Flinkur Snjallasti leikmaður Íslands og einn sá besti á mótinu, Emil Alengård, skilur Nýsjálendinga eftir á ísnum.
Flinkur Snjallasti leikmaður Íslands og einn sá besti á mótinu, Emil Alengård, skilur Nýsjálendinga eftir á ísnum. — Ljósmynd/Kristján Maack
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
2010 Þægilegra hefði til dæmis verið fyrir sundlandsliðið að þvælast þetta með sundskýlur og sundboli.

Baksvið

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Athygli umheimsins beindist að Íslandi á vormánuðum árið 2010. Ekki var það vegna skákeinvígis eða leiðtogafundar í þetta skiptið heldur sáu náttúruöflin til þess að flug lá svo gott sem niðri í Evrópu dögum saman. Í framhaldinu var Eyjafjallajökull skyndilega á allra vörum í öllum heimsálfum. Reyndar í alls kyns útgáfum en í ljós kom að nafn jökulsins er ekki það þjálasta fyrir sjónvarpsfólk úti í heimi að bera fram.

Í þessari upprifjun, sem er hluti af umfjöllun tengdri 110 ára afmæli Morgunblaðsins, förum við örlítið aðra leið en við höfum gert í greinunum hingað til. Leiðin sem við förum er frá Eistlandi til Íslands en þannig háttaði til að blaðamaður Morgunblaðsins var staddur í Eistlandi þegar eldgosið hófst í Eyjafjallajökli 14. apríl. Fylgdi hann karlalandsliði Íslands í íshokkí eftir en heimferðin reyndist ekki einföld í útfærslu. Varð þá til nýyrðið að vera gostepptur.

Karlalandsliðið í íshokkí hafði leikið í borginni Narva í 2. deild heimsmeistaramótsins en borgin er við rússnesku landamærin. Fyrirhugað var að fljúga frá Tallinn til Kaupmannahafnar og þaðan til Keflavíkur en þau áform voru í fullkomnu uppnámi þegar Eyjafjallajökull hóf að frussa út úr sér alls kyns gufum. Það var óneitanlega sérstakt að vera staddur í Eistlandi og sjá forsíður þarlendra dagblaða í verslunum þar sem stóð Islandia stórum stöfum og mynd af eldgosi.

Sjóleiðin farin til Svíþjóðar

Landsliðið og fylgdarlið, sem var tæplega 30 manna hópur, fór frá Narva nóttina eftir síðasta leikinn og hóf daginn á þriggja tíma rútuför frá Narva til Tallinn. Var þá farið rakleiðis á flugvöllinn í Tallinn en þar hafði hópurinn átt bókað flug til Kaupmannahafnar. Var talið rétt að mæta á staðinn og láta vita af sér til að tryggja rétt á endurgreiðslu og þess háttar. Að sama skapi var talið rétt að halda til Kaupmannahafnar þar sem hópurinn átti bókað með Icelandair heim þótt óljóst væri hvenær hægt yrði að fljúga.

Hallmundur Hallgrímsson, þáverandi framkvæmdastjóri Íshokkísambandsins, var fararstjóri í ferðinni. Kristján Maack tækjastjóri liðsins í ferðinni og Gauti Arnþórsson læknir skipuðu öldungaráðið með Hallmundi þegar lagt var á ráðin um hvað gera skyldi. Kristján hafði einnig myndað fyrir Morgunblaðið í ferðinni.

Þegar flugumferð stöðvast víðast hvar í álfunni færist álagið skiljanlega yfir á aðra ferðamáta. Skyndilega var ekki einfalt að ná í lestarmiða sem dæmi og hvað þá fyrir stóran hóp. Úr varð að hópurinn fór með ferju frá Tallinn til Stokkhólms sem var sniðug lausn. Þar sem menn voru hvort sem er í biðstöðu var alla vega hægt að drepa tímann um borð í ferju.

Gífurlegur farangur fylgdi

Gengið var á land í Stokkhólmi daginn eftir og haldið á lestarstöðina. Þar áttu sér stað miklar bollaleggingar um hvort hægt væri að koma hópnum í rútu til Kaupmannahafnar. Fimm í hópnum voru búsettir í Svíþjóð og sögðu þar skilið við hópinn. Það voru bræðurnir Dennis og Robin Hedström, Emil Alengård og Daniel Ädel, sem eiga íslenskar mæður og sænska feður, og þáverandi aðstoðarlandsliðsþjálfari Johan Bjornfot sem er sænskur.

Greinarhöfundur hugsaði með sér hversu óheppilegt það væri að íshokkílandsliðið lenti í þessum þvælingi. Í samanburði við önnur landslið fylgir þessu landsliði langmestur farangur. Þægilegra hefði til dæmis verið fyrir sundlandsliðið að þvælast þetta með sundskýlur og sundboli. En íshokkíinu fylgja búningar, hlífar og hlífðargalli, skautar, hjálmar, stórir hanskar og kylfur fyrir rúmlega 20 manns. Kylfurnar eru til dæmis ekki einhver prik sem eru skilin eftir enda kostaði eins slík líklega á bilinu 20 til 30 þúsund á þeim tíma.

Sambönd Kristjáns nýtt

Eftir nokkra klukkutíma í Stokkhólmi stóð til að leigja rútu til Kaupmannahafnar. Auk þess var talið að fyrsta flug til Íslands yrði þaðan. Kristján Maack komst hins vegar á snoðir um að vindarnir blésu með þeim hætti að ekki yrði flogið frá Kaupmannahöfn í bráð. Bróðir Kristjáns var flugstjóri hjá Icelandair og var ásamt öðrum í sinni stétt í biðstöðu og í stöðugri leit að upplýsingum. Kristján fékk frá honum þær fréttir að miðað við vinda- og veðurspár væri ekki ósennilegt að hægt yrði að fljúga fljótlega frá Stokkhólmi.

Var þá ákveðið að gista í Stokkhólmi og bíða frekari fregna. Raunin varð sú að Icelandair gat farið frá Stokkhólmi til Keflavíkur og fór hópurinn út á flugvöll um leið og fréttirnar bárust eftir eina nótt í höfuðborg Svíþjóðar. Andrúmsloftið í hópnum hafði súrnað að einhverju leyti enda margir með alls kyns skyldur heima fyrir sem biðu þeirra. Í hefðbundinni landsliðsferð var fjarvera frá börnum, mökum, vinnu og námi alveg nógu löng án þess að tafir sem þessar bættust við.

Hægt var að troða meirihlutanum um borð í vélina heim en Kristján sat til að mynda í flugstjórnarklefanum. Hallmundur hafði áður verið til sjós og taldi rétt að setja sig aftast í röðina að hætti skipstjóra. Fór hann ásamt fimm leikmönnum frá Noregi daginn eftir. Greinarhöfundur fór heim með vélinni frá Stokkhólmi.

Arlanda nánast mannlaus

Er mér mjög minnisstætt að fara í gegnum nánast mannlausan Arlanda-flugvöllinn því flugið til Keflavíkur var það eina sem var á dagskrá. Eldfjallaeyjan var eini áfangastaðurinn sem flogið var til frá Svíþjóð þótt þar væri eldgosið sem allt hafði sett úr skorðum. Mér þótti hálfvandræðalegt þegar ég áttaði mig á því að Svíarnir höfðu opnað megnið af verslununum á flugvellinum fyrir farþega þessarar einu flugvélar. Ekki reyndist það krefjandi vakt fyrir verslunarfólkið.

Snorri Sigurbjörnsson og Matthías Máni Sigurðarson urðu eftir í Noregi en þeir léku með norskum liðum. Jónas Breki Magnússon og Birkir Árnason fóru til Kaupmannahafnar þar sem þeir bjuggu. Auk þess höfðu Pétur Maack og Þorsteinn Björnsson sett á sig bakpokana í Tallinn og haldið á vit ævintýranna í austurhluta Evrópu enda var keppnistímabilinu lokið. Þeir sem þurftu að komast heim til Íslands voru því nokkuð færri en þeir sem höfðu tekið þátt í mótinu.

Biðin hefði orðið dýr

Morgunblaðið rifjaði förina upp með þeim Hallmundi og Kristjáni til að fá sem skýrasta mynd af því hvernig heimferðin gekk fyrir sig. Spurður um fjárhagslegt högg fyrir Íshokkísambandið segir Hallmundur það hafa verið nokkurt í ljósi þess að fara þurfti með stóran hóp í ferju og gista aðra nótt í Svíþjóð.

Hann segir hins vegar að ÍHÍ hafi sloppið mjög vel fyrst hægt var að fara frá Stokkhólmi heim vegna þess að vika leið þar til fært var frá Kaupmannahöfn. Skilja þurfti farangur eftir í Stokkhólmi þegar flogið var heim. Hallmundur segir Eimskip hafa flutt farangurinn til Íslands án þess að rukka fyrir og mjög hafi munað um það.

Íslenska landsliðið vann þrjá leiki og tapaði tveimur í Narva og hafnaði í 3. sæti í 2. deild heimsmeistaramótsins en í íshokkí er HM deildaskipt og fer fram á hverju ári. Var þetta besti árangur Íslands á HM fram til þessa og jafngilti 31. sæti í heiminum. Ísland vann Nýja-Sjáland, Kína og Ísrael en tapaði fyrir Rúmeníu og heimaliðinu Eistlandi en Ísland lék undir stjórn Richards Tahtinens.

Höf.: Kristján Jónsson