„Ekkert sem ég hef orðið áskynja enn sem komið er,“ svarar Berglind Eva Benediktsdóttir, deildarforseti lyfjafræðideildar Háskóla Íslands (HÍ), spurð hvort hún hafi orðið vör við óánægju meðal nemenda í faginu sem munu útskrifast 15

„Ekkert sem ég hef orðið áskynja enn sem komið er,“ svarar Berglind Eva Benediktsdóttir, deildarforseti lyfjafræðideildar Háskóla Íslands (HÍ), spurð hvort hún hafi orðið vör við óánægju meðal nemenda í faginu sem munu útskrifast 15. júní og fá að öllum líkindum ekki starfsleyfi fyrr en í byrjun júlí, ólíkt fyrirkomulagi fyrri ára. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), rakti málið í samtali við Morgunblaðið í gær. Berglind vill árétta að áætlað sé að 25 einstaklingar útskrifist úr framhaldsnámi í lyfjafræði í sumar, ekki 11 líkt og sagði í viðtalinu við Andrés. Síðustu ár hafa brautskráðir nemendur verið færri og hún segir að fjöldi nemenda sé mjög breytilegur á milli ára, frá tíu og upp í 25. Þá vill Berglind árétta að HÍ láti hvorki SVÞ né Landspítalann fá nemendaskrá líkt og kom fram í viðtalinu. Um persónuverndargögn sé að ræða sem HÍ afhendi ekki nema með formlegu leyfi nemenda.

Berglind telur að útskrift verði á þessum tíma næstu ár. „Svo að tímalínurnar breytast svolítið einmitt út af þessu.“ Í febrúar sendi Berglind Lyfjafræðingafélagi Íslands bréf til þess að upplýsa um stöðuna. Kom þar fram að seinkun á veitingu starfsleyfa hefði í för með sér að hagsmunaaðilar apóteka þrýstu kröftuglega á lyfjafræðideild HÍ. Embætti landlæknis sér hins vegar um að veita starfsleyfin. Berglind segir að Heilbrigðisvísindasvið HÍ sé beint og óbeint í viðræðum við landlækni. Hún viti að unnið sé að því að gera kerfið skilvirkara og rafrænt. Berglind hefur þó ekki upplýsingar um hvar sú vinna er stödd í dag. „Það eru allir að reyna að róa í sömu átt.“ Hún segir að lyfjafræðideildin reyni að vinna málin eins hratt og hægt er til þess að útskrifaðir nemendur fái starfsleyfi sín, „en nú er tíminn bara það knappur“.