Guðmundur Hauksson fæddist í Reykjavík 21. ágúst 1945. Hann lést á hjartadeild Landspítalans 28. apríl 2024.

Foreldrar Guðmundar voru hjónin Halldóra Guðmundsdóttir, f. 18. október 1917, d. 19. júlí 2006, og Haukur Helgason, f. 23. maí 1913, d. 6. október 1974. Guðmundur á einn bróður, Helga, f. 7. maí 1947.

Hinn 27. september 1969 giftist Guðmundur Rannveigu Þóru Garðarsdóttur, f. 23. ágúst 1949. Þau eignuðust þjú börn: Halldóru, f. 20. júní 1973, Garðar Hauk, f. 2. maí 1977, og Guðmund Helga, f. 20. ágúst 1980. Halldóra er í sambúð með Bolla Pétri Bollasyni, f. 9. ágúst 1972. Börn Halldóru eru Valþór Reynir Gunnarson, f. 24. september 2000, og Rannveig Ethel Gunnarsdóttir, f. 16. ágúst 2006, barnsfaðir Halldóru er Gunnar Reynir Valþórsson, f. 1. apríl 1975. Garðar Haukur er giftur Maren Rut Karlsdóttur, f. 27. mars 1983, saman eiga þau tvíburana Hendrik Darra og Eriku Ethel, f. 12. desember 2013. Guðmundur Helgi er í sambúð með Friðnýju Jónsdóttur, f. 8. desember 1975.

Guðmundur ólst upp í Kópavogi, í Kópavogsskóla þar sem foreldrar hans störfuðu og bjuggu. Hann lauk námi í húsgagnasmíði og einnig meistaranámi í trésmiðjunni Meið. Þar starfaði hann í rúma fjóra áratugi og síðar og til starfsloka í Epal.

Útförin fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 10. maí 2024, klukkan 13.

„Sæl, ég er til fóta.“ Á þennan hátt byrjuðu mörg símtöl okkar Guðmundar Haukssonar vinar míns, sem ég kveð með söknuði í dag. Við vorum samstarfsfélagar og hann vissi að ég mætti alltaf á undan honum til vinnu á morgnana. Það var þægilegra fyrir hann að nota bakdyrnar og þá hringdi hann svo ég gæti stokkið til og opnað fyrir honum þar. Ég man tóninn í röddinni, kankvís og alltaf einstaklega orðheppinn.

Þegar ég kynntist Haukssyni, það nafn notaði ég til aðgreiningar frá nafna hans á vinnustaðnum, vorum við fljót að finna okkar sameiginlega grunn, Kópavogsbúar í húð og hár. Við áttum margar góðar samræður á kaffistofunni um gamla tíma og flettum stundum Mogganum saman til að skoða minningargreinarnar um burtflogna eins og hann orðaði það. Hann hvatti mig til að ganga í Sögufélag Kópavogs sem ég og gerði og svo mættum við saman á fund. Ég mætti í göngur á vegum félagsins og upplýsti hann svo í smáatriðum um hvert var farið og hvaða fróðleik ég hafði meðtekið um bæinn okkar. Og auðvitað hafði svo mamma hans, Halldóra, verið mín frábæra skólahjúkka þegar ég gekk í Kópavogsskóla.Þegar hann fór að draga úr vinnu og taka það rólega heyrðumst við oft í síma og tókum stöðuna. Svo kom covid og ekki mátti hittast. Ég fékk þá frábæru hugmynd í miðju fárinu að renna við hjá Reyni bakara og kaupa tebollur og færa Haukssyni. Fyrir hádegi á aðfangadag! Ætlaði auðvitað bara að afhenda Rönnu pokann og hlaupa burt með grímuna og sprittið og allt á hreinu. En nei, „inn með konuna“ kallaði Hauksson og inn fór ég. Skíthrædd við að smita allt og alla. Til allrar hamingju slapp þetta til og við hlógum að þessu seinna því þetta uppátæki lagðist misvel í mannskapinn.

Nú er komið að leiðarlokum og nú er hann burtfloginn. Ég minnist Haukssonar með hlýju og virðingu og þakka fyrir samveruna á ferðalagi okkar. Mínar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar elsku Garðar og Ranna, Gummi og Halldóra og fjölskyldur.

Elín Guðmundsdóttir.