Mídas óskaði sér þess að allt sem hann snerti yrði að gulli, en óskaði sér þess á endanum að „gjöfin“ yrði tekin til baka.
Mídas óskaði sér þess að allt sem hann snerti yrði að gulli, en óskaði sér þess á endanum að „gjöfin“ yrði tekin til baka. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég þekki ekki vísindin um þetta mál en trúi því sjálfur auðveldlega að 15 mínútna langt „alvöru“ samtal rækti geðheilsu okkar miklu betur en heill dagur af kommentakerfum og svartholsskrolli á félagsmiðlum.

Smitberinn

Halldór Armand

halldor.armand@

gmail.com

Ímyndum okkur að upp af síðu þessa dagblaðs stigi nú andi og byði þér að verða auðugasta manneskja í heimi. Eina skilyrðið væri að þú mættir ekki eiga nein samskipti við ástvini þína. Að öðru leyti værir þú frjáls til að gera allt sem þig lysti. Þú gætir ferðast á hvaða stað sem er, keypt hvaða munað sem hugurinn girnist, og gist á hvaða lúxushóteli sem er. Þú hefðir heiminn í hendi þér. Þú gætir bara ekki hitt eða talað við fjölskyldu þína og vini á meðan. Spurt er: Hversu lengi myndirðu endast í þessari eins manns veislu? Hvenær myndirðu byrja að finna fyrir nístandi einmanaleikanum? Dytti þér einhvern tímann í hug að ganga að þessu boði til að byrja með?

Ég gef mér að yfirgnæfandi meirihluti lesenda myndi hafna boðinu án þess að þurfa að velta því sérstaklega fyrir sér. Hvað ef það mætti biðja um prufuáskrift? Hversu lengi heldurðu að þú myndir endast? Einn dag? Eina viku? Einn mánuð?

Þessi barnalega hugleiðing er auðvitað tilbrigði við goðsögnina um Mídas konung í Frýgíu. Hann vaknaði einu sinni við það að satýrinn Sílenus, leiðbeinandi guðsins Díónýsosar, hafði sofnað í rósagarðinum hans eftir að hafa farið mikinn á djamminu. Mídas hugsaði vel um Sílenus og Díonýsos ákvað að launa honum með því að veita honum eina ósk. Verandi óseðjandi og gráðugur óskaði Mídas sér að allt sem hann snerti yrði að gulli. Díónýsos varð hryggur við að heyra þessa ósk en kinkaði svo kolli. Og allt sem Mídas snerti eftir það varð að gulli, hvort sem það voru rósirnar í garðinum hans, veggirnir í höllinni, maturinn sem hann reyndi að borða eða vínið sem hann reyndi að drekka. Í einni útgáfu goðsagnarinnar breytist meira að segja dóttir hans í gullstyttu. Mídas varð að lokum svo vannærður og einmana að hann grátbað guðinn um að taka „gjöfina“ til baka.

Það er kannski ekki eingöngu bundið við nútímann en við lifum á tímum þar sem árangur í lífinu er fyrst og fremst mældur af þremur þáttum; peningum, völdum og frægð. Þessi hugmynd um árangur er mjög sjáanleg í hefðbundnum fjölmiðlum og allsráðandi á félagsmiðlum þar sem þorri manna lifir í eilífum og viðvarandi samanburði á lífi sínu við annarra. Á Vesturlöndum – og eflaust gildir það sama á heimsvísu – geisar nú krísa í andlegu heilbrigði fólks og tölur sem birtast um líðan ungs fólks eru sérstaklega sláandi. Eins sorglegt og það er nú að segja það þá kemur þessi einmanaleika- og kvíðafaraldur samt ekki svo á óvart. Félagsmiðlar á borð við Instagram hreinlega hannaðir til að láta fólki líða illa vegna þess að það er á endanum besta leiðin til að fá það til að taka upp veskið.

Það er stórkostlegt að geta nýtt tæknina til að tengjast öðru fólki og halda sambandi við ástvini sem eru í burtu. Spurningin er hins vegar hvort nútímatækni framkalli hugsanlega ofsafengið magn samskipta á kostnað gæða þeirra. Ég þekki ekki vísindin um þetta mál en trúi því sjálfur auðveldlega að 15 mínútna langt „alvöru“ samtal rækti geðheilsu okkar miklu betur en heill dagur af kommentakerfum og svartholsskrolli á félagsmiðlum.

Raunverulegur árangur í lífinu felst í sambandi okkar við fólkið sem við elskum. Sannur styrkur felst ekki í völdum, frægð eða peningum heldur í örlæti – getunni til þess að veita og þiggja ást, stuðning og væntumþykju. Mesta gjöf sem hægt er að gefa öðrum felst einfaldlega í nærveru, að hafa tíma fyrir fólk, að vera til staðar sama hvað á bjátar. Þetta blasir við þegar við stöldrum aðeins við og hugsum málið til enda en nútímasamfélag er engu að síður allt morandi í földum skilaboðum til fólks um að það sé ekki nógu merkilegt eins og það er, að það eigi ekki skilið ást, að líf þess sé mislukkað. Þannig er fátt róttækara en að sýna fólki að það er elskað nákvæmlega eins og það er.