Áhrifamikil innsetning Archies Moores í sýningarskála Ástralíu hreppti Gullna ljónið fyrir besta þjóðarskálann. Moore er afkomandi frumbyggja og fjallar verkið um misrétti sem þeir hafa verið beittir. Á veggina hefur Moore skrifað með krít ættartölu sína í 65.000 ár en á palli á gólfinu eru hlaðar skjala 500 mála þar sem fjallað er um dauða jafn margra frumbyggja landsins í varðhaldi á síðustu áratugum.
Áhrifamikil innsetning Archies Moores í sýningarskála Ástralíu hreppti Gullna ljónið fyrir besta þjóðarskálann. Moore er afkomandi frumbyggja og fjallar verkið um misrétti sem þeir hafa verið beittir. Á veggina hefur Moore skrifað með krít ættartölu sína í 65.000 ár en á palli á gólfinu eru hlaðar skjala 500 mála þar sem fjallað er um dauða jafn margra frumbyggja landsins í varðhaldi á síðustu áratugum. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Og útlendinga alls staðar að mátti sjá ganga eða sigla á milli, arka út og inn af sýningarstöðum, og stundum troða sér á milli dagsferðalanganna sem einnig þyrpast til Feneyja …

Útlendingar alls staðar er yfirskrift aðalsýningar myndlistartvíæringsins í Feneyjum, sem settur var á dögunum. Og þá voru svo sannarlega útlendingar á flandri alls staðar í þessari einstöku eyjaborg, um og á milli aðalsýningarsvæðanna, í Giardini-garðinum og í hinni fornu Arsenale-skipasmíðastöð, þar sem bæði er tvískipt aðalsýningin og um helmingur þjóðarskálanna sem eru næstum níutíu. Afganginn af þjóðarskálunum er að finna víðsvegar um borgina og þar hafa líka verið settar upp allra handa sýningar á samtímalist og eldri myndlist, í söfnum og glæsihöllum, í görðum, kirkjum og tilfallandi lausu húsnæði. Og útlendinga alls staðar að mátti sjá ganga eða sigla á milli, arka út og inn af sýningarstöðum, og stundum troða sér á milli dagsferðalanganna sem einnig þyrpast til Feneyja og virðast margir ekki hafa hugmynd um að þar eigi sér stað sannkölluð árshátíð myndlistarlífs heimsins; árshátíð sem haldin er annað hvert ár, og alltaf er jafn áhugavert og spennandi að upplifa. En þá þarf líka helst fjóra eða fimm daga í að skoða.

Brasilíski sýningarstjórinn Adriano Pedrosa var fenginn til að setja saman aðalsýningu tvíæringsins og að vanda er mikið rætt og ritað um valið, enda á það að varpa ljósi á stöðu og mikilvægar áherslur í samtímamyndlist. Fyrir sýningu sína á þessum 60. tvíæringi fer Pedrosa svo sannarlega nýjar leiðir. Langflestir listamannanna eru fæddir sunnan miðbaugs og þannig sveigt frá evrópsk-bandarísku hefðaveldi listarinnar. Þá er meirihluti listamannanna látinn og ekki bara splunkuný verk undir heldur líka mikið af myndverkum frá seinni hluta tuttugustu aldar, sem Pedrosa notar til að sýna fram á mikilvægi listar sem er sjálfsprottin í samfélögum þjóða Afríku, Suður-Ameríku og Asíu, auk þess að sýna að ekki skipti endilega máli hvar módernískar áherslur hafi komið fyrst fram, heldur hvernig þær móti listsköpun á hverjum stað.

Að vanda eru þjóðarskálarnir fjölbreytilegir og fersk og forvitnileg innsetning Hildigunnar Birgisdóttur í þeim íslenska fellur mörgum í geð, hefur til að mynda lent á listum allnokkurra fjölmiðla yfir þá bestu. Hér eru svipmyndir frá hátíðinni og áhugasamir hvattir til að skella sér til Feneyja – tvíæringurinn stendur fram í nóvember.