Hryðjuverkasamtökin bera ábyrgð á ástandinu. Þau verður að uppræta

Ástandið á Gasa er skelfilegt og verður vart lýst með orðum. Þar ríkir stríðsástand, neyðarástand, og eðlilega hefur fólk samúð með þeim sem þar búa og verða að ósekju fórnarlömb aðstæðnanna. Þá er freistandi að vilja að hernaðaraðgerðir séu stöðvaðar, en er málið svo einfalt að þá falli allt í ljúfa löð og hægt sé að byggja upp heilbrigt samfélag í framhaldinu? Nei, því miður er málið flóknara því að hryðjuverkasamtökin Hamas, sem réðust inn í Ísrael 7. október í fyrra og myrtu á hrottalegan hátt á annað þúsund manns, auk þess að taka um 250 gísla og halda enn um helmingi þeirra, eru enn starfandi. Þau halda til, með fjögur herfylki að því er talið er, í síðasta vígi sínu, í borginni Rafah, nærri landamærum Egyptalands.

Hryðjuverkasamtökin Hamas hafa stjórnað Gasa í hátt í tvo áratugi eftir að hafa unnið einar kosningar og ekki leyft aðrar síðan. Þau hafa beitt ógnarstjórn, myrt andstæðinga sína og barið niður þá litlu andstöðu sem almenningur hefur þorað að sýna. Þá má aldrei gleyma því að þau standa fyrir viðurstyggilega hugmyndafræði þar sem konur eru kúgaðar og samkynhneigðir eru drepnir fyrir að vera eins og þeir eru. Þau fyrirlíta Vesturlönd og vestræna menningu, ekki síst stuðning okkar við jafnrétti kynjanna og almenn mannréttindi, réttarríki og fleira sem við teljum sjálfsagt. Allt er þetta eitur í beinum Hamas og annarra íslamskra öfgahópa sem vaxið hafa upp í Miðausturlöndum, einkum með stuðningi klerkastjórnarinnar í Íran, sem er rótin að mörgu því illa sem þar á sér nú stað.

Furðulegt er að fylgjast með skipulögðum mótmælum á Vesturlöndum til stuðnings þessum hryðjuverkasamtökum, til að mynda í bandarískum háskólum þar sem slíkur stuðningur hefur fengið að vaða uppi, ekki aðeins sem friðsæl lögmæt mótmæli áhyggjufullra námsmanna, heldur vel skipulagður stuðningur við Hamas og fjandskapur við Ísrael og gyðinga, sem hafa búið við ógn víða á háskólasvæðum í Bandaríkjunum, svo ótrúlegt sem það nú er. Meðal þeirra sem staðið hafa á bak við þessi mótmæli eru samtök sem heita því sakleysislega nafni Students for Justice in Palestine, Námsmenn fyrir réttlæti í Palestínu. Þau samtök fögnuðu morðæði Hamasliða 7. október og skipulögðu aðgerðir þegar í framhaldi af þeim óhugnaði, áður en Ísraelsher brást við.

Ekki má heldur gleyma því að ástæða þess hve hægt og erfiðlega gengur að ráða niðurlögum Hamas-samtakanna er að þau hafa alla tíð, og gera enn, byggt varnir sínar og öryggi á að vera í skjóli almennings. Þessu var lengi neitað, en eftir að Ísraelsher hefur fundið og sýnt mikið af göngum og neðanjarðarbyrgjum, meðal annars undir skólum, skrifstofum UNRWA, hjálparsamtaka SÞ, og sjúkrahúsum, þá er engum blöðum um þetta að fletta lengur. Hryðjuverkasamtökin hafa líka hindrað almenning í að flýja þegar Ísraelsher hefur opnað möguleika á það, sem hann hefur iðulega gert til að forðast mannfall eins og frekast er unnt. En þegar hryðjuverkamennirnir vilja að sem flestir falli þar sem áróður þeirra byggist ekki síst á því að birta tölur um slíkt, að vísu mjög vafasamar, og þar með að Ísrael beri að hætta aðgerðum sínum, þá er erfitt við þetta að eiga. Það þýðir þó ekki að Ísrael beri að hætta aðgerðum og láta hryðjuverkamönnunum Gasa eftir og leyfa þeim að byggja sig upp á nýjan leik.

Framtíðin getur ekki falist í því að hryðjuverkasamtökin Hamas, eða aðrir útsendarar Írans eða ámóta illþýði, geti áfram haldið úti starfsemi á Gasa og ógnað þannig Ísrael og kúgað íbúa svæðisins. Eina lausnin er að uppræta hryðjuverkasamtökin Hamas og um leið að setja aukinn þrýsting á írönsk stjórnvöld um að hætta að ýta undir ófrið í Miðausturlöndum. Ísraelsmenn hafa hafið takmarkaðar aðgerðir í Rafah og meðal annars fundið göng sem notuð hafa verið til að smygla vopnum inn á svæðið. Slíkar aðgerðir þurfa að halda áfram eigi að ráða niðurlögum hryðjuverkamannanna, en þær verður vitaskuld að framkvæma af varúð og Ísrael hefur til að mynda dreift miðum á svæðinu þar sem íbúarnir eru hvattir til að færa sig yfir á öruggt svæði sem búið er að útbúa utan Rafah og þar sem hryðjuverkamennirnir njóta ekki skjóls af almennum borgurum líkt og þeir vilja. Allt er þetta flókið í framkvæmd og hættulegt, en í stað þess að gagnrýna Ísraelsmenn fyrir að vilja ljúka við að uppræta hryðjuverkasamtökin Hamas ættu Vesturlönd að styðja þá í þeirri viðleitni og um leið að aðstoða þá eins og frekast er unnt við neyðaraðstoð við almenning og að forðast mannfall meðal almennra borgara.