Mögnuð Thea Imani Sturludóttir sækir að marki Hauka í gær. Hún skoraði sjö mörk í leiknum og var markahæst í liði Íslandsmeistaranna.
Mögnuð Thea Imani Sturludóttir sækir að marki Hauka í gær. Hún skoraði sjö mörk í leiknum og var markahæst í liði Íslandsmeistaranna. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valur hafði betur gegn Haukum, 28:27, í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmóts kvenna í handknattleik á Hlíðarenda í gær. Mikið jafnræði var með liðunum allan leikinn en hálfleikstölur voru 16:16

Á Hlíðarenda

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

Valur hafði betur gegn Haukum, 28:27, í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmóts kvenna í handknattleik á Hlíðarenda í gær. Mikið jafnræði var með liðunum allan leikinn en hálfleikstölur voru 16:16.

Valur er þar með kominn með einn sigur en þrjá þarf til að verða Íslandsmeistari. Næsti leikur liðanna fer fram á Ásvöllum næstkomandi sunnudag. Valsliðið vann úrvalsdeildina með miklu yfirburðum og vann 20 af 21 leik. Eina tap Vals í vetur kom einmitt gegn Haukum.

Liðin léku frábærlega í fyrri hálfleik og skoruðu og skoruðu. Valskonur voru hins vegar oft í rugli með spilamennskuna og töpuðu mörgum boltum. Hafdís Renötudóttir markvörður Vals sá þó til þess að Haukar náðu ekki góðri forystu en hún varði sífellt úr dauðafærum. Haukar náðu góðri forystu um miðjan seinni hálfleikinn en þá fékk aðalmaður liðsins Elín Klara Þorkelsdóttir tveggja mínútuna brottvísun. Sóknarleikur Hauka hrundi eftir það, sem Valur nýtti sér.

Elín Klara skoraði 10 mörk fyrir Hauka en hjá Val var Thea Imani Sturludóttir markahæst með sjö mörk. Hafdís varði 17 skot í marki Vals og var með yfir 38% markvörslu. Hjá Haukum varði Margrét Einarsdóttir tíu skot.

Haukaliðið getur verið svekkt yfir niðurstöðunni en Valsliðið átti ekki góðan dag. Haukar voru yfir með fjórum mörkum er aðeins 12 mínútur voru eftir og hefðu leikmenn liðsins getað gert betur úr þeirri stöðu. Aftur á móti var færanýtingunni hjá Haukum ábótavant og sérstaklega úr dauðafærum en Hafdís át leikmenn í flestum dauðafærunum. Þó var mikið um tapaða bolta hjá Valskonum og voru þær ólíkar sjálfum sér. Aftur á móti er gífurlega sterkt að vinna leikinn þrátt fyrir það.

Eins og áður kom fram etja liðin kappi næstkomandi sunnudag og geta Íslands- bikar og deildarmeistarar Vals komið sér í kjörstöðu með sigri á Ásvöllum í Hafnarfirði. Valur hefur átt nánast fullkomið tímabil og ef Valsliðið vinnur úrslitaeinvígið yrði það með betri tímabilum liðs á Íslandi frá upphafi. Haukakonur sýndu aftur á móti kraft sinn og getu í gær og með Elínu Klöru í banastuði er allt opið í einvíginu.