Landeyjahöfn Álfsnesið dælir upp sandi. Hægt verður að auka afköstin.
Landeyjahöfn Álfsnesið dælir upp sandi. Hægt verður að auka afköstin. — Ljósmynd/Vegagerðin
Stefnt er að því að auka afköst dýpkunarskipsins Álfsness í Landeyjahöfn um 50%. Nýliðinn vetur var erfiður í Landeyjahöfn og Herjólfur þurft að sigla margar ferðir til Þorlákshafnar. Fenginn var sérfræðingur frá Hollandi til ráðgjafar

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Stefnt er að því að auka afköst dýpkunarskipsins Álfsness í Landeyjahöfn um 50%.

Nýliðinn vetur var erfiður í Landeyjahöfn og Herjólfur þurft að sigla margar ferðir til Þorlákshafnar. Fenginn var sérfræðingur frá Hollandi til ráðgjafar. Skoðun hans hefur leitt í ljós að Álfsnes hentar vel til dýpkunar við þær aðstæður sem eru uppi í Landeyjahöfn.

Vinna undir stjórn hins erlenda sérfræðings hefur leitt fram leiðir til úrbóta við nýtingu skipsins og á grundvelli hennar hefur verið sett fram áætlun um breytingar á skipinu og verklagi á dælingu, segir á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Aðgerðaáætlunin er í fjórum liðum. Þar er tekið á mönnun og þjálfun, smærri breytingum, umfangsmeiri breytingum og eftirfylgni við þessar breytingar næsta vetur þegar á reynir. Björgun ehf., sem gerir út skipið, hefur unnið þessa áætlun.

Í skýrslu sérfræðingsins kemur fram að með núverandi búnaði Áflsness megi skila í dýpkun 12-14 þúsund rúmmetrum á sólarhring, sem er um 50 prósentum meira en afköstin hafa verið hingað til. Þessi afköst eru í takt við þá reynslu sem hefur fengist seinni hluta aprílmánaðar.

Þessum markmiðum megi ná fram með mönnun og þjálfun starfsmanna. Stytta má snúningstíma skips og hraða losun og nýta skipið þannig mun betur. Ráðinn verður sérstakur útgerðarstjóri til að fylgja því eftir að ávallt sé unnið á hámarksafköstum.

Gerðar verða nú þegar smærri breytingar á búnaði og á næstunni frekari breytingar. Snýr það fyrst og fremst að dælubúnaði.