[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Búið er að selja rúman helming íbúða á þremur þéttingarreitum í miðborg Reykjavíkur.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Búið er að selja rúman helming íbúða á þremur þéttingarreitum í miðborg Reykjavíkur.

Alls hafa verið seldar 68 íbúðir af 133 á reitunum þremur, samkvæmt söluvefjum verkefnanna, og hafa þar af 28 íbúðir selst frá áramótum (sjá graf).

Flestar íbúðanna hafa selst í Borgartúni 24 en þar hafa selst 35 af 64 íbúðum. Þá eru meðtaldar tvær þakíbúðir, íbúðir 701 og 702, en ásett verð þeirra var 179,9 og 159,9 milljónir króna. Þá hafa selst 19 íbúðir af 35 á Snorrabraut 62 og 14 íbúðir af 34 í Skipholti 1.

Fasteignafélagið Snorrahús byggir húsið á Snorrabraut.

Kristinn Þór Geirsson, framkvæmdastjóri Snorrahúsa ehf., segir eftirspurnina hafa glæðst að undanförnu. Hann vænti þess að hafa selt flestar íbúðanna í sumarlok.

Fjórtán hækkanir í röð

Þegar ViðskiptaMogginn ræddi við Kristin Þór í nóvember síðastliðnum sagði hann koma til greina að taka óseldar íbúðir á Snorrabraut úr sölu og geyma á lager þar til stífla Seðlabankans brysti. Með því vísaði Kristinn Þór til vaxtastefnu Seðlabankans en hann áætlaði að nafnverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu myndi hækka um 25% á næstu tveimur árum.

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í fyrradag að vextir yrðu óbreyttir. Meginvextir verða því áfram 9,25% en vextirnir voru hækkaðir úr 8,75% í 9,25% hinn 23. ágúst síðastliðinn og hafa verið óbreyttir síðan. Það var fjórtánda hækkun Seðlabankans í röð frá maí 2021.

Kristinn Þór segir ákvörðun Seðlabankans í sjálfu sér ekki koma á óvart.

Hið háa vaxtastig muni hægja á uppbyggingu nýrra íbúða. Fyrir vikið verði minna framboð á markaðnum en ella þegar vextirnir fari að lækka. Það sé til þess fallið að þrýsta upp íbúðaverði samkvæmt lögmáli framboðs og eftirspurnar, þegar vextir lækka.

Sagan sé að endurtaka sig hjá Seðlabankanum. Bankinn gangi jafnan lengra en þörf krefur þegar hagkerfið er kælt með handafli með vaxtahækkunum.

Margir að skoða eignir

Jason Kristinn Ólafsson, löggiltur fasteignasali hjá Betri stofunni fasteignasölu, segir líf á fasteignamarkaði og að margir séu að skoða eignir.

Af hverju er góð sala?

„Það er góð spurning. Það er ekki út af vöxtunum. Það er alveg ljóst. Ég held að það sé ekki einhlítt svar við því. Ein skýringin er að það vantar almennt eignir. Þá þurfa margir að stækka við sig eins og gengur. Það er vöntun á góðum eignum. Ef maður er með góða eign í sölu selst hún að mínu mati frekar hratt.

Staðsetningin skiptir líka miklu máli. Sumir vilja til dæmis bara vera í Mosfellsbæ eða úti á Seltjarnarnesi.“

Mikið spurt um eignir

Nýjar íbúðir í Borgartúni, á Snorrabraut og í Skipholti eru að tínast út. Er það heilbrigðismerki fyrir markaðinn?

„Já, í dag eru nokkrir íbúðakjarnar að byggjast upp í borginni. Þar með talinn Heklureitur, sem er kominn í forsölu. Það er töluverður áhugi á Heklureitnum og fólk er að spyrja mikið um þær íbúðir. Það er líka áhugi á nýjum íbúðum við Grensásveg.“

Hvernig sérðu fyrir þér sumarið?

„Ég held að það haldi áfram að ganga vel. Fólk er mikið að spá í vextina og þeir eru háir. En það kemur að því að þeir fari að lækka. Margir vilja vera tilbúnir, eða hafa fest sér eign, áður en það gerist þannig að ég er bjartsýnn á sumarið.“

Það er því ekki offramboð á nýjum íbúðum á þéttingarreitum?

„Ekki ef marka má góða endursölu á íbúðum á Austurhöfn og í Skuggahverfinu. Fermetraverð á góðum eignum er þar farið að skríða yfir 1.800 þúsund. Það eru fleiri kaupendur að slíkum íbúðum en maður hefði átt von á.“

Þannig að fermetraverðið er að nálgast 2 milljónir?

„Já, hægt og rólega. Það hefðu fáir trúað því fyrir nokkrum árum,“ segir Jason Kristinn að lokum.