Áframhaldandi lífskjarasókn okkar mun hér eftir sem hingað til byggjast á utanríkisviðskiptum og öflugu samstarfi við okkar helstu markaði.

Úr ólíkum áttum

Úr ólíkum áttum

Þórdís Kolbrún R.

Gylfadóttir

thordiskolbrun@althingi.is

Í heimi þar sem alþjóðasamskipti eru óstöðug og framtíð þeirra óviss er mikilvægt að varðveita þau tengsl sem hafa reynst okkur vel og reynast enn. Í 30 ár hefur samningurinn um evrópska efnahagssvæðið veitt Íslendingum greiðan aðgang að markaði 450 milljóna manna þar sem starfa 23 milljónir fyrirtækja í 30 löndum. Markaður sem í dag er okkar mikilvægasti markaður í utanríkisviðskiptum.

Á þessum tíma hefur margoft verið metið hvort samningurinn þjóni okkar hagsmunum og niðurstaðan er ávallt sú að hann þjóni þeim vel og hafi gjörbreytt lífskjörum Íslendinga til hins betra. Um helmingur íslensku þjóðarinnar var ófæddur eða ekki orðinn 10 ára þegar samningurinn tók gildi og ýmsir virðast taka kostum hans sem sjálfsögðum hlut.

Greinilegur ávinningur

Á þessum tímamótum og með hliðsjón af stöðu alþjóðamála er tilefni til að minna á hverju samningurinn hefur skilað okkur. Við höfum gengið í gegnum mikið hagvaxtarskeið, drifið áfram af hraðari útflutningsvexti sl. 30 ár en árin 30 þar á undan. Til að setja það í samhengi var efnahagslögsaga Íslands færð út í 50 mílur og 200 mílur á árunum 30 fram að EES-samningnum auk þess sem álframleiðsla hófst. Ísland varð opnara, sem hefur stuðlað að erlendri fjárfestingu og auðgað vinnumarkaðinn, auk þess að skapa Íslendingum meiri tækifæri á að starfa og stunda nám um nær alla Evrópu.

Beinn efnahagslegur ávinningur er skýr en EES-samningurinn hefur stuðlað að víðtækari framförum. Með samningnum hefur ýmis lagaumgjörð verið færð til nútímans auk þess sem hann skapað tækifæri á sviði vísinda, rannsókna og menntunar. Ekkert af þessu kom af sjálfu sér, heldur með skýrri sýn og skynsamlegum ákvörðunum á sviði stjórnmálanna. Þátttaka okkar í samkeppnissjóðum hefur skilað alvöruárangri fyrir íslenskt hugvit og fyrirtæki hér á landi og er hluti af þeim miklu jákvæðu breytingum sem við höfum náð fram á sviði hugvits og nýsköpunar.

Þurfum að viðhalda samningnum

EES-samstarfið er gríðarlega fjölbreytt og nær til ótal þátta sem varða ólíkar þjóðir. Því er eðlilegt að upp komi álitamál þar sem hagsmunir okkar og annarra þjóða stangast á. Við þurfum að hafa vökult auga fyrir slíkum málum og beita okkur af festu í hagsmunagæslu. Til dæmis má nefna loftslagslöggjöf og ETS-kerfið, sem miðar að því mikilvæga markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Því má velta upp hvort allar þær kröfur þjóni tilgangi sínum ef raunhæfir kostir og lausnir eru ekki fyrir hendi. Ef kostnaðurinn við slíkar kröfur lendir af afli á borgurunum, án skýrs ávinnings, er einfaldlega hætt við að stuðningur snúist hratt í andstöðu. Evrópusambandið, og þar af leiðandi Evrópska efnahagssvæðið, er ólíkt og mun stærra en það sem við gengum til samninga við fyrir 30 árum. Enginn sinnir hagsmunagæslunni fyrir okkur og þess vegna þarf sterka utanríkisþjónustu, í samstarfi við íslenskt atvinnulíf, til að standa vörð um þá hagsmuni.

Umræða um gullhúðun á rétt á sér en er heimatilbúinn vandi og kallar á heimavinnu okkar. Sannarlega er regluverk EES-samningsins misgagnlegt. Samningur sem nær til alls evrópska efnahagssvæðisins er ekki fullkominn og verður aldrei en jákvæð áhrif þess eru margföld á við þau neikvæðu. Það er fráleitt að halda að það myndi einfalda líf okkar ef við hefðum 29 mismunandi samninga frekar en einn, um utanríkisviðskipti, með tilheyrandi flækjum. Stóra myndin er þessi: EES-samningurinn er eins og hraðbraut í samanburði við þá malarvegi sem umgjörð um utanríkisviðskipti okkar og frelsi í Evrópu til að stunda nám, flytjast til og kaupa þjónustu á er. Við erum tæplega 400 þúsund og sú hraðbraut veitir okkur aðgang að rúmlega þúsund sinnum stærra markaðshagkerfi. Þó að það séu stöku holur eða grjót á þeirri hraðbraut viljum við ekki rífa hana í sundur og fara aftur á malarveginn. Það getur aldrei verið skynsamleg niðurstaða út frá hagsmunum Íslendinga. Áframhaldandi lífskjarasókn okkar mun hér eftir sem hingað til byggjast á utanríkisviðskiptum og öflugu samstarfi við okkar helstu markaði.

Utanríkispólitík og efnahagsstefna

Hrottafengið innrásarstríð Rússlands í Úkraínu hefur minnt okkur á mikilvægi þess að eiga í öflugu varnarsamstarfi við okkar vinaþjóðir, sem á sér að mestu leyti stað í gegnum Atlantshafsbandalagið. Það er líka mikilvægt að huga að efnahagslegu öryggi á þessum viðsjárverðu tímum. Heimsfaraldurinn var næg ástæða en með stríðsátökum í heimsálfunni okkar er það öllum ljóst.

Það er ekki hægt að aðskilja utanríkispólitík frá almennri efnahagsstefnu. EES-samningurinn er einfaldlega okkar mikilvægasti viðskiptasamningur við mikilvægan markað. Ávinningurinn sem hann skilar okkur var ekki, er ekki og verður aldrei sjálfsagður. Við þurfum að halda áfram að tryggja að samstarfið standist tímans tönn og gæta að hagsmunum Íslands. Það gerum við best með því að hlúa að EES-samstarfinu og sinna hagsmunagæslu okkar af alvöru og af ábyrgð – fyrir okkur öll.