Björg Magnúsdóttir
Björg Magnúsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björg Magnúsdóttir, aðstoðarmaður Einars Þorsteinssonar borgarstjóra, fékk samtals 890 þúsund krónur í greiðslur fyrir kynningarstörf fyrir borgina á árunum 2020 til 2022 en hún starfaði þá jafnframt fyrir RÚV

Björg Magnúsdóttir, aðstoðarmaður Einars Þorsteinssonar borgarstjóra, fékk samtals 890 þúsund krónur í greiðslur fyrir kynningarstörf fyrir borgina á árunum 2020 til 2022 en hún starfaði þá jafnframt fyrir RÚV.

„Á þessum tíma var Björg Magnúsdóttir sjálfstætt starfandi og tók að sér fundar- og veislustjórn fyrir m.a. heilbrigðisráðuneytið, Fræðagarð, Össur, ÍAV, Regin og Controlant auk Reykjavíkurborgar,“ sagði í svari borgarinnar við fyrirspurn blaðsins.

Var svo birt yfirlit yfir fundi þar sem Björg var fundarstjóri.

Kynnti uppbyggingu

Í fyrsta lagi á kynningarfundi um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis 30. október 2020. Í öðru lagi við beina útsendingu á fundi um fjárfestingar Reykjavíkur og fyrirtækja borgarinnar 12. febrúar 2021. Í þriðja lagi á kynningarfundi um athafnaborgina 30. apríl 2021. Í fjórða lagi á kynningarfundi um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis 29. október 2021 og í fimmta lagi á kynningarfundi um athafnaborgina 8. apríl 2022. Loks á kynningarfundi um uppbyggingu íbúða 4. nóvember 2022 en á þeim fundum er meðal annars rætt um þéttingu byggðar.

„Vinna við þessa fundi var töluverð og hafði Björg sem fundarstjóri samband við alla fyrirlesara í aðdraganda funda til að undirbúa kynningu á þeirra framlagi. Hún mætti einnig á undirbúningsrennsli þegar þau voru,“ sagði í skýringu frá borginni.

Björg kom að margvíslegri þáttagerð fyrir RÚV. Var meðal annars með Kappsmál og morgunþátt á Rás 2 á laugardögum með Gísla Marteini Baldurssyni. Fram kom í viðtali við hana á mbl.is haustið 2019 að hún var ráðin sumarafleysingamaður á fréttastofu RÚV sex árum áður. Hún hefði fengið tilboð um að vera einn af umsjónarmönnum Síðdegisútvarpsins á Rás 2 og tekið því fegins hendi.

Verktakar þurfa ekki leyfi

Spurður hvaða stöðu Björg hafði hjá RÚV sagði Stefán Eiríksson útvarpsstjóri að hún hefði verið verktaki en ekki starfsmaður RÚV.

Spurður hvort verktakar hjá RÚV hefðu frjálsar hendur til að taka að sér verkefni á öðrum vettvangi sagði Stefán að verktakar þyrftu ekki leyfi til að sinna öðrum störfum líkt og gilti um fastráðna starfsmenn. Loks kvaðst Stefán aðspurður ekki hafa „við höndina“ upplýsingar um hvaða störf Björg innti af hendi fyrir RÚV.

Björg gerði jafnframt kynningarmyndbönd tengd áðurnefndum viðburðum. Þar með talið um uppbyggingu í Gufunesi. baldura@mbl.is