Það verður að vera hægt að ræða hlutina án öfga og yfirgangs

Offors og yfirgangur er allt of algengur í umræðum um málefni dagsins. Sumir virðast orðið eiga erfitt með að ræða málin, heldur ráðast fram líkt og þeir séu fullir af reiði og hatri. Hér hefur verið hrópað að ráðherrum að þeir séu morðingjar, ef ekki þjóðarmorðingjar, og tilraunum til að ræða málin er mætt með öskrum og ópum.

Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur steig fram fyrir skjöldu skömmu fyrir mánaðamót og sagði að það þyrfti að ræða samskipti og hvernig fólk umgengist hvert annað. Opinberar persónur yrðu fyrir einelti og ofsóknum og fengju jafnvel yfir sig hótanir.

Frederiksen birti skilaboð sem hún hefði fengið. Svívirðingar, skammir, kvenfyrirlitning, hatur og hótanir væru daglegt brauð. Í raun væri enginn undanskilinn. Hótunum rigndi yfir blaðamenn, vísindamenn, embættismenn, íþróttamenn og stjórnmálamenn.

Upp á síðkastið hefði hún orðið fyrir meiri árásum og fengið fleiri hótanir en nokkru sinni áður. Hún hefði verið kölluð tískuhóra, síonistahundur og mesta fylgihóra Danmerkur og lýst sem ógeðslegri dræsu.

Í Þýskalandi er fólk hætt að láta sér nægja að fá útrás fyrir hatrið og reiðina með skilaboðum. Fyrir viku réðust fjórir ungir menn á Matthias Ecke, frambjóðanda Saxlands til Evrópuþingsins, þar sem hann var að hengja upp kosningaplakat í Dresden og börðu til óbóta. Ecke endaði á sjúkrahúsi með brotið kinnbein.

Mörgum brá við þessa árás og í Þýskalandi fer nú fram umræða um hvort stjórnmálamenn þurfi á aukinni vernd að halda til að gæta öryggis þeirra.

Það ýtti enn undir þá umræðu að á þriðjudag var í tvígang ráðist á þýska stjórnmálamenn. Franziska Giffey, fyrrverandi borgarstjóri Berlínar, sat á bókasafni í borginni þegar ráðist var á hana og hún slegin með hörðum hlut í höfuðið. Síðar sama dag var Yvonne Mosler, stjórnmálamaður úr röðum Græningja, að líma upp veggspjöld í Dresden þegar veist var að henni og hrækt á hana. Árásarmennirnir létu ekki aftra sér að hún var í fylgd kvikmyndatöku­manna frá ríkismiðlinum Deutsche Welle.

Í Þýskalandi er deilt um það gegn hvaða flokki reiðin beinist helst, en ljóst er að liðsmenn þeirra allra fá sínar trakteringar. Árásirnar beinast heldur ekki eingöngu gegn þeim sem sitja í æðstu stöðunum og njóta því verndar. Þær beinast ekkert síður að stjórnmálamönnum á sveitarstjórnarstiginu.

Í umfjöllun Der Spiegel um þetta mál sagði að þessar árásir væru á hjarta lýðræðisins. Það er engin spurning að vegið er að lýðræðinu þegar offorsið er orðið svo mikið að lífi og limum stjórnmálamanna er ógnað, ef staðan er orðin sú að það er beinlínis hættulegt að opna munninn um viðkvæm mál.

Það er ekki gott ef fólk veigrar sér við að taka þátt í pólitík vegna hatursfullra ummæla og hótana. Það getur bæði orðið til þess að stjórnmálamenn draga sig einfaldlega í hlé og þora ekki að fylgja sannfæringu sinni vegna þess ósóma sem þeir fá yfir sig. Þetta andrúmsloft getur flæmt stjórnmálamenn úr pólitík og komið í veg fyrir að fólk hefji afskipti af pólitík. Þá hafa bullurnar náð markmiðum sínum.

Hér á landi má ætla að menn verði ekkert síður fyrir óvægnum árásum en eiga sér stað í Danmörku og Þýskalandi, og það hefur jafnvel borið við að vakt hefur verið sett fyrir utan heimili ráðherra vegna hótana. Þessar öfgar eiga hvergi heima. Það er yfirgengilegt ef svo er komið að ekki er hægt að ræða málin, skynsemi og yfirvegun hefur verið hent á haugana og einu svörin eru öskur og hótanir.