— Morgunblaðið/Brynjólfur Löve
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hringferðin Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is

Hringferðin

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Maður, vopnaður hjálmi og gulu öryggisvesti, gefur bendingar um að færa körfubílinn til hægri. Þetta blasir við fulltrúum Morgunblaðsins þegar þeir renna í hlað að Skeiði 1 á Ísafirði. Þar er á ferðinni Auðunn Pálsson sem fyrir löngu hefur hlotið viðurnefnið „hreppstjórinn“ á vettvangi smásölurisans Bónuss. Hann stýrir ekki daglegum rekstri verslunarinnar í Skutulsfirði en þessa dagana ræður hann ríkjum á svæðinu, enda stendur mikið til.

Öll hæðin undir

„Við erum að gera miklar betrumbætur á versluninni. Við erum að stækka hana úr 900 fermetrum í 1.200 og tökum við það undir okkur alla fyrstu hæðina í húsinu. Pólska búðin sem hefur verið hérna niðri færist upp á efri hæðina,“ útskýrir Auðunn þegar blaðamenn forvitnast um hvað valdi tilstandinu.

„Nýi Bónusgrísinn kemur hér á gaflinn og hann verður málaður í okkar litum. Auk þess erum við að gera breytingar á bílastæðunum. Málum nokkur bleik, sem ætluð eru barnafólkinu, og svo færum við ýmislegt í bleika litinn inni í versluninni eins og þróunin hefur verið upp á síðkastið,“ bætir hann við. Og hann hefur sannarlega yfirsýn. Eftir að hann brá búi á Snæfellsnesinu fyrir þremur áratugum hefur hann komið að endurbótum og standsetningu nær allra Bónusverslana landsins sem í dag telja á fjórða tuginn.

Stærri kælar

Hið aukna pláss sem verslunin hefur yfir að ráða eftir breytingarnar opnar ýmsa möguleika. Þannig er búið að koma upp nýjum 120 fermetra mjólkur- og kjötkæli af nýjustu gerð en hann var áður í 70 fermetra kælirými. Það verður nú tekið undir grænmetið.

„Með þessum breytingum verður allt mun rýmra hérna, en einnig með nýrri frystigeymslu sem við erum að koma upp. Og með þessu opnast margir nýir möguleikar. Vöruúrvalið eykst til muna,“ segir hreppstjórinn og bendir yfir mikið vöruúrvalið í mjólkurkælinum sem verið er að koma í rétt horf meðan á heimsókn Morgunblaðsmanna stendur. Er hann sérstaklega ánægður með hið mikla vöruúrval frá mjólkurframleiðandanum Örnu, sem er með aðsetur í næsta nágrenni, í Bolungarvík.

Tæknin kemur víða að

Auðunn segir að mikil framþróun hafi átt sér stað við uppbyggingu Bónusverslananna gegnum áratugina. Hins vegar séu ákveðin meginstef sem alltaf haldi sér, ekki síst nýtni. Bendir hann á að fyrirtækið hafi leitað bestu lausna á hverju sviði. Í mjólkurkælinum eru meðal annars lágar hillur sem keyptar voru frá Tyrklandi. Vöruhillur um alla verslunina eru hins vegar íslensk smíði sem nýtist vel.

„Í hvert sinn sem verslun er opnuð eða tekin í gegn eru hillur fluttar í aðrar verslanir, gerðar upp, málaðar og standsettar. Svo eru það grænmetisrekkarnir sem eru skáhallandi. Þetta eru hillur sem við létum smíða með okkar þarfir í huga og þær hafa dugað fyrirtækinu gríðarlega vel,“ segir Auðunn.

Alþýðuverðlaun

Og hugurinn hvarflar til fyrri tíðar. Auðunn man upphaf rekstursins á Ísafirði eins og gerst hafi í gær.

„Það voru undirskriftasafnanir. Fólk vildi fá lágvöruverðsverslun vestur. Jóhannes tók ákvörðun um það eins og hann átti til. Byggði það á tilfinningu. Og við bara opnuðum. Viðtökurnar voru frábærar þarna 1999. Síðar var Jóhannesi veitt viðurkenning frá vestfirskri alþýðu sem Jón Fanndal Þórðarson hafði forgöngu um. Það var hátíðleg stund og honum var afhent málverk eftir Reyni Torfason, bæjarlistamann Ísafjarðar.“ Hvarf verkið af sjónarsviðinu um alllangt skeið en með rannsóknarvinnu hafði Auðunn upp á því og verður því komið fyrir í versluninni þegar hún verður formlega opnuð í sumar.

Höf.: Stefán E. Stefánsson