Taylor Swift á sviðinu í París. Hún nú á Evróputúr en kemur því miður ekki til Íslands.
Taylor Swift á sviðinu í París. Hún nú á Evróputúr en kemur því miður ekki til Íslands. — AFP/Julien De Rosa
Megastjarnan Taylor Swift hóf tónleikaferðalag sitt um Evrópu í París á fimmtudaginn þar sem 45 þúsund manns fengu að berja hana augum. Hún spilaði eldri lög í bland við lög af nýjustu plötu sinni „The Tortured Poets Department“

Megastjarnan Taylor Swift hóf tónleikaferðalag sitt um Evrópu í París á fimmtudaginn þar sem 45 þúsund manns fengu að berja hana augum. Hún spilaði eldri lög í bland við lög af nýjustu plötu sinni „The Tortured Poets Department“. Næst mun stjarnan heimsækja Svíþjóð, Portúgal, Spán, Bretland, Írland, Holland, Sviss, Ítalíu, Þýskaland, Pólland og Austurríki. Áður hefur Swift spilað í Bandaríkjunum, Suður-Ameríku og Asíu en túrinn, sem nefnist The Eras Tour, hófst í mars 2023.

Eitruð sambönd og pólitík

Um síðustu áramót varð Swift fyrsti listamaðurinn til að selja miða fyrir milljarð dollara en sú upphæð verður tvöfalt hærri nú í árslok þegar hún lýkur túrnum í Vancouver í Kanada. Fleiri met hafa fallið en nýja platan hennar fékk 1,4 milljónir niðurhala á fyrsta deginum og á fimmta degi var talan komin í milljarð.

Í lögum sínum fjallar Swift á opinskáan hátt um ástina og hafa aðdáendur legið yfir textunum á nýju plötunni í leit að vísbendingum um fyrrverandi kærasta hennar, Joe Alwyn, um hið stutta en dramatíska ástarævintýri hennar með Matty Healy og um nýja kærastann, amerísku ruðningshetjuna Travis Kelce.

Einn tónleikagestanna komst þannig að orði:

„Taylor talar um eitruð sambönd, ómögulega ást, pólitík, andlega heilsu og svo margt margt fleira. Ég held við getum öll fundið lag sem við tengjum við.“