— Susan Wilkinson/Unsplash
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1 llmkerti – Skiptið út vetrarilmkertunum eða -ilmolíum fyrir léttari og vorlegri ilm eins og lavender, sítrustóna eða annan blómailm. 2 Afskorin blóm – Fátt er sumarlegra og fallegra en afskorin blóm í vasa

1 llmkerti – Skiptið út vetrarilmkertunum eða -ilmolíum fyrir léttari og vorlegri ilm eins og lavender, sítrustóna eða annan blómailm.

2 Afskorin blóm – Fátt er sumarlegra og fallegra en afskorin blóm í vasa. Kaupið litrík og ljós blóm, hortensíur eru til dæmis einstaklega fallegar. Þegar komið er aðeins lengra inn í sumarið er tilvalið að klippa blóm og greinar úr garðinum og setja í vasa, yllir og sýrenur eru með falleg blöð og blóm fyrri hluta sumars. Einnig er tilvalið að tína villt blóm og strá þar sem það má og setja í vasa.

3 Rúmföt – Yndislegt er að sofna í nýjum og hreinum rúmfötum. Setjið létta og ljósa liti utan um sængurnar og ekki er verra ef rúmfötin hafa verið þvegin og þurrkuð úti á snúru í vorblíðunni.

4 Púðar – Ásýnd stofunnar getur breyst töluvert bara við að skipta út púðum eða púðaverum. Setjið ljósa og ferska liti utan um púðana, einnig er gaman að breyta uppröðun þeirra. Ef notuð eru sófateppi er líka gaman að skipta þeim út fyrir ljósari liti eins og pastelbleikt eða grænt en auðvitað fer það eftir umhverfi hvaða litur passar.

5 Leirtau – Takið blómastellið út úr skenknum og notið það í eldhúsinu yfir sumartímann eða skiptið út bollum fyrir nýja og litríkari. Það þarf ekki að kaupa heilt stell, bara bæta við nokkrum sumarlegum bollum til að drekka kaffið úr.

6 Grænar plöntur – Fátt minnir eins mikið á sumar og grænar plöntur sem flestir eru með í einhverjum mæli á heimilinu. Nú er tími til að umpotta og taka afleggjara, kaupa nýjar og færa til enda breytist birtan og sumar plöntur þurfa að fara úr beinni sól í skugga og öfugt. Kaktusar eru skemmtilegir og minna heldur betur á hita og sól. Þeir eru sjaldnast dýrir og henta jafnvel fyrir þá sem drepa allar plöntur þar sem þeir þurfa afar litla vökvun.

7 Ný uppröðun – Það kostar ekkert að endurraða og færa hluti til í bókahillunni eða á skenknum. Stundum er líka gott að grynnka aðeins á hlutum og létta þannig á rýmum, þannig fá þau oft léttari og ferskari blæ. Bókum má til dæmis litaraða og einnig má fækka þeim og setja fallega hluti með í hilluna í staðinn.

8 Nýr dúkur – Fallega bleikur hördúkur eða blómadúkur getur gert mikið fyrir eldhúsrými og borðstofur. Dúkar þurfa ekki að vera dýrir, þeir fást á ágætisverði í mörgum húsgagnaverslunum.

9 Ávextir og kryddjurtir – Fallegir ávextir í skál minna á sumarið, þeim er hægt að litaraða en einnig er smart að hafa blandaða liti, margir ávextir þroskast vel í stofuhita svo passa þarf að borða þá í tíma. Margar kryddjurtir er auðvelt að rækta í eldhúsglugganum; basilíku, kóríander eða rósmarín er nokkuð auðvelt að rækta í glugganum heima. Passið að margar kryddjurtir þurfa alltaf að standa í smávegis vatni, tilvalið er að vökva þær með morgunkaffinu.

10 Bast og strá – Þurrkuð strá og bastmunir minna á náttúruna og sumarið en víða er hægt að kaupa fjölbreytt úrval af stráum. Bastkörfur undir blóm eða speglar úr basti geta létt á rýmum og gert þau sumarlegri.