Sigfús R. Sigfússon fæddist í Reykjavík 7. október 1944. Hann lést á líknardeild Landakotsspítala 29. apríl 2024.

Foreldrar Sigfúsar voru Sigfús B. Bjarnason forstjóri, f. 4.5. 1913, d. 19.9. 1967, og Rannveig Ingimundard. húsmóðir, f. 29.12. 1911, d. 3.9. 1986. Systkini Sigfúsar eru Ingimundur, f. 13.1. 1938, d. 20.3. 2018, Sverrir, f. 1.9. 1939, og Margrét Ingibjörg, f. 12.9. 1947.

Fyrri maki Sigfúsar var Guðrún Norberg, f. 14.4. 1942, d. 8.12. 2023. Þau gengu í hjónaband 1968 og slitu samvistir 1998. Sonur Guðrúnar er Aðalsteinn G. Norberg, f. 6.10. 1961, maki Elín Anna Ísaksd. Börn Sigfúsar og Guðrúnar eru: 1) Sigfús Bjarni, f. 5.12. 1968, maki Unnur Pálsd. Synir þeirra eru Sigfús Ragnar, maki Franziska Dolliner, dóttir Sigfúsar er Skyler Hekla, og Gunnar Sveinn, maki Kristín U. Mathiesen. Börn Unnar eru Páll Ingi Kvaran, maki Kyla Longman, og Erla Hlíf Kvaran, maki Mikael Schou. Dætur hennar eru Unnur Ágústa og Sigrún Lára. 2) Margrét Ása, f. 1.11. 1971, maki Özur Lárusson. Dætur þeirra eru Guðrún, maki Úlfar Finnsson, dætur þeirra eru Margrét Dögg og Elísabet Heiða, og Ragnheiður, maki Helgi Vilbergsson og sonur þeirra Özur Rafn. 3) Rannveig, f. 27.10. 1975, maki Magnús Árnason. Dóttir þeirra er Margrét Björg. Sonur Rannveigar er Stefán Ragnar Sandholt; maki Sara Tómasd. Briem, sonur þeirra er Tómas Þór. Sonur Magnúsar er Árni Snær, maki Helga Lárusd., dóttir þeirra er Hekla Björg. 4) Guðrún Helga, f. 4.7. 1980, maki Rögnvaldur Guðni Jóhannsson. Synir Helgu eru Andri Sigfús, maki Embla R. Jakobsd., og Marteinn Ragnar Gautasynir. Dætur R. Guðna eru Emma Sól og Karitas Eva. 5) Ingimundur Sverrir, f. 5.11. 1981, maki Elísabet Ó. Guðjónsd. Dætur þeirra eru Ingibjörg Sara og Margrét Helga. Dætur Ingimundar eru Kristjana Guðrún og Rannveig Freyja. 6) Stefán Þór f. 20.3. 1984, eigink. Guðrún Ó. Sigurðardóttir, börn þeirra eru Tryggvi Þór, Óskar Trausti og Bríet Ósk.

Seinni maki Sigfúsar var María Solveig Héðinsdóttir, f. 27.7. 1958. Þau gengu í hjónaband 29. júlí 2001. Foreldrar hennar voru Héðinn Emilsson, f. 22.2. 1933, d. 1.3. 2006, og Ingibjörg O. Hjaltad., f. 10.3. 1934, d. 2.2. 1996. Systkini Maríu eru Margrét, Emil Björn, Magnús og Davíð, sem er látinn. Dóttir Maríu er Ingibjörg M. Þórarinsd., f. 23.10. 1984, maki Styrmir Þ. Bragason. Sonur þeirra er Styrmir Benedikt. Dætur Styrmis eru Steinunn Margrét og Erna María.

Sigfús fæddist og ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur. Hann lauk skyldunámi á Íslandi en hélt til Sviss að því námi loknu. Þar dvaldi hann menntaskólaárin og að afloknu námi þar hélt hann til Bandaríkjanna í háskólanám. Hann nam viðskiptafræði við The University of Wisconsin í Madison og kom heim að því námi loknu. Síðar lá leiðin aftur til Bandaríkjanna; þá í Stanford University í Kaliforníu. Sigfús hóf störf hjá Heklu þegar hann kom heim frá Madison. Hann stoppaði stutt við og hóf störf hjá Álverinu í Straumsvík. Þar starfaði hann í þrjú ár. Eftir að hann hætti störfum hjá Álverinu lá leiðin í fjölskyldufyrirtækið Heklu en það hafði pabbi hans stofnað árið 1933. Hekla varð svo hlutafélag í eigu fjölskyldunnar árið 1942. Hekla og tengd fyrirtæki voru starfsvettvangur Sigfúsar alla tíð. Hann var forstjóri P. Stefánsson og síðar Heklu. Hann var stjórnarformaður Heklu hf. og Vífilfells hf. og sat tímabundið í stjórn Kaldbaks hf. Um tíma var hann jafnframt formaður Bílgreinasambandsins. Auk þessa var Sigfús hluthafi í Hertz bílaleigu. Hekla var á forstjóratíð Sigfúsar stórt og voldugt fyrirtæki. Bílar, stórtækar vinnuvélar, vörubílar, skipavélar, lækningatæki og heimilistæki voru hluti af starfsemi fyrirtækisins og umboðsmenn Heklu voru um allt land.

Útför Sigfúsar fer fram frá Langholtskirkju í dag, 10. maí 2024, kl. 13.

Sólin er sest. Hugurinn reikar til æskuheimilisins sem pabbi og mamma bjuggu okkur börnunum sínum sjö, litríkt og elskulegt heimili. Þar var engin lognmolla, nóg til af öllu, ást, agi, hlýjar hendur og húmor.

Pabbi vaknaði alltaf fyrir allar aldir syngjandi glaður, gekk herbergi úr herbergi með hvíta handklæðið sitt og restina af raksápunni, dró upp gardínur og gekk inn í sturtuna. Við vissum að þegar skrúfað var fyrir sturtuna væri eins gott að vera staðin á fætur. Hann fór í jakkafötin og setti á sig bindið fyrir vinnudaginn, horfði á sjálfan sig í speglinum og sagði: „Hey, Mr. Handsome, how are you?“ Þegar hann var tilbúinn skyldum við öll vera komin upp í bíl ella labba í skólann. Pabbi var hörkutól en samt svo mjúkur. Hann klóraði okkur endalaust á bakinu, var bestur í að gefa fótanudd og var aldrei spar á að láta okkur vita hversu mikið hann elskaði okkur.

Pabbi okkar var ekta, hann hafði mikið sjálfstraust og trú sem flytja mátti fjöll. Hann efaðist aldrei um sjálfan sig og heldur ekki um börnin sín. Hann var leiðtogi af Guðs náð sem hafði í heiðri gamlar dyggðir. Heiðarleiki, traust og vinnusemi voru hans einkenni.

Pabbi var strangur, lagði okkur línurnar og lét okkur vita að hann væri til staðar ef við þyrftum á honum að halda. Ekki var gefinn afsláttur þegar kom að stundvísi, pússuðum skóm, straujuðum fötum né hreinum bílum. Hann gerði okkur ljóst að okkur væru allir vegir færir en hver og einn skapaði sína framtíð. Hann hafði óbilandi trú á okkur og ætlaðist til þess að við stæðum okkur vel en mest lagði hann áherslu á að við kæmum fallega fram við aðra. Hann vildi að við værum sjálfstæð. Hann sendi okkur ung utan að læra tungumál og til að vinna. Það gat reynt á en lífsreynslan var dýrmæt og pabbi hughreysti og okkur hvatti okkur áfram.

Við systkinin, börnin okkar og langafabörnin höfum alltaf verið velkomin á fallega heimilið þeirra pabba og Maju. Þar voru haldnar skemmtilegar og glæsilegar veislur og árlega héldu þau afmælisveislu í minningu ömmu Rannveigar, þar sem stórfjölskyldan naut sín.

Í seinni tíð fórum við saman í veiðiferðir og allt árið talaði hann um hvað hann hlakkaði til, hvort þetta væri ekki örugglega pottþétt, allt bókað og sendi fundarboð ár fram í tímann. Þá stjórnaði hann tónlistinni, Supertramp, Eagles eða Queen, sem kom honum alltaf í dansgírinn. Hann naut þess að vera samvistum við börnin sín og að prakkarast með okkur allt til enda hans veraldar.

Við sjáum hann fyrir okkur syngjandi glaðan með fallega brosið, heilbrigðan og sælan. Guð varðveiti minningu hans.

Sigfús Bjarni, Margrét Ása, Rannveig, Guðrún Helga, Ingimundur Sverrir, Stefán Þór, Aðalsteinn.

Elsku afi minn sem ert nú á himnum.

Frá því ég fæddist hefurðu alltaf passað að sýna mér hversu yndisleg og falleg stelpa ég væri. Þrátt fyrir að þú ættir fjölmörg barnabörn léstu hverju og einu líða eins og við værum það eina. Í hverju símtali fékk ég að heyra hversu mikið þú elskar mig og hversu falleg og góð ég er. Það lét mig alltaf brosa og ég mun að eilífu sakna að fá svona frá afa. Þú varst algjör nagli og ég var stolt að kalla þig afa minn. Þú varst ótrúlega duglegur og ákveðinn maður og ég mun alltaf líta upp til þess. Ég man eftir öllum afmælum þar sem við mættum öll stórfjölskyldan heim til þín og Mæju og lékum og lékum þar sem húsið var svo líflegt. Það var svo gaman að heyra þig kalla okkur öll bara eftirnöfnum okkar til að ná í okkur sem krakka. Tyrklandsferðirnar voru mínar uppáhalds og ég man hvað þér fannst gaman þar því þér fannst alltaf svo gaman að sjá alla sem þér þótti vænt um hafa gaman.

Takk fyrir að gefa okkur öllum svona góðar minningar sem við munum aldrei gleyma.

Ég sakna þín mikið afi, hvíldu í friði.

Þín

Kristjana Guðrún.

Elsku afi Sigfús.

Þú varst alltaf svo glaður að sjá mig þegar ég kom í heimsókn til þín, þú sagðir alltaf hvað ég væri yndisleg, falleg, góð og endurtókst það að minnsta kosti sjö sinnum. Þú lést mig svo oft fara að hlæja og brosa. Ég elskaði að leika með dótabílana sem þú áttir. Mér fannst alltaf svo gaman að koma í heimsókn til þín og svo að leika við hundana þína, Jónatan og Kasper. Svo laumaðist ég alltaf í nammiskúffuna þína til að gá hvað þú ættir gott þar.

Ég var svo heppin að eiga þig sem afa. Nú geturðu hvílt þig í draumalandi.

Þín afastelpa,

Rannveig.

Fyrir mér var afi minn og pabbi mömmu ekki endilega sama manneskjan. Það er sagt að hver og einn upplifi sömu manneskjuna á mismunandi hátt. Í augum mömmu minnar var hann strangur en sanngjarn maður sem ól hana upp og kenndi henni á veg lífsins. Fyrir mér var afi skemmtikraftur sem vildi að hver dagur í lífi mínu væri sá skemmtilegasti. Þegar ég var yngri var ég alltaf að búa til teiknimyndasögur. Ég þurfti oft að pína fólk til að lesa sögurnar en ekki afa. Hann elskaði að lesa sögurnar mínar og í hvert skipti sem við hittumst spurði hann hvort ekki væri að koma framhald. Sumarbústaðaferðirnar með afa voru ógleymanlegar og þá sérstaklega þegar öll fjölskyldan kom saman og við héldum ólympíuleika og afi hvatti alla áfram og hélt með öllum. Uppi í sumarbústað lærðum við líka að meta góðan mat og afi kynnti mér svissneskt ostafondue sem er það besta sem ég veit. Það var líka alltaf gaman að fara með afa í bíltúr á glæsikerrum hans. Þegar ég varð eldri var skemmtilegast að heyra sögurnar hans. Uppáhaldssagan mín er sagan um þegar Bobby Fischer og Boris Spasskí komu til Íslands. Afi lánaði Boris bíl á meðan hann dvaldi á Íslandi. Afi og Boris urðu nokkuð góðir félagar. Íslendingar héldu alla jafna meira með Boris en Fischer og urðu því allir frekar leiðir þegar Fischer vann leik sinn á móti Boris. Boris fékk bíl frá Heklu og margir gáfu honum gjafir sem voru geymdar í bílnum hans þegar hann var fluttur til Rússlands. Ég er mjög þakklátur fyrir þig afi, ég elska þig endalaust.

Þinn

Sigfús.

Elsku besti afi minn, það er ekki hægt að lýsa þér í fáum orðum. Eins og það er ekki hægt að lýsa tilfinningunni sem ég fann alltaf þegar ég hitti þig. Flottasta, klárasta, besta stúlkan í þessum heimi sem gæti allt. En veistu afi, þannig leið okkur öllum í kringum þig og það er það sem gerir þig að besta afanum. Ég mun aldrei gleyma þér, elsku afi, og ég mun vera sú manneskja sem þú hafðir trú á.

Þín alltaf,

Björg Margrét.

Sigfús var mér alltaf mjög kær, síðan ég var lítill drengur kom hann alltaf fram við mig af virðingu, vinsemd og jákvæðni. Hann ávarpaði mig alltaf með orðunum „frændi minn“ þegar við hittumst, sem mér þótti afar vænt um. Mér er minnisstætt þegar hann kom með fjölskyldu sína til Skagastrandar þegar ég var gutti, það gustaði alltaf af honum mikil kæti og gleði. Ég var 13 ára þegar við hittumst í brúðkaupsveislu systur minnar, þá bauð hann mér að koma og hitta sig á skrifstofu sinni í bílaumboðinu Heklu. Eftir þann fund gerði hann mig að sölumanni á vegum Heklu á Skagaströnd, það var þá sem traustið mótaðist sem ég fann að hann bar til mín alla ævi. Síðar sama dag býður hann mér heim til sín á Starhaga þar sem hann kynnir mig frekar fyrir syni sínum Sigfúsi Bjarna. En Sigfús í Heklu gerði í því að við frændurnir yrðum vinir í lífinu.

Ég minnist þess að einn veturinn fórum við margar helgar austur fyrir fjall að smíða sumarbústað fjölskyldunnar. Þar kom í ljós hversu vel Sigfús hélt mannskapnum við efnið með gleði sinni, aukinheldur veitti hann vel í mat og drykk. Öllum var boðið á laugardagskvöldum á Inghól, þar sem mikið fjör og gleðskapur ríkti. Þegar við hittumst í vinnunni hans gaf hann sér ávallt tíma í að spjalla við mig þótt það væri nóg að gera á skrifstofunni, þannig var Sigfús í Heklu.

Þegar við Sigfús Bjarni sonur hans ákváðum að fara út í viðskiptarekstur saman, og festum kaup á ALP-bílaleigunni, er mér það einstaklega minnisstætt þegar við ræddum við Sigfús í Heklu í símann. Þá segir hann við okkur að hann leggi mikla blessun yfir það að við værum að fara í þennan rekstur. Sú blessun hefur fylgt okkur allar götur síðan.

Árið 2010 kaupum við Sigfús, Sigfús Bjarni og bróðir minn, Sigurður, Hertz-bílaleiguna. Þar sátum við í stjórn saman í mörg ár, og allir stjórnarfundir voru haldnir í aðstöðu Sigfúsar, sem hann kallaði Notting Hill. Hann passaði ávallt upp á að hafa létt og jákvætt andrúmsloft á þeim fundum. Oftar en ekki sagði hann við okkur „þið megið ráða þessu elskurnar mínar“, en það ríkti endalaust traust til okkar, meðeigenda hans, frá honum. Hann var ávallt mikill bílamaður, enda alla tíð kenndur við Heklu, það var yndislegt að fara með honum að prófa nýju bílana hans. Hann hafði unun af hröðum akstri og mér leiddist það ekki þegar frændi minn sagði við mig: „Ætlarðu ekki að botna bögluna?“

Sigfús, minn kæri frændi, þú varst einstakur á svo marga vegu. Mér þótti afskaplega vænt um þig og ég fann að sú tilfinning var gagnkvæm. Ég vil þakka fyrir öll jákvæðu símtölin í gegnum tíðina. Fyrir jólin síðastliðin var síðasta skiptið sem við fórum tveir saman út að borða, það var yndisleg stund. Ég er þakklátur fyrir að við gáfum okkur góðan tíma þar saman, en ég vissi ekki þá að þetta yrði í síðasta skiptið minn kæri. Takk fyrir alla þína vináttu, velvild og frændsemi, og fyrir að taka mér svo vel að mér leið alla tíð vel í návist þinni.

Með virðingu og þökk,

Hendrik Berndsen.

Hjartkær frændi minn og æskuvinur, Sigfús Ragnar Sigfússon, sem við kveðjum í dag, fæddist inn í dásamlega kærleiksfjölskyldu. Víðimelur 66 var einstakt hús sem hýsti marga, hús fullt af birtu. Þar voru foreldrarnir Rannveig og Sigfús í öndvegi, ástfangin og samstiga. Börnin Ingimundur elstur, þá Sverrir, Sigfús yngri og einkadóttirin Margrét. Niðri í kjallara bjuggu elskulegu hjónin Katrín móðursystir Rannveigar og hennar maður. Líka Soffía, sérstök vinkona en þeim óskyld, sem bjó alltaf í þessu góða fjölskylduhúsi.

Við Fúsi frændi minn vorum nánast alin upp saman. Feður okkar sem „bræður“. Reyndar voru þeir ekki bræður heldur var Sigfús eldri fyrsta barnabarn ömmu Ásgerðar og afa Björns í Núpsdalstungu og pabbi minn yngsti sonurinn í Tungu. Samgangur fjölskyldna okkar náinn og mikill árið um kring. Mömmur okkar bestu vinkonur. Öll sumur sælustundir með stórfjölskyldunni á Þingeyrum eða í Miðfirðinum. Mér finnst í minningunni ég aldrei hafa vitað önnur eins frændbönd og í okkar föðurfjölskyldu, nema kannski í grísku bíómyndinni Zorba. Alltaf verið að faðma okkur börnin og gleðjast hvern dag. Fjölmenn matarboð í borg og í sveit.

Sigfús yngri frændi minn var fjörugur og fyndinn strákur. Fullur af góðum hugmyndum og orðheppinn. Mér fannst hann skemmtilegastur. Fræg er sagan af honum ungum hvernig hann sá fyrir sér framtíð þeirra systkinanna á Víðimelnum. Hann sagði: Indi fær Þingeyrarnar, Sterri fær Caterpillar, Magga giftist og ég fæ forstjórastólinn hans pabba! Orð eru álög. Faðirinn Sigfús Bjarnason frændi minn var risi í viðskiptalífi Reykjavíkur. Kom ungur til höfuðborgarinnar með tvær hendur tómar. Byggði upp stórveldi af bjartsýni og elju með sinni yndislegu konu Rannveigu. Orð eru álög. Sigfús yngri frændi minn tók við Heklu, hann settist í forstjórastólinn, Hekla blómstraði. Lífið er fullt af tilbrigðum.

Samgangur okkar Fúsa minnkaði með árunum. Hann hafði sína stóru fjölskyldu, dásamlegu börnin öll. Það urðu breytingar á högum hans rétt eins og hjá mér. Ég flutti á landsbyggðina og bý þar enn. Fjarlægð og áratugir breyttu aldrei vináttunni sem bjó í hjörtum okkar frændsystkinanna. Ég þakka honum af alhug allar góðu minningarnar með fólkinu okkar kæra, ég þakka samferðina. Guð umvefji Maríu konuna hans og stóra afkomendahópinn þeirra. Veri Sigfús Ragnar Sigfússon góðum Guði falinn.

Helga Mattína
Björnsdóttir, Dalvík.

Sigfús fyrrverandi svili minn og vinur lést 29. apríl eftir erfið veikindi undanfarin ár.

Stuttu eftir að við Sigfús kynntumst sóttum við nám hjá University of Maryland í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli og þurftum því í á annað ár að keyra saman tvisvar í viku til að sækja tíma í UMD. Á þessum ferðum okkar var margt spjallað og rætt, og þó við værum ekki alltaf sammála tókust með okkur góð kynni sem hafa enst allt fram til hins síðasta.

Vegna viðskipta minna á Vellinum hafði ég séð auglýst námskeið í stjórnun og fjármálum í háskóla á vegum hersins. Ég orðaði við Sigfús hvort þetta væri ekki áhugavert fyrir okkur. Ég hafði tæpast sleppt orðinu þegar hann hringir aftur og segir: Ég er búinn að athuga þetta suður frá og við getum komist inn.

Þarna birtist eitt helsta einkenni Sigfúsar, hann var afar fljótur að setja sig inn í mál og afar fljótur að taka ákvörðun. Þetta gilti fyrir hann sjálfan. En þeir sem unnu með honum eða fyrir hann fundu vel fyrir þessu og vissu að rekið yrði á eftir verkum og ákvörðunum sem búið var að taka.

Sigfús fór vel með fjármuni og lét það ekki trufla sig þó mikil umsvif væru í kringum hann. 1972 höfðum við samflot um inngöngu í Frímúrararegluna og studdumst þar við tengdaföður okkar Aðalstein Norberg og Jón Birgi Jónsson svila okkar.

Sigfús setti strax auglýsingu í smáauglýsingar Vísis (internetmarkað þess tíma) eftir notuðum kjólfötum. Við eyddum góðum tíma í að fara vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið, inn í fataskápa og svefnherbergi til að máta kjólföt, en ekkert passaði. Ég gafst upp og fór til klæðskera, en Sigfús hélt sínu striki. Þegar ég sýndi Sigfúsi nýju kjólfötin sagði hann: Ég fékk mín á hálfvirði miðað við þetta, auk þess fékk ég önnur ókeypis sem eru aðeins of stór núna, en gæti verið gott að eiga seinna ef þörf krefur.

Sigfús var mjög kappsamur maður. Ég minnist þess hve hreykinn hann var af því að losna undan stimpilklukkuskyldu hjá ISAL fyrir 100% stundvísi og viðveru. Keppnisskapið nýttist honum jafnt í stóru sem smáu.

Í mínum huga er það einkum tvennt sem mótaði Sigfús, það var stóra fjölskyldan hans og fjölskyldufyrirtækið. Hans gæfa var börnin, foreldrarnir og systkini hans sem voru honum næst.

Við Ingibjörg vottum Maríu Sólveigu, börnunum og öðrum skyldmennum innilega samúð, guð blessi góðan dreng.

Birgir Rafn Jónsson.

hinsta kveðja

Kjörinn til kraftaverka er kærleikurinn einn.

(Davíð Stefánsson)

Elsku afi, takk fyrir hlýja faðminn þinn, takk fyrir allt og allt.

Marteinn Ragnar, Emma Sól og
Karitas Eva.