Innanhússarkitektinn Hanna Stína sá um hönnun.
Innanhússarkitektinn Hanna Stína sá um hönnun. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Húsið er 238 fm að stærð og var byggt 2021 af ungu pari sem á tvö lítil börn. Húsfrúin segir að þau séu mjög hvatvís. Þau hafi keypt lóð og byggt hús án þess að velta sér mikið upp úr því. Þegar hún er spurð út í stílinn á húsinu segist hún hafa…

Húsið er 238 fm að stærð og var byggt 2021 af ungu pari sem á tvö lítil börn. Húsfrúin segir að þau séu mjög hvatvís. Þau hafi keypt lóð og byggt hús án þess að velta sér mikið upp úr því. Þegar hún er spurð út í stílinn á húsinu segist hún hafa fengið mikinn innblástur þegar hún kom inn í þakíbúð í Garðabænum og langað í svipað heimili. Svo var Hanna Stína innanhússarkitekt kölluð til.

„Húsið er ákaflega fallegt nútímalegt einbýlishús teiknað af Davíð Pitt sem er alveg einstaklega hæfileikaríkur arkitekt,“ segir Hanna Stína.

„Húsið er í fullkominni stærð, hvorki of lítið né of stórt og grunnplanið er einstaklega vel heppnað. Rýmin eru öll vegleg. Það er nokkurs konar L-laga þar sem samverurýmin eru í öðrum vængnum og svo eru svefnherbergin í öðrum rýmum. Húsið er þannig hannað að það myndast þetta einstaka skjól í miðjunni, þar sem garðurinn er. Það er þvílík sæla að sitja þar úti á góðum degi,“ segir Hanna Stína.

Hvað vildu húsráðendur að þú kallaðir fram?

„Þau vildu nútímalegt en móðins fjölskylduheimili. Húsfrúin er þekkt fyrir að hafa smart í kringum sig og hún vildi hafa þetta glamúrus. Heimilisfaðirinn er duglegur að framkvæma sjálfur þannig að hann sagði bara alltaf já við okkur tvær og hófst svo handa. Þau vildu einnig hafa dökkar innréttingar, en annars fékk ég mjög frjálsar hendur sem ég er alltaf glöð með,“ segir Hanna Stína og hefur orð á því að skipulagið á húsinu sé svo gott og það hafi auðveldað henni sína vinnu.

„Það var gott samstarf milli mín og Hönnu Stínu. Hún benti mér á að gera Pinterest-síðu með óskum mínum. Ég vildi nota ask í innréttingarnar og kom með alls konar pælingar. Hún teiknaði þetta upp og betrumbætti mínar pælingar. Hún náði að koma mínu í gegn og gerði allt miklu meira grand. Hillurnar í eldhúsinu eru gott dæmi um það,“ segir húsfrúin.

Draumabaðherbergi inn af hjónasvítu

Hanna Stína hannaði baðherbergin í húsinu en hér má sjá baðherbergið sem er inn af hjónasvítunni.

„Ég er að blanda saman „limestone“-flísum og marmara og svo er dökkur viður í innréttingum, borðplatan er gerð úr „stucco“ og steinvaskur ofan á úr Heimili og Hugmyndum. Svo er frístandandi baðkar sem er áberandi og svo er sturtan „falin“ bak við spegilinn,“ segir Hanna Stína þegar hún er spurð út í baðherbergið. Á þessu baðherbergi eru einstaklega falleg dökk Axor-blöndunartæki frá Hansgrohe sem setja svip sinn á þessa paradís.

Húsfrúin segist vera sérlega ánægð með borðplötuna á baðherberginu en þau voru búin að fara í marga hringi varðandi hana.

„Við lentum í smá veseni með að velja borðplötu. Af því við erum með þennan marmaravegg á baðinu og svo eru flísar á móti sem eru langt frá því að vera hlutlausar. Það varð því eitthvað aðeins of mikið að hafa stein við. Ég var búin að vera með mjög mikinn hausverk yfir því hvaða borðplata passaði best. Ég var búin að fá 18 prufur af steini þegar ég frétti af steinefnasparsli. Það endaði með því að maðurinn smíðaði borðplötuna og setti „stucco“-efni á hana frá Sérefni. Þetta kostaði 24.000 krónur og er alveg vatnshelt. Hann setti þetta líka upp á vegginn fyrir ofan innréttinguna,“ segir húsfrúin alsæl með þessa ódýru lausn.

Litaðir speglar gefa svip

Það eru ýmis smáatriði í eldhúsinu sem eru töluvert óhefðbundin. Eins og spegillinn fyrir ofan vaskinn og hillurnar fyrir ofan bakaraofnana. Hanna Stína segist alltaf vera hrifin af því að brjóta upp innréttingarnar og búa til stemningu.

„Það er alltaf gaman að vera með opin hólf fyrir fallega muni, matreiðslubækur og svo framvegis. Þannig að þarna fann ég pláss fyrir það. Það var líka nóg geymslupláss í eldhúsinu þannig að ég setti litaðan spegil fyrir ofan vaskinn sem endurspeglar alla dýrðina í kring. Þarna er endalaust hægt að breyta um uppstillingar og gera fínt því ég veit að húsfrúin hefur gaman af því,“ segir Hanna Stína.

Í eldhúsinu er granítsteinn á borðplötunni sem heitir Cosmic Black.

„Við Hanna Stína vildum marmara en maðurinn minn gaf sig ekki með þetta. Hann vildi fá sterkt efni, granít eða kvars. Hann vildi ekki fá marmara sem yrði blettóttur eftir korter,“ segir húsfrúin sem er mjög ánægð með granítsteininn þótt hún hafi séð marmarann meira fyrir sér. Húsfrúin segist vera himinlifandi með eldhúsið og sérstaklega eyjuna.

„Mér finnst eyjan æðisleg. Við verjum miklum tíma inni í þessu eldhúsi. Mér finnst geggjað að hafa svona mikið vinnupláss og það kemur sér vel þegar við höldum veislur en mér finnst það mjög gaman. Þegar fólk kemur til okkar þá eru alltaf allir við eyjuna í eldhúsinu,“ segir húsfrúin.

Eldhús, stofa og sjónvarpsherbergi eru á sama blettinum en eru þó stúkuð af. Húsfrúin segir að þetta hafi verið hugmynd frá manninum sínum og hún sé mjög ánægð með útkomuna.

„Maðurinn minn vildi stúka stofuna af. Ég er mjög ánægð með að hafa þetta svona og ánægð með þetta sjónvarpshol. Börnin eru alltaf með þótt þau séu fyrir framan sjónvarpið,“ segir húsfrúin.

Stílhreint strigaveggfóður

Hanna Stína valdi strigaveggfóður á veggi í forstofunni sem setur mikinn svip á heimilið og gerir það ennþá hlýlegra.

„Ég er mjög sátt við fallega strigaveggfóðrið frá Sérefni sem kom í lokin og batt pallettuna og stemmninguna vel saman og ég er mjög ánægð með þetta verkefni í heild og þau hjónin líka,“ segir hún.

Hvernig upplifir þú strauma og stefnur dagsins í dag?

„Mér finnst „lúxus on a budget“ vera dálítið sterk stefna í dag. Það er að segja, maður er að vinna dálítið með það að fólk vilji hafa meiri textíl, áberandi marmara, efni, liti, mynstur, heita málma og meiri áferð í kringum sig án þess að það þurfi að kosta mikið. Allir þessir djúpu litir sem eru núna í tísku er algjörlega minn tebolli og það tímabil í hönnunarstíl sem er ríkjandi núna er svo mér að skapi í heild sinni,“ segir hún.

Hvað eru þínir kúnnar að biðja um?

„Góðar og sniðugar lausnir, gott skipulag, fallega stemmningu og eitthvað sem er bæði móðins en líka klassískt. Það er áskorun að feta þarna á milli en ég geri mitt besta,“ segir hún.

Höf.: Marta María Winkel Jónasdóttir |