 16. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru hjónin Guðbjörn Þórarinsson sjómaður, f. í Leiru 11. maí 1894, d. 3. september 1988, og Anna Eiríksdóttir húsmóðir, f. á Ytri-Görðum, Staðarsveit á Snæfellsnesi 26. maí 1906, d. 8. desember 1986.

Systir Þórunnar sammæðra er Engilráð (Stella) Óskarsdóttir, f. 26. febrúar 1931, d. 6. ágúst 2018. Eiginmaður Stellu var Guðmundur Erlendsson f. 18. júní 1928, d. 1. ágúst 1978. Eftirlifandi alsystur Þórunnar eru Sigríður, f. 3. ágúst 1933, hennar eiginmaður var Bergur Hafsteinn Gíslason, f. 13. júlí 1926 d. 18. mars 1981; Anna Björk, f. 25. október 1938, eiginmaður hennar er Almar Grímsson, f. 16. apríl 1942.

Árið 1975 giftist Þórunn Einari Runólfssyni, f. 11. desember 1937, d. 19. febrúar 2023. Einar var sonur hjónanna Runólfs Þorgeirssonar skrifstofustjóra hjá Sjóvá, f. 19. desember 1912, d. 28. janúar 2008, og Þórunnar Einarsdóttur húsmóður, f. 24. mars 1915, d. 9. desember 1978. Þórunn og Einar stofnuðu heimili í Reykjavík árið 1975 og hófu að byggja hús í Seljahverfi. Þangað fluttu þau árið 1981 og bjuggu í rúm 40 ár, er þau fluttu í Sjálandshverfið í Garðabæ.

Synir Þórunnar og Einars eru: 1) Runólfur Óskar, f. 16. mars 1976, verkfræðimenntaður og er forritari hjá Íslandspósti. 2) Þórólfur Björn, f. 21. febrúar 1981, verkfræðingur hjá Verkfræðistofu Reykjavíkur, maki Jóhanna Björk Gísladóttir, f. 1. janúar 1975. Synir Jóhönnu og Þórólfs eru Bjarki Valur, f. 25. nóvember 2012, og Sævar Hugi, f. 25. september 2015.

Þórunn var yngst systranna og ólst upp með þeim í foreldrahúsum á Langeyri við Herjólfsgötu í Hafnarfirði. Þær systurnar voru mjög samrýndar og voru eins og foreldrarnir kenndar við Langeyri. Guðbjörn faðir þeirra var mikið til sjós á æskuárunum og Anna á Langeyri móðir þeirra var mikill skörungur og frumkvöðull í ræktun jarðávaxta og var hollustufæði því ávallt á borðum.

Þórunn gekk í Barnaskóla Hafnarfjarðar og tók svo gagnfræðapróf frá Flensborgarskóla. Hún starfaði um skeið við skrifstofustörf, m.a. á lögfræðistofu. Hún fór til Danmerkur og starfaði þar á saumastofu í eitt ár en hóf svo starf í Búnaðarbanka Íslands árið 1967. Þórunn tók sér hlé frá vinnu meðan synir þeirra hjóna voru í bernsku, fór svo aftur til starfa í bankanum þar til hún fór á eftirlaun 2005.

Þórunn var mjög áhugasöm um tónlist og söng í mörg ár í Pólýfónkórnum. Hún var mikil hannyrðakona og bjó sér og sínum fallegt heimili. Seinni árin naut hún þess ásamt Einari að eiga samverustundir með sonarsonunum Bjarka og Sævari.

Einar lést eftir stutt og erfið veikindi fyrir rúmu ári. Það var óvænt hve stutt var milli andláts þeirra hjóna því að um síðustu jól og áramót var ekkert sem benti til að ævi Þórunnar væri senn á enda.

Útför Þórunnar fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 10. maí 2024, klukkan 15.

Systrakveðja.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Það er með trega sem við kveðjum okkar kæru systur Þórunni sem var yngst okkar fjögurra systra frá Langeyri. Tóta, eins og hún var ætíð kölluð, fæddist heima í litla húsinu á Langeyri á fallegum sólskinsdegi í apríl fyrir 80 árum. Við geymum enn fallegar minningar frá þeim degi þó ekki værum við gamlar. Stóru systurnar fóru í sjóinn, því veðrið var svo gott og við munum líka mjög vel að það var sigin grásleppa í hádegismatinn. Já, Tóta var sannkallað sólskinsbarn og mjög velkomin í systrahópinn. Við áttum góða foreldra og okkur leið vel þó ekki væru húsakynnin stór, en leikvöllur okkar utandyra var þeim mun stærri. Það var stóra lóðin fyrir utan, hraunið og fjaran og sátum við löngum stundum úti á kletti og veiddum, en mest voru það nú marhnútar. Mikið var leikið í hrauninu og voru fætur oft rispaðir og sárir á sumrin. Einnig var sundlaugin, sem var í næsta nágrenni, mikið notuð af okkur systrum allan ársins hring, og var Tóta ekki gömul þegar hún fór að svamla í lauginni þó hún væri ekki enn orðin synd.

Tóta gekk í Barnaskóla Hafnarfjarðar og fór síðan í Flensborgarskólann og tók þaðan gagnfræðapróf 1961. Hún fór til Danmerkur um tvítugsaldurinn og var þar í eitt ár. Fljótlega eftir að hún kom heim fór hún að vinna í Búnaðarbankanum, sem varð hennar aðalstarfsvettvangur utan heimilisins.

Hún var söngelsk og söng með Pólýfónkórnum í mörg ár og hafði unun af. Tók hún þátt í mörgum tónleikum og flutningi óratoría og fór með kórnum í söngferðalög til útlanda nokkrum sinnum.

Hún kynntist Einari sínum árið 1974 og giftu þau sig 20. desember 1975. Þau byggðu sér bú í Hjallaseli 15 og bjuggu þar í 40 ár. Þegar þau eignuðust synina sína tvo, Runólf og Þórólf, tók Tóta sér frí frá störfum í bankanum í nokkur ár meðan þeir voru að komast á legg. Hún tók svo aftur upp þráðinn og starfaði í bankanum uns hún fór á eftirlaun 2005. Tóta var afar myndarleg og lék matargerð og handavinna í höndum hennar. Sérstaka athygli vöktu fíngerðu dúllurnar og dúkarnir sem hún prjónaði og við dáðumst að. Tóta var afar vinsæl og átti marga trausta vini, sem sjá nú á eftir góðri vinkonu.

Stella elsta systir okkar lést fyrir sex árum og nú er höggvið annað stórt skarð í hóp okkar systra þegar Tóta, sú yngsta, er farin. Við verðum að lifa með því og eitt er víst að minningar um okkar yndislega líf systranna fjögurra saman gerir líf okkar tveggja sem eftir lifum bærilegra.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Vertu sæl, elsku systir.

Sigríður (Lilla) og Anna Björk (Bidda).

Þórunn, elskuleg mágkona mín, er fallin frá. Fyrstu viðbrögðin eftir fregnina um að hún væri með ólæknandi krabbamein voru blandin undrun, depurð og sorg. Aðeins liðu um tveir mánuðir frá greiningu þar til hún andaðist að morgni 16. apríl sl. og aðeins var liðið eitt ár frá andláti Einars, eiginmanns Tótu. Fyrir mig eru þetta skýr skilaboð um að taka ekkert sem gefið í lífinu og nota hverja stund, hvern dag vel.

Á mig sækja fjölmargar kærar minningar af kynnum okkar Tótu og samskiptum í rúmlega 60 ár. Hún var heimasætan á Langeyri þegar ég birtist þar í desember 1962 til að heimsækja tilvonandi eiginkonu mína og fjölskyldu hennar. Ég hafði hitt Önnu Björk (Biddu), systur hennar, í Kaupmannahöfn, við trúlofað okkur þar ytra og heim var ég kominn til að ganga í hjónaband.

Eldri systurnar tvær, Stella sem var gift Mumma sínum og Lilla gift Hafsteini frá Hvaleyri, voru þá löngu flognar úr litla notalega hreiðrinu á Langeyri. Foreldrarnir, Anna og Guðbjörn, tóku mér afar vel og héldu eftirminnilega fámenna en mjög góðmenna brúðkaupsveislu fyrir okkur Önnu Björk á vetrarsólstöðum 1962. Þetta góða tengdafólk mitt varð mér, foreldrum mínum og systur að dýrmætum vinum og samferðamönnum. Ég varð margs vísari og fróðari þegar ég sat yfir kaffibolla með Bjössa tengdapabba og hlustaði á magnaðar sögur af lífsreynslu hans á sjó og landi. Anna á Langeyri, tengdamóðir mín, var frumkvöðull á sviði ræktunar jarðávaxta og náttúrulækninga. Ég var hins vegar efasemdamaður um slíkt mataræði, lét jafnvel í ljósi neikvætt viðhorf, en er henni ævarandi þakklátur fyrir að snúa mér til betri vegar.

Ég tengdist líka mágkonum mínum, Stellu, Lillí og Tótu, og fjölskyldum þeirra tryggðaböndum og er fullur aðdáunar á einlægri og sterkri samheldni þeirra systra. Þær hafa viðhaldið og eflt samkenndina með afkomendum sínum og halda stoltar á lofti minningu um foreldra sína, uppruna og æsku á Langeyri. Meðal samtímafólks voru foreldrarnir og systurnar ávallt kennd við Langeyri og þær systurnar sem hópur nefndar Langeyrarsystur. Tóta á Langeyri var enginn eftirbátur systra sinna, öðru nær. Hún fetaði í fótspor þeirra og eftir að hún stofnaði sitt heimili með Einari og sonunum tveim sýndi hún oft frumkvæði við að stofna til ýmissa atburða. T.d. kallaði hún systurnar gjarnan saman síðsumars til berjatínslu austur við Þingvallavatn þar sem þau hjónin áttu gott athvarf í sumarhúsi sínu.

Ung vildi Tóta líka skoða sig um í heiminum og á þeim árum varð Danmörk oftast fyrir valinu hjá ungu fólki sem vildi víkka sjóndeildarhringinn. Hún kom til okkar í Kaupmannahöfn árið 1964, fékk starf á saumastofu og leigði ásamt tveimur ungum íslenskum konum íbúð. Önnur þeirra, Guðrún Kristín (Diddý), varð síðar mágkona hennar og náin vinkona alla tíð. Að leiðarlokum þakka ég Tótu mágkonu minni fyrir allt sem hún hefur gefið mér og mínum í samfylgd okkar gegnum lífið og votta Runólfi, Þórólfi og konu hans Jóhönnu og sonum þeirra Bjarka og Sævari innilega samúð.

Almar Grímsson.

Hryggðar hrærist strengur

hröð er liðin vaka,

lifir ekki lengur

ljós á þínum stjaka.

Skarð er fyrir skildi

skyggir veröldina,

Eftir harða hildi

horfin ertu vina.

Klukkur tímans tifa

telja ævistundir,

ætíð lengi lifa

ljúfir vinafundir.

Drottinn veg þér vísi

vel þig ætíð geymi,

ljósið bjart þér lýsi

leið í nýjum heimi.

(Hákon Aðalsteinsson)

Við sendum fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

BB-klúbbur,

Guðrún Á., Guðrún G., Guðný, Jóna, Kolbrún, Lea, Oddrún,
Ragnheiður og Sigríður.