Vélþýðing Verður lyklaborð framtíðarinnar einhvern veginn í þessum dúr?
Vélþýðing Verður lyklaborð framtíðarinnar einhvern veginn í þessum dúr? — Mynd/Balkouras Nicos, Unsplash
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef komið oft til Króatíu, á króatíska vini, en kann ekki króatísku. Því finnst mér upplagt að nota sjálfvirkan þýðingahnapp fésbókar þegar vinirnir rita á móðurmáli sínu og það gerir furðumikið gagn

Tungutak

Sigurbjörg Þrastardóttir

sitronur@hotmail.com

Ég hef komið oft til Króatíu, á króatíska vini, en kann ekki króatísku. Því finnst mér upplagt að nota sjálfvirkan þýðingahnapp fésbókar þegar vinirnir rita á móðurmáli sínu og það gerir furðumikið gagn. Heilu setningarnar eru jafnvel svo sannfærandi – með stíl, slangri og hvaðeina – að ég fer að efast um þann allsherjar fyrirvara sem ég hef hingað til haft á vélþýðingum. Nýverið gerði vinkona mín Dorta könnun á því hvað fólk í hennar tengslaneti hræðist mest. Svörin voru fjölbreytt (ekki bara smrt, þ.e. dauði) og til að bregða smá ljósi á almennar beinþýðingar birti ég fáein dæmi. Ég vel vissulega úr, en það sem vinunum stafar ógn af er, orðrétt:

Veikindi og stríðsrekstur!!! / Að lifa eigin börn. / Ég er hrædd við andlega og líkamlega fötlun þannig að einhver þurfi að hjálpa mér með einföldustu og nánustu hluti. / Fólk er hrætt við allt á mismunandi hátt, fer eftir aldri og staðreyndin er að konur eru hræddari, allavega sýna þær það. Ég óttast mest fáfræði og synd. / Ég er hræddur um að veikindin hendi mér í rúmið og að það sé enginn til að hugsa um mig. / Akstur bílsins. Ég er dauðhræddur við að drepa eða særa einhvern. / Stríð og niðurbrot félagslegra og mannlegra gilda. / Ég er hræddur um að þessir sömu vinni kosningarnar aftur. / Ég er hrædd um að eitthvað komi fyrir börnin mín. / Að við verðum svöng og heimilislaus. / Ég er hræddur við lítil nagdýr. Um leið og ég segi „mús“, upphátt eða inn, fæ ég kuldahroll aftan á höfuðið. / Afmennskun samfélagsins. Veikleikar mínir í ellinni. Verkir.

Sumt var næstum eins vel orðað:

Nánd. Eins mikið og ég þrái hana og það hræðir mig. Höfnun frá þeim sem ég hleypi nálægt þegar hann sér mig í raun. / Svínaríið sem fleiri komast upp með er óþrjótandi, hvort sem þeir hafa einhver raunveruleg völd eða ekki. / Ég er hrædd við hið óþekkta – þ.e. það sem ég get ekki séð fyrir í huganum sem gæti gerst – til dæmis fæðingu – ekkert þeirra er eins jafnvel hjá sömu manneskjunni – og þú hreinlega veist ekki hvað bíður þín …

Og sumt var ljóslega vélþýtt, inntakið samt skýrt:

Úr ruslinu mun svo margt magn dynja yfir okkur og eitra fyrir okkur eiturefnunum sem það skapar, bakteríur, vírusar, sveppir, ormar … / Að missa getuna til að ákveða sjálf. Augnablik engrar útgönguleiðar. Lifandi líkami með dauðum anda. / Og auðvitað er ég myrkrið hræddur.

Ég hef sem fyrr segir engu hnikað og finnst satt að segja merkilegur árangur hjá græjunni að þýða svona af fámennu máli (4 millj.) yfir á annað fámennismál (400 þús.) því ekkert ku kenna henni betur en víðtæk gögn og mikil notkun.

Svo les maður fréttir sem eru merktar íslenskum blaðamönnum („Ég er Salah, þú værir ekki með titil án mín Jürgen“ o.s.frv.) og spyr sig hvort þýðingavélarnar séu sums staðar farnar að starfa alveg sjálfstætt. Ha. Það væri nú of langt gengið.