Flest okkar dreymir um gott líf. Eiga fallegt heimili þar sem við getum fengið frið frá skarkala heimsins og notið þess að vera í ró og næði. Fólk sem hefur áhuga á hönnun og leggur upp úr því að hafa smart heima hjá sér les hönnunartímarit, á…

Flest okkar dreymir um gott líf. Eiga fallegt heimili þar sem við getum fengið frið frá skarkala heimsins og notið þess að vera í ró og næði. Fólk sem hefur áhuga á hönnun og leggur upp úr því að hafa smart heima hjá sér les hönnunartímarit, á pappírs- og stafrænu formi, í leit að góðum hugmyndum til þess að fegra enn frekar griðastað sinn. Við lifum á tímum breytinga og það sem átti upp á pallborðið fyrir tíu árum á kannski ekki lengur við. Það er gaman að hlusta á Erik Rimmer aðalritstjóra BO BEDRE greina þessa hluti og hver hans upplifun er af því sem er að gerast akkúrat núna.

Hann segist hafa séð heilmiklar breytingar á síðasta áratug. Fyrir tíu árum áttu dýrindis lúxushúsgögn og stórir jeppar upp á pallborðið meðan fólk virðist vera lágstemmdara í dag. Hann segir að nútímafólk sæki í náttúru og flestalla dreymi um notalegt heimili við vatn eða sjó.

Eitt mest selda tölublað BO BEDRE síðustu ár var þegar íslenskt einbýlishús við Þingvallavatn prýddi forsíðuna. Húsið er í eigu hjónanna Tinu Dickow og Helga Hrafns Jónssonar og var hannað af arkitektunum Kristjáni Eggertssyni og Kristjáni Erni Kjartanssyni hjá KRADS arkitektum.

En hvers vegna skyldi þetta tölublað hafa selst svona vel? Langar alla heimsbyggðina að búa á Þingvöllum eða er hönnunin svona falleg? Þingvellir og falleg hönnun trekkja líklega að en Rimmer segir að fólk þrái drauminn um kyrrð, frið og vatn. Þessi forsíða hafi sameinað þetta á einni ljósmynd og blaðið rauk út á blaðsölustöðum.

Á tímum þar sem þétting byggðar er helsta kappsmál borga heimsins og gluggalaus eldhús og þröngir stigagangar einkenna nýbyggingar verður draumurinn um vatnið og náttúruna sterkari. Fólk þráir birtu og lykt af mosa því að þetta tvennt hefur áhrif á andlega heilsu. Elsa Ævarsdóttir arkitekt segir í viðtali hér í blaðinu að það verði að gera breytingar í hönnun á nýbyggingum. Þótt stórt eldhús og eyja séu á óskalista fólks þá þýðir ekki að setja risaeldhús inn í litla íbúð. Hún segir allt of algengt að eldhúsið sé haft innst í íbúðinni þar sem dagsbirta sé lítil sem engin. Hún segir jafnframt að eldhúsið passi oft ekki inn í rýmið – það sé allt of stórt. Hún hefur stofnað Híbýlaauð ásamt fleiri arkitektum og berst hópurinn fyrir bættri híbýlamenningu.

Á Íslandi erum við ennþá töluvert upptekin af lúxus og stórum jeppum. Kannski þurfum við að verða aðeins meira eins og Danirnir og leggja meira upp úr því að hafa það notalegt. Njóta lífsins meðan á því stendur og muna að það er ekki hægt að láta jarða sig í lúxussófa.