Þóra Unnur Kristinsdóttir fæddist á Hólmavík 3. ágúst 1930. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 29. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru Jakobína Jakobsdóttir húsfreyja, f. 9. sept. 1887 á Fossi, Staðarhreppi, d. 1976 og Kristinn F. Benediktsson, kaupmaður og póstafgreiðslumaður, f. 6. nóv. 1883 í Syðsta-Samtúni í Glæsibæjarhreppi, d. 1960. Systkini Þóru voru Guðjón, f. 1918, d. 1988 og Jakobína f. 1920, d. 1992.

Þóra var í sambúð með Gunnari L. Jónssyni húsgagnabólstrara, f. 6. ág. 1930, d. 1989. Þau slitu samvistum. Dóttir þeirra er Kristín Björk kennari, f. 1. des. 1955, gift Jóni Guðmundssyni kennara, f. 19. maí 1954. Börn þeirra eru: a) Þóra Elísabet augnlæknir, f. 24. maí 1982, í sambúð með Róberti A. Hafþórssyni, b) Guðmundur Ingvi flugmaður, f. 10. ág. 1985, kvæntur Örnu Óttarsdóttur, dætur þeirra eru Sóley Halla og Lilja Björk, c) Gunnar Kristinn tónlistarframleiðandi, f. 23. okt. 1994, í sambúð með Maríönnu B. Ásmundsdóttur.

Þóra giftist 19. des. 1987 Eyþóri Fannberg, vélstjóra og kerfisfræðingi, f. 5. júní 1928 í Bolungarvík. Eyþór lést 20. ág. 1999.

Þóra gekk í barnaskóla á Hólmavík og nam á Reykjum í Hrútafirði og í Flensborg í Hafnarfirði þaðan sem hún lauk gagnfræðaprófi. Hún tók kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands 1951. Hún fór til framhaldsnáms í Statens Spesiallærerskole í Oslo og lærði sérkennslufræði og talmeinafræði og tók loks masterspróf í sérkennslufræðum 1980.

Þóra hóf farsælan feril sem kennari á Drangsnesi og á Hólmavík en kenndi síðan við Melaskólann í Rvík frá 1954 og starfaði þar í 17 ár. Leiðin lá í Æfingaskóla KHÍ 1972 þar sem hún var sérkennari og forstöðumaður lesvers til 1983 jafnframt stundakennslu við Kennaraháskóla Íslands. Það ár fékk hún fastráðningu sem lektor, síðar dósent, við KHÍ og starfaði þar til loka starfsferils síns. Áhugi Þóru var mikill á lestri og lestrarkennslu og ekki síst því hvernig mætti styðja við nemendur með lestrarörðugleika, þar er hún frumkvöðull. Hún var fyrst íslenskra kennara að sækja heilsársnám í sérkennslufræðum erlendis. Hún stofnaði fyrsta lesverið í Melaskóla en þar gátu nemendur með lestrarörðugleika fengið aðstoð.

Þóra var námsefnishöfundur og samdi ásamt öðrum kennsluefni sem hefur verið notað við lestrar-, málfræði- og stafsetningarkennslu. Má þar nefna bókaflokka eins og Við lesum, Ritrún, Málrækt, og Mál til komið sem allflestir Íslendingar þekkja. Þessar bækur hafa oft verið endurútgefnar og gjarnan betrumbættar fyrir nýja útgáfu.

Hún stundaði rannsóknir og þýddi og staðlaði könnunina Læsi-lestrarskimun ásamt Guðmundi Kristmundssyni, sem enn er notuð.

Þóra var virkur félagi í Delta Kappa Gamma, félagi kvenna í fræðslustörfum, til dauðadags. Hún sat í stjórnum ýmissa félaga, t.d. Lestrarmiðstöðvar KHÍ, Berklavarna (SÍBS) og Félags eldri borgara í Rvík (FEB).

Útför Þóru fer fram frá Háteigskirkju í dag, 10. maí 2024, klukkan 15. Streymt verður frá athöfninni. Hlekk er hægt að nálgast á mbl.is/andlat.

Tengdamóðir mín Þóra Kristinsdóttir er látin í hárri elli. Eftir áratuga kynni sem aldrei bar skugga á þakka ég samfylgdina. Yndislegri tengdamóður hefði ég ekki getað fengið. Þóru var annt um hag fjölskyldunnar og var heitt elskuð af barnabörnum og síðar langömmubörnum. Hún skilur eftir sig tóm sem við reynum að fylla upp í með góðum minningum. Ótal minningum frá jólum, áramótum, ferðalögum, heimsóknum hennar til okkar austur á Hallormsstað og ekki síst minningum frá hvursdagsheimsóknum í Aðallandið þar sem amma Þóra bauð í vöfflur, pönnukökur eða kótilettur í raspi. Hennar hátíð var Gvendardaginn 16. mars, gamall siður frá æsku hennar á Hólmavík. Sá dagur var ætíð tilhlökkunarefni.

Þóra varð aldrei gömul kona. Þótt líkaminn hafi verið farinn að gefa eftir hafði hún yfirbragð miklu yngri manneskju, hélt reisn, skýrri og frjórri hugsun og sjarma alveg fram í andlátið. Hún stundaði jóga, spilaði bridge, las bækur, var félagslynd og hafði yndi af því að horfa á golf, íþrótt sem hún stundaði á árum áður. Þóra hafði sterkar skoðanir á bestu kylfingum í heimi hvort sem það var spilamennskan sjálf eða klæðaburður þeirra. Tengdamóðir mín var sannarlega smekkmanneskja.

Öll þjóðin naut góðs af ævistarfi Þóru Kristinsdóttur. Kennslubækur sem hún átti þátt í að skrifa hafa um áratugi verið notaðar í skólum landsins. Hún var einn af brautryðjendum í sérkennslu og kenndi sérkennslufræði við Kennaraháskólann í áratugi.

Þóra var Hólmvíkingur, fædd í Steinhúsinu þar í bæ. Hún var alla tíð gegnheill Strandamaður, alin upp við sveitastörf í Steingrímsfirði. Það var gaman og fróðlegt að fara í okkar árlegu ferðir til Hólmavíkur og hlýða á lýsingar hennar frá æskunni sem var allnokkuð frábrugðin því lífi sem við þekkjum í dag.

Þóra stundaði nám í Reykjaskóla í Hrútafirði, fór í Kennaraskólann og síðar lærði hún að verða sérkennari í Osló, borginni sem varð henni mjög kær.

Þóra lifði tímana tvenna. Margt hefur breyst síðan hún var send heim til að skipta um föt þegar hún mætti einn daginn til kennslustarfa í Melaskóla klædd buxnadragt. Dragtina hafði hún saumað sjálf eftir sniði úr Burdablaðinu. Buxnadragtin þótti hreint ekki viðeigandi. Kennslukona í buxum gat ekki staðið fyrir framan blessuð börnin.

Þóra var því send heim til að skipta yfir í pils.

Það er sagt að stjarna

sem útkólnuð er

lýsi í aldaraðir

til jarðar hér,

eins ertu minning

ég af þessu ræð

ég á þig í vitund

þótt sjái þig enginn.

(Jóhannes Kjarval)

Guð blessi minningu Þóru Unnar Kristinsdóttur.

Jón Guðmundsson.

Þá er hún amma mín fallin frá, langt fyrir aldur fram eða 93 ára að aldri. Þetta kann að hljóma furðulega en amma var svo ung í öllu fasi að ég átti allt eins von á að hún myndi setja Íslandsmet í elli. Alveg fram á síðasta dag var kollurinn skýr þótt annars kattliðugur og hraustur líkaminn væri örlítið farinn að gefa eftir. Hún tók hlutverk sitt alvarlega sem amma og hlúði vel að okkur systkinunum sem voru hennar einu barnabörn. Ég var alltaf stoltur af henni en hún var höfundur velflestra kennslubóka í lestri og íslensku sem við nemendurnir voru látnir kljást við. Þetta var hennar hugsjón og mér þykir virkilega gaman þegar ég sé bókum hennar bregða fyrir í grunnskólum landsins enn þann dag í dag.

Eftir því sem við urðum eldri þá nálguðumst við hvort annað sem meiri jafningjar og var hún orðin einn af mínum betri vinum. Hún fór iðulega að sofa í seinna fallinu og því leit ég gjarnan við hjá henni á kvöldin. Þá var stundum skellt í vöfflur og málin rædd yfir þeim kræsingunum með óþarflega miklu sírópi. Hún gaf gjarnan góð ráð og studdi yfirleitt hugmyndir mínar jafnvel þótt þær væru að mínu mati örlítið óskynsamlegar. Lífið er nefnilega skemmtilegra með smá sírópi en hafa verður varann á svo allt verði ekki klístrað.

Hún var skemmtilega íhaldssöm og vildi alltaf skinku og ananas á pítsuna en með smá mælskulist var hægt að tala hana á annað álegg. Það sama gilti svo um annað í lífinu. Það að breyta um skoðun þykir mér virkilega aðdáunarverður eiginleiki. Það var virkilega dýrmætt að fá að umgangast einstakling sem man tímana tvenna og baða sig í þeirri visku sem hún bjó yfir.

Fyrir nokkrum vikum leit ég við hjá ömmu og ætlaði í rauninni ekkert að stoppa. Ég horfði á ömmu og hugsaði með mér að þetta væri ekki sjálfgefið augnablik. Ég gaf mér því tíma og áttum við amma virkilega gott spjall sem reyndist vera okkar kveðjustund. Hún óttaðist ekki dauðann heldur virtist taka honum fagnandi enda óumflýjanlegur og henni þótt hann yfirvofandi. Eflaust er dauðinn erfiðastur fyrir okkur sem sitjum eftir og syrgjum en amma kenndi mér þó að hægt er að setja síróp á hann. Þrátt fyrir það er dauðinn beiskur.

Takk fyrir allt, elsku amma.

Guðmundur Ingvi.

Hún amma Þóra varð amma þegar ég fæddist og var ég svo heppin að fá nafnið hennar. En áður en amma varð amma mín hafði hún lifað tímana tvenna. Hún ólst upp á Hólmavík, fór eftir stríð til Oslóar að freista gæfunnar. Hún setti þar tóninn fyrir fjölskylduna því síðan þá hafa mörg okkar fetað í hennar fótspor í Noregi. Hún varð því ánægð þegar ég hélt í sérnám til Oslóar og höguðu örlögin því þannig að ég bjó við sömu götu og amma hafði gert sjötíu árum áður. Spor ömmu eru því víðsvegar um Osló og margt sem minnir á hana hér.

Hún var algjör nagli og lét ekkert stoppa sig, menntaði sig, varð einstæð móðir á sjötta áratugnum en fór samt utan í framhaldsnám og varð frumkvöðull í lestrarkennslu á Íslandi. Ég naut góðs af því, fór snemma í lestrarskóla til ömmu á sunnudögum, hún ætlaði nefnilega að rannsaka hvernig börn lærðu að lesa. Rannsóknin fór reyndar út um þúfur því amma skildi ekkert í hvernig ég hefði lært þetta, allt í einu var ég bara orðin læs. Eftir kennsluna settist ég upp á eldhúsbekkinn og horfði á ömmu baka pönnukökur sem við gæddum okkur svo á.

Þótt hún hafi verið að verða 94 ára þá fannst mér hún ekki vera neitt gamalmenni og ég hélt að hún yrði með okkur miklu lengur. Hún var algjör skvísa, alltaf vel tilhöfð, með bleikan varalit og í hælaskóm. Hún var mikil vinkona mín, gátum rætt alla mögulega hluti, hneykslast á því sem okkur fannst asnalegt og alltaf hló hún að bullinu í okkur systkinunum. Það var gott að kíkja í heimsókn, hvort sem það var í ristað brauð og te í hádeginu, í vöfflur eða kvöldheimsókn í spjall og sjónvarpsgláp. Það var eiginlega sama hversu seint á kvöldin ég kom, alltaf var amma vakandi og til í heimsókn enda B-manneskja mikil.

Fyrir bara mánuði langaði mig svo mikið í pönnukökur, þá var eins og amma hefði fengið hugboð því hún hringdi og sagðist vera að baka nokkrar pönnukökur og bauð í kaffi. Þær voru góðar að vanda en pannan hafði farið illa, hafði gleymst á hellunni, brunnið við og hún talaði um að hún þyrfti að fá nýja pönnu. Ekki verður þörf á því úr þessu, þetta urðu hennar síðustu pönnukökur, gamla pannan entist henni út lífið.

Þegar við lögðum af stað austur á Hallormsstað eftir Reykjavíkurferðir í gamla daga fannst mér alltaf svo erfitt að kveðja. Ég man að amma kvaddi mig, spennti á mig bílbeltið og ég tímdi svo ekki að losa það alla leiðina austur, því hún hafði spennt það, ég vildi halda í smá hluta af ömmu eins lengi og ég gat eins einkennilegt og það hljómar. Ég smeygði mér bara úr beltinu og í það ef við þurftum að fara út úr bílnum. Til að gera mér kveðjustundirnar bærilegri kenndu þau afi mér vísu:

Að hryggjast og gleðjast,

hér um fáa daga.

Að heilsast og kveðjast,

það er lífsins saga.

(Páll J. Árdal)

Það verður víst ekki hjá því komist að kveðjast í síðasta skipti, elsku amma, og vona ég að þú sért klár í ferðalagið til handanheima með bílbeltið spennt. Ég mun halda minningu þinni á lofti, baka pönnukökur og reyna að standa mig sem litla Þóra.

Þóra Elísabet.

Elsku besta amma sín. Það er fáránlegt að segja það en einhvern veginn hélt ég að þú myndir lifa endalaust, en svona er þetta og kveðjum við þig með miklum söknuði. Ég átta mig ekki almennilega á þessu öllu saman þar sem þú lifir enn svo sterkt í minningunni. Þú varst alltaf minn mesti stuðningsmaður, studdir mig svo innilega og af öllu hjarta hvort sem það var að elta draumana mína til LA, í tónlistarnáminu eða bara almennt í lífinu. Þú hafðir óbilandi trú á mér. Ég er svo innilegar þakklátur þér fyrir það. Að þínu mati voru flestar hugmyndir góðar ef ég átti hlut að máli, við studdum líka hvort annað í vitleysunni, til dæmis þegar okkur fannst frábær hugmynd að kaupa magaþjálfa frá sjónvarpsmarkaðnum eða þegar við rukum út í Elko að kaupa kleinuhringjajárnið sem notað var einu sinni. Þú varst alltaf fyrst til að hlæja að óviðeigandi bröndurunum mínum við matarborðið og þegar enginn flissaði þá horfði ég alltaf á þig brosandi og sá þá kímnina í augunum þínum á hinum endanum.

Aðallandið var ákveðinn griðastaður fyrir mig og mér fannst alltaf gott að kíkja við ef ég þurfti hlé frá amstri dagsins. Mér fannst eins og lífið væri sett á pásu þegar ég kom til þín enda sátum við oft í algjöru tímaleysi að horfa á golf eða spjalla eitthvað saman. Ég veit eiginlega ekki alveg hvernig ég á að lýsa sambandi okkar, þú varst ekki bara amma mín heldur líka besti vinur minn. Við gátum spjallað um allt milli himins og jarðar og mér fannst oft eins og þú værir ung manneskja í gömlum líkama. Gott dæmi um þetta er hvað þú tókst alltaf vel í að fá þér skyndibita með mér. Það skipti ekki máli hvort það var KFC, Subway, McDonald’s (meðan það var og hét) eða Domino’s sem var aðalstaðurinn okkar. Havaí-pitsa á Domino’s var í miklu uppáhaldi hjá þér og það mátti ekki vera neitt annað en Havaí! Ein af uppáhaldsminningunum mínum með þér er einmitt að fara saman og ná í pitsu, leggja diska og glös á stofuborðið, kveikja á einhverju eðalsjónvarpsefni og njóta pitsunnar.

Garðurinn þinn var alltaf svo fallegur, sérstaklega á sumrin þegar þú varst búin að hreinsa beðin, hlúa að túlípönunum og planta fallegum blómum í kerin. Við áttum margar stundir saman í garðinum þegar við sátum í tímaleysi með kristal eða kók og jafnvel ristað brauð og sóluðum okkur. Já, elsku amma sín, ég veit að þú vakir yfir mér núna enda sagðirðu svo oft að þú ætlaðir að vera engillinn minn. Ég er handviss um að þú ert nú í góðum höndum.

En þrátt fyrir að þú sért kannski ekki með okkur í raunheimum þá er svo skrítið að ég finn ennþá fyrir sömu gleðinni þegar ég kem í Aðallandið, sem segir mér að andi þinn er á sínum stað.

Gunnar Kristinn.

Í dag kveðjum við yndislega nágrannakonu og vinkonu. Við vorum svo lánsöm að kynnast Þóru þegar við fluttum í Aðalland fyrir hartnær tuttugu árum. Það var gott og gefandi að hafa Þóru sem nágranna. Ófáum stundum eyddum við saman úti í garði á björtum dögum eða við kaffihlaðborðið. Þá var mikið spjallað um daginn og veginn og var Þóra ávallt vel inni í öllum málum. Hún var á köflum ákaflega glettin og var skemmtilegt að spjalla við Þóru um málefni líðandi stundar, enda var hún mjög fróð. Þóra var mikill fagurkeri og var einstaklega smekkleg kona. Henni var umhugað um að hafa snyrtilegt í kringum sig og bar allt hennar handbragð því vitni. Hún lagði mikla áherslu á að hugsa vel um sig og sáum við hana aldrei fara öðruvísi út úr húsi en vel tilhafða og glæsilega. Nú nýlega lét barnabarn okkar þau orð falla hve heppin við værum að Þóra væri íbúi við hliðina á okkur og eru það svo sannarlega orð að sönnu. Betri nágranna er ekki hægt að óska sér. Um leið og við kveðjum Þóru með þakklæti og hlýju í hjarta vottum við aðstandendum hennar okkar dýpstu samúð. Guð blessi Þóru okkar.

Halldóra og Þorbergur.

Þóra Kristinsdóttir er látin. Með henni hvarf á braut góð vinkona og vönduð manneskja.

Við hjón kynntumst Þóru fljótlega eftir að bóndinn fór að vinna við Æfingaskóla Kennaraháskólans. Hún stýrði svokölluðu lesveri. Þar áttu athvarf nemendur sem þurftu á stuðningi að halda í námi eða áttu við annan vanda að stríða. Starfið þarna var faglegt og skilaði góðum árangri. Lesverið var hlýlegt og ýmsir komu þar við þó svo þeim væri ekki vandi á höndum. Allir gátu bætt sig og ekki voru nemendur dregnir í dilka eftir frammistöðu.

Þóra var vel menntuð í sérkennslufræðum þar sem mál og læsi skipaði sérstakan sess. Hún aflaði sér stöðugt nýrrar þekkingar. Þessari þekkingu kom hún á framfæri í kennslu sinni við Kennaraháskólann og á kennaranámskeiðum. Námskeið hennar voru vinsæl og alltaf vel sótt.

Það var gaman að fara með Þóru til útlanda á fundi og ráðstefnur. Það brást varla að til hennar kæmi fólk sem hún þekkti. Þessi kynni komu okkur sem með henni störfuðum í góðar þarfir, bæði í kennslu og ekki síst þegar við unnum að samningu námsbóka og greinaskrifa í tímarit og bækur. Þegar okkar kynni hófust höfðu hún og Björgvin Jósteinsson samið gott efni handa yngstu nemendum. Þegar kom að efni handa miðstigi grunnskóla var Rósa Þorbjarnardóttir, samstarfskona okkar, með í leiknum. Það efni hlaut titilinn Málrækt og var ætlað þremur árgöngum. Þetta var mikið verk og tímafrekt og

mikið af þessari vinnu fór fram utan vinnutíma. Kom það eflaust niður á fólkinu okkar.

Auk þessarar vinnu við skriftir tókum við þátt í viðamikilli rannsókn á læsi 9 og 14 ára nemenda á Íslandi, sem Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála stóð fyrir undir stjórn Sigríðar Valgeirsdóttur. Þetta var mikil vinna sem skilaði eftirtektarverðu verki sem vakti athygli víða um lönd. Þetta var í fyrsta sinn sem heilir árgangar nemenda tóku þátt í slíkri rannsókn. Okkur var í kjölfarið boðið á ráðstefnur og fundi.

Störf Þóru voru merkileg og mikilvæg fyrir menntun barna, en persónan, velvildin og skemmtilegheitin eru okkur hjónum minnisstæð. Ákveðin var hún og ein af fyrstu konum sem við kynntumst sem lét ekki bjóða sér hvað sem er. En alltaf var kurteisin í fararbroddi. Þóra átti alltaf góða bíla. Þegar hún var orðin ein ætlaði hún að fá sér annan bíl og minni. Hún fór í bílaumboð og var þar tekið sem konu. Hún spurði sölumann spjörunum úr og notaði bíltæknilegt mál. Hún sagðist vilja almennilegan bíl sem hún gæti keyrt upp Kamba og þyrfti ekki að láta karla fara fram úr sér. Hún fékk góða þjónustu í umboðinu.

Við áttum margar skemmtilegar stundir með Þóru, bæði á meðan við unnum saman en ekki síður eftir að við vorum öll komin á eftirlaun. Hún var góð heim að sækja og það var notalegt að fá sér kaffi og spjalla, segja sögur og hlæja.

Nú er Þóra, þessi góða vinkona okkar, horfin sjónum. Við minnumst hennar með söknuði og sendum Kristínu, Jóni og afkomendum samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.

Guðmundur B. Kristmundsson, Sigríður Bjarnadóttir.

hinsta kveðja

Gull á ég ekki að gefa þér

og gimsteina ekki neina.

En viltu muna að vináttan er

verðmætust eðalsteina.

(Hjálmar Freysteinsson)

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,

hjartans þakkir fyrir liðna tíð,

lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,

leiði sjálfur Drottinn þig
við hönd.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Kveðjum með söknuði, blessuð veri minning þín.

Spilafélagar,

Hrafnhildur,
Valgerður og
Guðrún (Didda).