Rithöfundur „Það sem mér finnst verst af öllu í bókmenntafræðiheiminum er almennt snobb,“ segir Sjöfn Asare.
Rithöfundur „Það sem mér finnst verst af öllu í bókmenntafræðiheiminum er almennt snobb,“ segir Sjöfn Asare. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
„Ég var komin með mikinn leiða á glæpasögum þar sem lögreglur eru í aðalhlutverkum,“ segir rithöfundurinn Sjöfn Asare sem gaf á dögunum út skáldsöguna Ég elska þig meira en salt á Storytel en það er sjálfstætt framhald af bók hennar Flæðarmál frá 2020

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Ég var komin með mikinn leiða á glæpasögum þar sem lögreglur eru í aðalhlutverkum,“ segir rithöfundurinn Sjöfn Asare sem gaf á dögunum út skáldsöguna Ég elska þig meira en salt á Storytel en það er sjálfstætt framhald af bók hennar Flæðarmál frá 2020.

„Í fyrstu bókinni er aðalpersónan, Sóley, bara venjuleg kona úti í bæ sem uppgötvar að samstarfskona hennar hefur ekki mætt í vinnuna og fer að velta því fyrir sér hvort hún sé týnd og það vindur upp á sig. Nú eru fjögur ár liðin og ég ákvað að í millitíðinni hefði hún gefið út hlaðvarp og orðið smá hlaðvarpsstjarna. Svo nú er hún að leita að nýju máli til að geta haldið áfram með hlaðvarpið. Mig vantaði einhverja ástæðu fyrir því að hún væri aftur að rannsaka mál því venjuleg manneskja er ekkert alltaf að hugsa: Hver er týndur?“

Erum öll lítil sorgmædd börn

Að þessu sinni hverfist málið að stórum hluta um fyrirbæri sem þekkt er undir heitinu Munchausen by proxy. „Þetta er núna kallað Factitious disorder imposed on another. Það er þegar einhver sem er í hlutverki umönnunaraðila gerir skjólstæðing sinn veikan, stundum fyrir athygli og stundum fyrir peninga. Það er mikið talað um að þetta séu oftast mæður en ég hugsa að það sé af því að þær séu oftast í umönnunarhlutverki. Það eru nokkur fræg dæmi um þetta. Ég tala til dæmis um Gypsy-Rose-málið í bókinni og fleiri raunveruleg dæmi og nota þau til útskýringar. Ég er nefnilega að vinna með það í bókunum mínum að allt sem gerist í bókunum mínum gerist í alvörunni,“ segir Sjöfn.

„Ég veit ekki hvernig hinn almenni lesandi er en ég datt í svona Munchausen by proxy-holu fyrir um sex árum og hlustaði mikið á hlaðvörp tengd því.“ Hún ákvað að nýta þann fróðleik sem hún hafði viðað að sér í skáldsögu en fannst samt hún verða að gera eitthvað nýtt því mikið hefði þegar verið skrifað um fyrirbærið. „Ég hugsaði með mér hvort það væri ekki bara betra að við vitum frá byrjun að þetta sé til umfjöllunar frekar en að það sé eitthvað sem kemur upp úr krafsinu á síðu 300. Ef ég væri að lesa bókina myndi ég alla vega strax fatta að mamman væri að gera börnin veik.“

Skáldsögur Sjafnar hverfast oftar en ekki um breyskleika og sálarvanda persónanna. „Ég held að við séum öll bara lítil sorgmædd börn sem erum einmana. Það hljómar kannski svolítið dramatískt. En einmanaleiki og einangrun sem fylgir því að vera öðruvísi eða eiga við eitthvert vandamál að stríða er eitthvað sem kemur fyrir í bókunum mínum,“ segir hún.

Meiri handverksmanneskja

„Ég er bókmenntafræðingur en það sem mér finnst verst af öllu í bókmenntafræðiheiminum er almennt snobb,“ segir Sjöfn og bendir á að ýmsir líti niður á glæpasögur og kvennabókmenntir á borð við skvísubækur. „Hugmyndafræði mín er sú að lesandinn eigi skilið að fá glæpasögur og skvísubækur sem eru vel unnar og efninu gerð góð skil. Ég kalla bækurnar mínar oft skuggaskvísubækur sem er þýðingin mín á „chick noir“, eins og Gillian Flynn skrifar til dæmis. Mér finnst bara að við skuldum lesandanum að gera þetta vel og græðum ekkert á því að tala bækurnar niður. Svo ef ég er spurð hvort þetta séu konubækur þá segi ég bara já.“

Hún bætir við að sér finnist mikilvægt að hafa hinsegin persónur sýnilegar í bókunum. „Aðalpersónan mín er í samkynja sambandi og það fléttast alls konar þannig mál inn í.“

Spurð hvort henni þyki það að vera menntuð í bókmenntafræði hjálpa sér við ritstörfin segir hún: „Já, ég myndi segja það. Þá er maður meðvitaður um alls konar þemu og þannig. Þegar ég skrifaði fyrstu glæpasöguna mína ákvað ég að lesa mikið af glæpasögum og kynnast formúlunni. Ég held að ef þú þekkir formúluna þá getirðu leikið þér með hana og skapað þínar eigin reglur fyrir söguheiminn. Svo er ég alltaf að lesa, ég geri ekki annað, og ég held að það hljóti að spila inn í.“

Sjöfn segir að ferlið við að skrifa verði auðveldara með hverri bók. Ég elska þig meira en salt er þriðja skáldsagan hennar en þar að auki hefur hún gefið út ljóðabækur. „Ég er rosa lengi bara að hugsa. Þegar ég er að keyra eða leika við börnin mín þá er ég að plotta eitthvað. En svo þegar kemur að því að skrifa eitthvað niður á blað þá geri ég útlínur og ákveð hversu mörg prósent fara í hvern hluta bókarinnar og hvenær koma vendingar. Svo sest ég niður og skrifa hana línulega frá a til ö. Ég á vinkonur sem eru líka að skrifa en eru miklu meira að fylgja innsæinu og eru meiri listamenn, held ég. Ég er meiri handverksmanneskja,“ segir hún.

Kann ekki að eiga frítíma

„Ég hef frá því ég var lítil hlustað mikið á hljóðbækur og elska þær. Mér finnst fullkomið að vera að hlusta á eitthvað og teikna á meðan,“ segir Sjöfn. Skáldsögurnar hennar þrjár hafa allar komið út hjá Storytel á hljóðbókarformi en hún sigraði í handritasamkeppni á vegum hljóðbókaveitunnar með þeirri fyrstu, Flæðarmáli.

Spurð hvort hún hafi í huga að verkið verði að virka vel sem hljóðbók þegar hún skrifar segir hún: „Ég reyni að passa að þú vitir alltaf hver er að tala. Það er mjög ákveðin rödd persónu sem er í fararbroddi í hverjum kafla og ég skipti stíft á milli. Ef þetta væri prentuð bók þá myndi maður kannski hafa þetta meira flæðandi en í hljóðbókinni verðurðu að vera með þrengri ramma svo að lesandinn haldi þræði.“

Sjöfn lifir og hrærist í heimi bóka. Hún er í doktorsnámi í bókmenntafræði við Háskóla Íslands og vinnur þar að ritgerð um birtingarmyndir jaðarsettra líkama í íslenskum samtímabókmenntum. Svo skrifar hún gagnrýni fyrir Lestrarklefann, myndlýsir barnabækur og er að vinna að smásagnasafni með þeim Rebekku Sif Stefánsdóttur og Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur.

„Ég er líka að setja niður plottið fyrir þriðju bókina um Sóleyju. Svo er draumurinn að gera hryllingsbók svo ég er að vona að ég komi henni á blað í sumar. Ég held að ég kunni ekki að eiga frítíma lengur, ég er alltaf að skrifa, lesa eða teikna.“