Eurovision Isaak Guderian syngur fyrir Þýskaland í kvöld en hann er af íslenskum ættum.
Eurovision Isaak Guderian syngur fyrir Þýskaland í kvöld en hann er af íslenskum ættum. — AFP/Jessica Gow
Íslendingar eiga fulltrúa á úrslitakvöldi Eurovision-söngvakeppninnar í Malmö í Svíþjóð í kvöld þótt framlag Íslands hafi ekki hlotið brautargengi í undankeppninni. Isaak Guderian, sem keppir fyrir hönd Þýskalands, er af íslensku bergi brotinn

Íslendingar eiga fulltrúa á úrslitakvöldi Eurovision-söngvakeppninnar í Malmö í Svíþjóð í kvöld þótt framlag Íslands hafi ekki hlotið brautargengi í undankeppninni. Isaak Guderian, sem keppir fyrir hönd Þýskalands, er af íslensku bergi brotinn. Hann á íslenska móður og þýskan föður.

Móðir hans, Elísabet Guderian, er stödd í Malmö og var að líta eftir fimm ára gömlum syni keppandans þegar Morgunblaðið heyrði í henni hljóðið. Hún er full tilhlökkunar fyrir kvöldinu en segist ekki finna fyrir stressi fyrir hönd Isaaks. Hann viti hvað hann sé að gera og hafi talsverða reynslu á tónlistarsviðinu þótt einungis 28 ára sé.

Isaak flytur eigið lag sem ber heitið Always on the Run. Spurð hvort Þjóðverjar fylgist vel með Eurovision segir Elísabet það vera misjafnt. „Þeir vonast til þess að Isaak nái í fleiri stig en Þýskaland hefur fengið að undanförnu. Þeir yrðu rosalega glaðir ef hann ynni en ég held að Þjóðverjar séu aðallega orðnir rosalega þreyttir á því að hafna í síðsta sætinu,“ segir Elísabet.

Undirbúningur fyrir keppnina krefst mikillar vinnu, ýmist í æfingum eða einhvers konar markaðssetningu á atriðinu. Öryggisgæslan er mikil að sögn Elísabetar enda hafa átökin á milli Ísraels og Hamas fléttast inn í umræðuna um keppnina. Hún hefur því ekki eytt miklum tíma með Isaak.

„Í gær [á fimmtudag] fórum við inn á svæðið og fórum á viðburð þar sem hann kom fram ásamt fleiri keppendum. Sonur hans fékk að hitta foreldrana og þau sýndu honum höllina. Um leið og Isaak kom út að heilsa upp á mig þá kom fólk um leið sem vildi fá að taka myndir og bað um eiginhandaráritanir.“

Elísabet flutti fyrir 40 árum til Þýskalands og þar er Isaak uppalinn ásamt fjórum systkinum. Þau eiga stóran frændgarð á Íslandi en Elísabet er úr Reykjavík. kris@mbl.is