Árni Björn Árnason verkefnastjóri fæddist 18. ágúst 1935 í Kaupmannahöfn. Hann lést á Akureyri 21. apríl 2024.

Foreldrar Árna Björns voru hjónin Árni Björn Árnason héraðslæknir á Grenivík, f. 18. október 1902, d. 15. ágúst 1979 og Kristín Þórdís Loftsdóttir húsmóðir, f. 3. júlí 1905, d. 12. júní 1987.

Systkini hans voru Helga Guðrún Árnadóttir, f. 16. september 1937, d. 8. desember 2022, Loftur Jón Árnason, f. 1. nóvember 1941 og Líney Árnadóttir, f. 26. apríl 1947, d. 14. júlí 1951.

Börn Árna Björns sem hann átti með eiginkonu sinni Þóreyju Aðalsteinsdóttur, f. 27. maí 1938, d. 11. febrúar 2024, eru: 1) Líney Árnadóttir, f. 1957, maki Magnús Jósefsson, f. 1953. Börn þeirra: Tinna, f. 1981, Telma, f. 1983, Jón Árni, f. 1991 og Hjörtur Þór, f. 1994. 2) Kristín Sóley Árnadóttir, f. 1959, maki Kristinn Eyjólfsson, f. 1946. Börn þeirra: Sif Erlingsdóttir, f. 1983, Almarr Erlingsson, f. 1985 og Styrmir Erlingsson, f. 1988, Hrólfur Máni Kristinsson, f. 1973, Stefán Snær Kristinsson, f. 1977 og Grétar Orri Kristinsson, f. 1980. 3) Aðalsteinn Árnason, f. 1968, maki Guðrún Jóhannsdóttir, f. 1960. Dóttir þeirra: Guðrún Íris Úlfarsdóttir, f. 1981. 4) Laufey Árnadóttir, f. 1973, maki Juan Ramón Peris López, f. 1965. Börn þeirra: Lydia Miriam Peris Herrero, f. 1986 og Álvaro Peris Árnason, f. 2007. 5) Þórey Árnadóttir, f. 1975, maki Höskuldur Þór Þórhallsson, f. 1973. Börn þeirra: Steinunn Glóey, f. 2003, Fanney Björg, f. 2006 og Þórhallur Árni, f. 2008. Langafabörnin eru orðin 16.

Árni Björn og Þórey bjuggu sér fallegt og líflegt heimili þar til leiðir skildi árið 1991, þá þegar rík af börnum og barnabörnum.

Árni Björn ólst upp á Grenivík en fór ungur til náms á Akureyri og bjó þar allar götur síðan fyrir utan þau ár þegar hann var við nám í vélvirkjun á Patreksfirði.

Árni Björn átti farsælan 40 ára starfsferil hjá Slippstöðinni á Akureyri en þar gegndi hann lengst af störfum sem verkstjóri í vélsmíðadeildinni og síðar sem verkefnastjóri.

Við starfslokin hjá Slippstöðinni 2004 má segja að Árni Björn hafi fundið sér nýjan starfsferil en þá sneri hann sér enn frekar að ritstörfum. Hannaði hann einnig og byggði upp yfirgripsmikinn vef um bátasmíðar á Íslandi, www.aba.is.

Árni Björn var lengi í forsvari fyrir Verkstjórafélag Akureyrar og Verkstjórasamband Íslands þar sem hann var gerður að heiðursfélaga. Hann var einnig ritstjóri og ábyrgðarmaður Verkstjórans í nær þrjá áratugi og í ritnefnd að sögu Verkstjórasambands Íslands.

Árni Björn var mikill fjölskyldu- og útivistarmaður. Fyrri hluta ævinnar stundaði hann stangveiði, skotveiði og skíðaiðkun. Skíðaáhuginn varð síðan að dýrmætu fjölskyldusporti. Á seinni hluta ævinnar sneri hann sér að golfiðkun.

Útför Árna Björns fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 10. maí 2024, kl. 13.

Ég kynntist Árna Birni fyrir 30 árum. Í fyrstu heimsókn minni til Íslands, þegar ég kom með Laufeyju til Akureyrar, horfði hann hvorki í augun á mér né talaði beint til mín. Ég held að hann hafi vantreyst þessum dökkeyga suðræna manni sem hafði borið dóttur hans á brott og hélt henni fangaðri í mörg þúsund kílómetra fjarlægð.

Síðar, í minni annarri heimsókn, nýtti ég mér fjarveru Laufeyjar, horfði beint í augu hans og sagði honum að efast ekki um að ég myndi alltaf koma vel fram við dóttur hans. Frá þeirri stundu breyttist allt. Það var upphafið að einlægu sambandi sem var fullt virðingar, vináttu og ástúðar sem varað hefur óslitið til dauðadags. Ég er enn mjög stoltur af því að hafa áunnið mér traust hans.

Hann heimsótti okkur nokkrum sinnum til Spánar þar sem við ferðuðumst með honum um norðurhluta landsins. Keyrslan var okkar sameiginlega áhugamál. Ég ók með honum þúsundir kílómetra, marga á Spáni á ógnarhraða og marga aðra á Íslandi, þar sem hann gaf mér landslag og ótal sögur. Ég held að ég geti státað af því að vera sá eini sem hann bauð óumbeðinn að keyra Carismuna sína, heiður sem ég ekki mun gleyma. Ég mun heldur aldrei gleyma gagnkvæmu trausti okkar og einlægni í öllum efnum og undir öllum kringumstæðum, sérstaklega þegar við vorum einir, þar sem við töluðum hreint og beint á einfaldri ensku. Ég var líka alltaf glaður að geta kastað á hann kveðju og séð hann frá Madrid á tölvuskjá konunnar minnar á morgnana.

Þegar við Laufey giftum okkur í Laufási árið 1998 komu margir vinir okkar frá Spáni og við ferðuðumst nánast um allt Ísland á meðan við brölluðum hitt og þetta þar sem Árni Björn tók þátt í öllu. Við fórum t.d. í hestaferð þar sem ég féll af baki, óvanur sérkennilegum gangtegundum íslenskra hesta. Ég lá hreyfingarlaus á jörðinni í nokkrar mínútur eftir fallið og mun aldrei gleyma svipnum á andliti tengdaföður míns þegar hann kom til að hjálpa mér að standa upp. Augu hans virtust segja: „Þau bara voru að giftu sig og ég er strax búinn að missa tengdasoninn.“ Hann var ekki svo heppinn! Árin hafa liðið og við höfum deilt mörgum gleðistundum, nokkrum sorgarstundum líka og ég man ekki eftir að hann hafi nokkurn tíman sagt við mig illt orð. Þó ég ætti ekki skilið hversu almennilegur og góður hann var við mig verð ég alltaf þakklátur fyrir okkar samband.

Við munum ekki lengur reykja Winston-sígaretturnar hans saman, ekki heldur mínar, sem hann kallaði fjallaloft. Hann mun ekki lengur sýna mér firðina, fjöllin og árnar. Við munum ekki lengur keyra á 200 km hraða á spænskum þjóðvegum. Allt hverfur og ekkert stendur eftir, nema í minningunum. Árni, ég á eftir að sakna þíns breiða hláturs, hreinu augnanna þinna, góðvildar þinnar, visku þinnar og okkar leynilega bróðurþels. Þú munt aldrei flýja úr minningu minni né frá ást minni.

Juan Ramón.

Elskulegur tengdafaðir minn kvaddi þennan heim þann 21. apríl sl. sáttur.

Allt frá því að leiðir okkar lágu saman fyrir um 30 árum vann hann hjá Slippnum á Akureyri sem verkefnastjóri. Mér var snemma ljóst að Árni Björn bjó yfir þeim hæfileikum að fá menn til að vinna með sér og að hann væri góður verkstjóri.

Hann var hreinskilinn og hafði sterkar skoðanir á því hvernig vinna ætti tiltekin verk en um leið fljótur að skipta um skoðun ef góð tillaga til úrbóta var lögð fram og ef eitthvað hefði mátti betur fara leiðbeindi hann í rétta átt. Árni Björn var nefnilega einn af þeim tjá sig helst ef þeir telja sig hafa eitthvað gott til málanna að leggja sem gæti orðið til lærdóms eða gagns. Hann var í senn traustur og hlýr en um leið vandvirkur og vildi að menn hefðu skilning á því sem verið var að vinna að.

Eftir að Árni Björn hætti að vinna um sjötugt viðhélt hann ástríðu sinni á bátum og bátasmíði. Lengi vel hélt hann áfram að mæta í hádeginu í Slippinn til að fá upplýsingar um hvaða skipum væri verið að breyta og bæta en byrjaði fljótlega að taka saman upplýsingar um alla báta sem smíðaðir voru í Eyjafirði. Þegar því verki var lokið var allt Norðurlandið undir og svo seinna allt landið. Það væri hending ein ef sá bátur hefur verið smíðaður hér á landi og þekkt væri til sem Árni Björn hefði ekki gert skil á vefnum sínum aba.is. Þar er ekki aðeins að finna upplýsingar um smíði og örlög einstakra báta heldur einnig skemmtilegar og fræðandi frásagnir þeim tengdar.

Þegar við fjölskyldan vorum fyrir norðan mætti Árni Björn alltaf snemma í kaffi og þá var farið yfir það sem var helst á baugi í samfélaginu, rifjaðar upp gamlar minningar eða sagðar sögur. Skemmtilegast var samt þegar Árni Björn sagði frá uppvaxtarárum sínum á Grenivík. Hann bjó yfir einstakri sagnagáfu og atburðir sem jafnvel áttu sér stað fyrir miðja síðustu öld, jafnvel úr seinni heimsstyrjöldinni, birtust manni ljóslifandi við frásögn hans.

Ég, Eyja og krakkarnir munum ekki aðeins sakna stundanna okkar fyrir norðan heldur allra símtalanna. Þó að umræðurnar snerust ekki um annað en fótbolta og golf, hversu góðir hans menn í Manchester United væru eða yrðu bráðlega, hvernig nýja golfsveiflan væri að virka og hvernig veðrið á Akureyri væri alltaf betra en spár gerðu ráð fyrir var alltaf gott að heyra í honum hljóðið. Maður skyldi jú muna að sólin kemur alltaf upp næsta dag og það sé óþarfi að mála skrattann á vegginn. Hann sæi bara um að koma sér þangað sjálfur ef svo bæri við.

Ég minnist tengdaföður míns með hlýju og þakklæti fyrir allar okkar dýrmætu stundir og minningar. Aldrei bar skugga á samskipti okkar og hann reyndist mér einstaklega vel alla hans ævi. Hann var líka einstakur faðir og milli Eyju minnar og hans var sterkur órjúfanlegur þráður. Hann stóð þétt með henni og hún með honum.

Börnin okkar minnast líka afa síns sem var stríðinn og skemmtilegur. Afa sem sagði sögur og bjó til fiskibollur í dós. Afa sem þótti vænt um fólkið sitt og stóð með sínum.

Hvíl í friði, elsku Árni Björn, og Guð blessi þig.

Höskuldur.

Afi.

Við stöndum efst í Strýtunni og yfir Eyjafirðinum trónir Kaldbakur í vetrarklæðum og vakir yfir Grenivík. Það er kalt og frosnir fingur lauma sér í lófa afa sem rúllar þá af krafti á milli handa sér. Við rennum af stað, það er gott færi, sólin kyssir hvíta toppana og við heyrum rödd afa segja taktfast; stíga í ytra skíðið. Stíga, stíga. Þannig leiðbeindi afi okkur niður brekkur fjallsins. Og lífsins. Með hlýju, kímni og góðu dassi af stríðni.

Hjá afa var alltaf skjól sem hægt var að leita í. Hvort sem var í erfiðri prófatíð eða ástarsorg unglingsáranna. Afi bauð alltaf hlýjan faðm og hressti mann við með góðum sögum á meðan hann reykti í rólegheitum, smurði vænni klípu af smjöri á tekex, jafnvel á randalínu og sötraði bleksterkt kaffi úr bláa bollanum. Með minnst fjórum skeiðum af sykri í.

Bílferðir með afa voru órjúfanlegur hluti af tilverunni. Grenivíkurrúntar á æskuslóðir og afrekssögur úr barnæsku ásamt ævintýraferðum í fjöruna fögru. Fallegu steinana úr Grenivíkurfjörunni eigum við til minningar um það. Hann gaf sér alltaf tíma til að vera afi okkar. Galdraði fram stærðarinnar hús úr saltstöngum bara til að koma okkur á óvart og handskrifuð myndskreytt bréf birtust eitt af öðru í póstkassanum í sveitinni. Með sögum um sólmyrkva og flugvélina sem festist í skýjunum og afi þurfti að moka lausa.

Afi kunni að segja sögur og skapa með okkur skemmtilegar minningar. Hann hafði einstakt lag á að breyta gráti í hlátur og búa til skemmtisögur úr hrakförum okkar og skapgerð. Hló oft og mikið að því þegar Tinna tók tryllingskast í lausafönninni í fjallinu og kastaði skíðunum á undan mér niður alla brekkuna eða þegar Telma lærði snarlega að ef maður getur ekki komið sér í skíðaleppana á réttum tíma þá verður maður einfaldlega skilinn eftir. Hann minnti okkur á þessar stundir reglulega og gaf Telmu, ein jólin, bókina, Á morgun segir sá lati, með glott á vör. Þá benti hann okkur oft og iðulega á músaganginn í eldhússkápunum þegar mylsnuslóðin kom upp um kexstuld okkar systra.

Við rennum okkur niður fjallið undir dagslok með freknur og sólkyssta vanga. Alla leið niður úr á meðan afi rúntar rólega og hvetjandi við hlið okkar. Þegar heim er komið eldar afi fiskibollur í dós í rótsterkri karrýsósu. Leyniuppskrift sem ekki verður uppljóstruð hér. Hinn fullkomni dagur er á enda.

Við munum sakna símtalanna frá afa sem voru ófá. Um allt og ekkert. Heima og geima. Börnin og veðrið og bátana, alla bátana og golfið. Hvað sem á daga hans og okkar dreif. Stórt sem smátt. Og stundum bara til að gera boð á undan sér. „Helltu upp á kaffi. Ég er á leiðinni. Og hafðu það sterkt. Svo sterkt að hægt sé að skera það.“

Fallegi góði afi okkar. Við elskum þig meira en jörðina, sólina, tunglið og stjörnurnar og gleymum aldrei, eins og þú kenndir okkur svo vel, að sólin kemur alltaf upp að nýju.

Þú lifir í okkur.

Þínar afastelpur,

Tinna og Telma.

„Elsku, elsku besti afi í öllum heiminum, megum við koma og fá fiskibollur í dós á morgun? Við erum í Staðarskála, hlökkum til að sjá þig!“ Já, fiskibollur í dós matreiddar af afa voru töfrum líkastar. Það er að segja blanda af töfrum og sykri. Nóg af sykri.

Við krakkarnir höfum alltaf verið stolt af því þegar áttræður afi okkar renndi sér fimlega niður brekkur Hlíðarfjalls. Við fylgdum á eftir móð og másandi, því ekki var annað í boði, sama hvernig viðraði. Stundum varð rassinn blautur af vænni byltu og þá stóð ekki á afa að hlæja hátt og dátt af óförunum. Þá var staðið upp með bros á vör og haldið áfram.

Stundum voru litlir fingur og tær kaldar eftir fjallið. Þá nuddaði afi svo hressilega að við fengum sting í allan líkamann en okkur varð sannarlega hlýrra eftir á. Við vissum líka að eftir langan skíðadag með afa vorum við einu skrefi nær því að ná hinni sönnu mjúku og lipru Grenivíkurskíðasveiflu. Enda afi besti skíðakennarinn.

Afi var seigur í mörgu og kunni oft ráð sem aðrir bjuggu ekki yfir. Það fannst okkur krökkunum allavega þegar við hlupum með tárin í augunum en skælbrosandi til mömmu einni barnatönn fátækari eftir að afi hafði kippt henni úr á augabragði. Afa fannst mesta vitleysa að bíða ef tönnin var laus á annað borð og svo ætlaði hann bara aðeins að skoða, ekki snerta. Þessi kvöld vorum við mætt snemma í háttinn og biðum eftir tannálfinum full tilhlökkunar, allt afa að þakka.

Önnur kvöld var farið seinna í háttinn í bústaðnum yfir í heiði enda við í fríi. Afi passaði samt alltaf upp á að dagurinn væri ekki nýttur í vitleysu og mætti snemma.

Hann tók það sérstaklega að sér að vekja unglingana á heimilinu. Helst með smá hávaða og látum en líka með gleði og blíðu. Þegar vakningin var yfirstaðin settist hann niður og fékk sér morgunkaffi með sykri. Töluverðu af sykri. Þá fengum við að heyra sögur af bátum, skíðum, fjallaævintýrum og fjölskyldunni.

Það var nú ekki amalegt að eiga svona flottan afa. Afa sem var alltaf hjá okkur um áramót og afa sem rúntaði með okkur um Eyjafjörðinn þveran og endilangan. Ýmist fram á Þverá eða upp á Jaðar, út á Grenivík, niður á bryggju eða bara hvert sem honum datt í hug til að sýna okkur eitthvað merkilegt.

Á þessum ferðum kenndi afi okkur að lifa lífinu, horfa jákvætt fram á við og halda ótrauð áfram jafnvel þótt maður lendi stundum í slæmum byltum eins og á skíðunum.

Afi stóð við hlið okkar frá fyrsta degi. Þegar hann vissi að við værum að koma í heiminn steig hann upp í rauðu Carismuna sína og brunaði suður til að bjóða okkur velkomin. Honum fannst jú ekkert mál að keyra um landið sitt. Eitt sinn þegar við vorum farin að sakna afa minntumst við á að hann gæti jafnvel tekið strætó til Reykjavíkur ef hann væri hann þreyttur á öllum þessum akstri. Þá fussaði afi og var mættur daginn eftir í fantaformi. Þetta var jú ekkert mál.

Elsku afi. Í dag horfum við á eftir þér, keyra upp veginn í síðasta sinn, merktum ÁBÁ.

Við þökkum hlýhug og umhyggju. Elskum þig.

Þín afabörn,

Steinunn Glóey, Fanney Björg og Þórhallur Árni.