Heimilislausir Tjaldbúðir fyrir Palestínumenn í al-Mawasi á Gasasvæðinu nálægt egypsku landamærunum.
Heimilislausir Tjaldbúðir fyrir Palestínumenn í al-Mawasi á Gasasvæðinu nálægt egypsku landamærunum. — AFP
Meira en 80.000 manns hafa flúið Rafah í suðurhluta Gasa síðan á mánudaginn, að sögn fulltrúa Sameinuðu þjóðanna, en ísraelskir skriðdrekar hafa eftir því sem sagt er safnast saman nálægt þéttbýli í stöðugum sprengjuárásum

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Meira en 80.000 manns hafa flúið Rafah í suðurhluta Gasa síðan á mánudaginn, að sögn fulltrúa Sameinuðu þjóðanna, en ísraelskir skriðdrekar hafa eftir því sem sagt er safnast saman nálægt þéttbýli í stöðugum sprengjuárásum.

Palestínskir vígahópar kváðust beina skeytum sínum að ísraelskum hermönnum austan borgarinnar, en ísraelski herinn hefur látið í veðri vaka að hersveitir á jörðu niðri stundi „markvissa starfsemi“ í austurhluta Rafah. SÞ vöruðu einnig við því að matur og eldsneyti væri á þrotum þar sem enga aðstoð væri að fá í næsta nágrenni.

Ísraelskir hermenn tóku sig til og lokuðu Rafah-herstöðinni við egypsku landamærin við upphaf aðgerða þar, en samtímis því greindu SÞ frá því að of háskalegt væri fyrir starfsfólk þeirra og vöruflutningabíla að komast að Kerem Shalom-leiðinni við Ísrael sem nú hefur verið opnuð á nýjan leik.

Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels gagnrýndi hótun Joes Bidens Bandaríkjaforseta um að hætta að útvega Ísraelsmönnum vopn ef þeir réðust á íbúabyggð í Rafah. Sagði Netanjahú að Ísrael gæti staðið einangrað ef þörf krefði.

Sprengjugnýr færist nær

Eftir sjö mánaða langt stríð á Gasasvæðinu hafa Ísraelar fullyrt að sigur þeirra sé útilokaður án þess að þeir leggi borgina undir sig og felli síðustu Hamas-herfylkingarnar sem enn eru bardagahæfar.

Þar sem meira en ein milljón flóttamanna frá Palestínu hefur leitað skjóls í Rafah hafa SÞ og vesturveldin gert því skóna að allsherjarárás á borgina gæti leitt til mikils mannfalls meðal óbreyttra borgara og brota gegn mannréttindum íbúanna.

Louise Wateridge, talskona Hjálparstofnunar SÞ fyrir palestínska flóttamenn, UNRWA, sagði breska ríkisútvarpinu BBC síðdegis í gær að hún væri stödd á heilbrigðisstofnun á vesturhluta Gasa og heyrði sprengjugnýinn færast æ nær.

„Byggingin leikur annað slagið á reiðiskjálfi og heyra má stöðugan nið frá drónum. Sá ótti og kvíði sem hrjáð hefur íbúa Rafah hefur nú snúist upp í hrylling,“ sagði Wateridge.

Mannfall aukist úr hömlu

Palestínskir fjölmiðlar greindu frá því að tveir almennir borgarar hefðu týnt lífinu síðdegis í gær í loftárás Ísraelsmanna á al-Jneineh-hverfið í Rafah, eitt þeirra svæða í austurhluta borgarinnar sem ísraelski herinn fyrirskipaði almennum borgurum að rýma áður en hann hóf aðgerðir sínar á jörðu niðri á mánudaginn.

Þrír til viðbótar voru sagðir hafa farist í loftárás í Brazil-hverfinu, spölkorn frá al-Jneineh, sem liggur þó ekki innan rýmingarsvæðisins en þó að egypsku landamærunum.

Forstjóri Kuwaiti Specialist-sjúkrahússins í miðri Rafah-borg, annars tveggja sjúkrahúsa sem eru starfhæf þar í borginni, sagði BBC í gær að mannfall hefði aukist úr hömlu og meðal annars kæmi fólk undir læknishendur á sjúkrahúsinu sem bæri marga „óvenjulega áverka eftir óvenjuleg vopn“.

Hverfi yfirfull af fólki

Jamal al-Hamas, læknir á sjúkrahúsinu, kvað enga aðstöðu fyrir hendi þar til að meðhöndla sjúklingana svo fullnægjandi þætti, röntgenmyndavélar væru í lamasessi þar sem varahluti vantaði í þær vegna stöðugra loftárása Ísraelsmanna auk þess sem nálægð sjúkrahússins við al-Najjar-sjúkrahúsið í Austur-Rafah væri bagaleg þar sem fyrirskipun um rýmingu hefði verið gefin þar og harðir bardagar geisuðu í nágrenninu.

Palestínumenn og embættismenn Sameinuðu þjóðanna sögðu frá því að mörg hverfi borgarinnar væru yfirfull af fólki og þar vantaði allar grunnnauðsynjar þar sem hverfin væru meira og minna rústir einar.

Scott Anderson, svæðisstjóri UNRWA á Gasa, greindi frá því í viðtali við BBC að stofnunin hefði orðið vör við „umfangsmikla fólksflutninga sem komið hefðu tugum þúsunda á vergang“ samtímis því sem átök færðust í vesturátt.

Myndskeið af opnu hliði

„Það er kannski mesta áhyggjuefnið þar sem Rafah- og Kerem Shalom-aðgönguleiðirnar eru lokaðar og bensínbirgðir okkar á þrotum sem setur okkur stólinn fyrir dyrnar við að koma heimilislausum til aðstoðar auk annars fólks á Gasa,“ sagði Anderson.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varaði einnig við því að sjúkrahús á suðurhluta Gasasvæðisins, þar með talið sjúkrahús í útjöðrum Rafah, ættu aðeins þriggja daga eldsneytisbirgðir eftir. Ísraelsher birti á miðvikudag myndskeið sem hann sagði færa sönnur á að Kerem Shalom-hliðið hefði verið opnað á ný en á myndskeiðinu mátti sjá vörubifreiðar með hjálpargögn aka um hliðið.